Áramótin í höfuðstaðnum.

Við fórum strax klukkan eitt á gamlársdag af stað til borgarinnar til að vera þar um áramótin. Þegar við komum að Hveragerði sáum við stóran flottan flugeld æða upp á himininn. Mér varð þá að orði að það væri aldeilis, við færum bara fram hjá Hveragerði með viðhöfn. Í fyrstu var ljós reykurinn sem kom eftir skotið en síðan dökknaði hann mjög og jókst og þegar við vorum að aka upp Kambana fór ekki á milli mála að þarna hefði orðið eldsvoði.

bruni_hverageri.jpg

Ferðinni var heitið í Arnarsmárann til Sigurrósar og Jóa þar sem sú gamla þurfti að hafa smá sýnikennslu um gerð fyllingar í hátíðarfugl og hvernig þeirri krás væri fyrir komið í fuglinum. Eftir kaffi og kruðerí fórum við Haukur síðan á Austurbrúnina en Sigurrós sá um rest.

Ég sá að ég hefði tíma til að heimsækja hana Tótu (Þórunni) mína af Ásveginum sem nú er komin á Hrafnistu. Það voru hæg heimatökin að rölta yfir götuna af Austurbrúninni og sem betur fer náði ég henni áður en hún færi til að halda upp á áramótin með börnunum sínum.
Hún var svo ánægð þarna í pínulitla herberginu uppi í risi, ánægðust með að vera ein á herbergi og þetta væri allt svo ágætt og allir svo góðir við sig. Þetta er kona sem er að koma úr eigin húsi þar sem hún hefur hugsað um sig sjálf og tekið á móti gestum alveg fram að þessu. Ég ætla bara að vona að ef/þegar ég þarf að fara á elliheimili þá verði ég svona jákvæð og æðrulaus eins og hún Tóta mín.

Svo var komið að því að fara aftur í Arnarsmárann og þar vorum við, fyrst í mat ásamt Jens pabba Jóa aramot_i_arnarsmara.jpg

og síðan alveg fram yfir miðnætti. Aldrei hef ég séð annað eins magn flugelda og nú. Það var stórkostlegt að vera uppi á þriðju hæð þarna efst á kambinum og sjá yfir svona stórt svæði.

au_gmlu.jpg 

Elsku Sigurrós mín og Jói við þökkum ykkur kærlega fyrir heimboðið og allan góða matinn og þér Jens fyrir samveruna.

Eftir miðnættið fórum við svo að hitta tengdamömmu og systkini Odds heitins og fjölskyldur þeirra í Hófgerðinu. Það var mjög skemmtilegt og notalegt að hitta þau öll.

Á nýjársdag bauð Jóa (Eva) hans Hauks okkur í hádegisverð og bauð upp á Skötusel sem var lostæti mikið.

Ekki var allt búið enn því þegar við komum austur var okkur boðið í kaffi til Guðbjargar og Magnúsar Más.

Ég læt að lokum fylgja eina mynd af sprengiregninu um miðnættið.

aramot2005_2006.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Áramótin í höfuðstaðnum.

  1. Þórunn says:

    Áramót
    Ég segi Gleiðilegt ár, einu sinni enn. Þið hafið aldeilis átt góð áramót í faðmi fjölskyldunnar. Myndirnar þínar eru fallegar og fólkið á þeim glæsilegt.
    En þetta var sorglegt að svona fór í Hveragerði, en þó var lán eð enginn slasaðist.

  2. Kolla Rodeman says:

    Nýtt ár
    Gleðilegt nýjár Ragna mín.
    Eftir að hafa endur-uppgötvað þig á netinu hef ég daglega og dyggilega fylgst með jólaskrifum og myndum í dagbók þinni og haft mikla ánægju af. Jólin heima á Íslandi eru alltaf best. Vona að brunalyktin sé horfin úr húsi þínu. Þú varst snögg í ráðum.
    Fyrir utan eldhúsglugga minn blómstrar Jasmínan mín (Sækóróna?)
    skærgulum blómum þótt hér sé hávetur og runninn lauflaus. Hún blómstrar á vetrum og minnir um leið á vorið sem kemur seint og síðar meir.
    Við erum að fara í nýjársboð til Ingunnar mágkonu þinnar í kvöld. Þar er alltaf huggulegt.
    Kveðjur til allra
    Kolla

  3. Svanfríður says:

    Áramót
    Það er nauðsynlegt að vera í góðra manna hópi á hátíðum eins og áramótunum. Ég sá einmitt fregnir af brunanum í Hveragerði, alveg rosalegt og mikil mildi að enginn skyldi hreinlega ekki deyja. Heyrumst, Svanfríður

  4. Ragna says:

    Kolla mín, viltu skila kærri kveðju til Ingunnar. Mikið væri nú gaman að vera þarna hjá ykkur en fjarlægðin er mikil svo ég verð bara með ykkur í huganum.
    Kær kveðja,

  5. Sigurrós says:

    Takk fyrir 🙂
    Takk fyrir samveruna og alla hjálpina á gamlársdag og -kvöld. Ég var hæstánægð með þetta hjá okkur og ég held bara að kvöldið hefði ekki getað heppnast betur 🙂

  6. afi says:

    Ánægjuleg áramót
    Hvað er betra en að vera innanum góða vini og fjölskyldu á svona tímamótum? Þú hefur gert víðreist á þessu kvöldi. Það var gott að ekki fór verr í brunanum í „litlu“ byggðinni. Eigi skal gráta Björn bónda, heldur bretta upp ermar og safna liði.

Skildu eftir svar