Fjárans ormurinn beit mig!

Já ég varð illilega úti í þessari ormaárás. Jói minn þurfti einu sinni enn að vera með tengdó beint í æð í lengri tíma. Meiningin var sú að ég gæti lagað þetta sjálf eftir leiðbeiningum í gegnum MSN. En vitið, og ekki síst tölvuvitið, er nú ekki meira en Guð gaf svo það gekk auðvitað ekki. Þetta endaði svo með því að tölvukassinn var settur í öryggisbelti í bíl og ekið með hann til tölvugúrúsins þar sem allt var yfirfarið (Kærar þakkir Jói minn). Nú er hún vinkona mín hinsvegar komin aftur hérna á borðið hjá mér. Svei mér þá ég bara saknaði hennar þessa daga sem hún var í burtu. þetta er að verða hættulegt.


Ég fékk góða gesti í vikunni, þær Ingunni Ragnars og Birgit sem komu eftir hádegi og voru hinar rólegustu til klukkan langt gengin sex. Við vorum svo heppnar að veðrið var gott svo við sátum úti allan daginn. Það voru svo þær sem tóku tölvuna mína í bæinn og komu henni til Jóa. Eiga þær þakkir skilið fyrir það.


Frá miðvikudagskvöldi til föstudagskvölds passaði ég Odd Vilberg og Karlottu því Guðbjörg fór vegna eineltisverkefnisins til Hornafjarðar. Það gekk bara vel. Oddur var nú á leikskólanum að deginum og Karlotta á leikjanámskeiði til klukkan eitt. Við dunduðum okkur svo seinni partinn. Fórum m.a. út í Eden og skoðuðum blómin og málverkin og fengum okkur ís. Okkur fannst báðum voða gaman. Svo skoðuðum við nýja Skóladagheimilið sem Karlotta verður á eftir skóla í vetur. Ég var óskaplega hrifin af aðstöðunni þar og hafði það á orði við þá sem var að sýna okkur staðinn. Hún sagði þá að þetta væri talið besta skóladagheimili á landinu. Fínt að heyra það enda held ég að það geti varla orðið betra, a.m.k. aðbúnaðurinn.


Í dag fórum við Haukur í afmælisveislu Odds en hann verður 4ára 22. ágúst en þann dag verða vinirnir í heimsókn svo Guðbjörg ákvað að hafa svona fjölskyldukaffi í dag. Veðrið var yndislegt 24°hiti svo það var setið úti allan tímann. Það er alveg ótrúlegt hvað það hefur oft verið svona lygnt og gott veður í sumar og hitinn farið svona hátt. Við Haukur fórum svo í klukkutíma göngutúr í kvöld. Nú situr Haukur hinsvegar límdur yfir gömlum vestra í sjónvarpinu en ég ákvað að setja eitthvað smávegis inn á síðuna mína.


Áður en ég loka nú dagbókinni minni í kvöld þá ætla ég að reyna að endursegja brandara sem hann Unnsteinn sagði okkur í afmælinu í dag, en þá var verið að ræða um tölvur.


Maður var úti að slá blettinn fyrir framan húsið sitt þegar ljóshærða bráðfallega nágrannakonan hans kom þjótandi út og rauk að póstkassanum sínum, opnaði hann og kíkti inn, andvarpaði og skellti honum aftur. Síðan þaut hún inn. Nokkru síðar kom hún aftur þjótandi út og að póstkassanum, opnaði hann og andvarpaði mun hærra en fyrr, skellti honum aftur og þaut inn. Maðurinn hélt áfram að slá en undraðist nokkuð hegðan nágrannakonunnar. Einu sinni enn kemur hún þjótandi og nú opnaði hún póstkassann og beinlínis urraði þegar hún skellti honum aftur. Okkar maður kallaði þá til hennar og spurði hvort það væri ekki allt í lagi.  „Nei“, sagði hún „Á tölvuskjáinn kemur alltaf YOU HAVE GOT MAIL  en svo þegar ég gái í póstkassann þá er hann alltaf tómur „


Mér fannst þessi mjög góður, ekki síst í ljósi rauna minna undanfarið og kann ég Unnsteini kærar þakkir fyrir

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar