Eftir áramót.

Nú fer lífið svona smám saman að komast í eðlilegt horf og það liggur við að  ég finni fyrir nokkurri tilhlökkun  þegar ég hugsa til þess að um helgina taki ég allt jóladótið  og pakki því niður í kassa, þrífi vel og taki svo aftur upp dótið sem fyrir var. Þó eru þetta blendnar tilfinningar líka því ég hálf kvíði fyrir því þegar öll jólaljósin hverfa því dimmari desember man ég ekki eftir og janúar heilsar með sama dimma veðurfarinu. Kannski finnst manni þetta alltaf en gleymir því svo frá ári til árs og  þegar næsti desember gengur í garð er svo spennandi að undirbúa jólin að maður tekur ekki eftir því hvað myrkrið er mikið. Jæja ekki má maður fara að sökkva sér niður í þunglyndi yfir þessu.

Skólinn byrjaði hérna í gær, reyndar ekki hjá börnunum heldur kennurunum sem þurftu að undirbúa komandi áfanga. Karlotta og Oddur komu því til ömmu fyrir klukkan átta í gærmorgun en mamma og Magnús Már fóru í skólann.  Oddur skreiddist beint í Lazyboystólinn hans afa og hringaði sig þar niður. Karlotta geyspaði mikið og amma riðaði af syfju.  Amma stakk því uppá að fara öll undir sæng og kúra í smá stund.  "Neiii við megum það ekki" sagði þá stubburinn vesældarlega en amma  hváði "Jú mamma bannaði okkur það af því að við verðum að rétta okkur af eftir jólin, annars getum við ekki vaknað í skólann á morgun" –  Humm, en skrýtið, svörin bentu til þess að mamman gerði sem sé ráð fyrir því að amma kæmi með þessa snjöllu hugmynd að kúra:). Hugmyndin hennar ömmu náði sem sé ekki fram að ganga í þetta sinn.

Þau björguðu hinsvegar málunum með því að vera með Ronju ræningjadóttur í farteskinu svo hún var sett í DVDspilarann og við kúrðumst í Lazybo stólunum og pössuðum okkur að sofna ekki.

Amma býður ykkur öllum góða nótt – en hún er enn syfjuð eftir óreglulegan svefn í nokkuð langan tíma  en þarf nú að fá góða hvíld í nótt til þess að sofna ekki við stýrið í fyrramálið þegar hún ekur heiðina í þágu vísindanna.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Eftir áramót.

  1. afi says:

    Það eru alltaf sér reglur í ömmubæjum. Það tilheyrir. Góða ferð í vísindaleiðangurinn.

  2. Sigurrós says:

    Guðbjörg hefur greinilega haft einhvern grun um hernaðaráætlanir ömmunnar 😉

  3. Svanfríður says:

    Ohhh, ekki gott að verða af góðu kúri í ömmu bóli-það er alltaf svo gott.

  4. Linda says:

    Ekið yfir heiðina
    Vona að þú fáir næga og góða hvíld fyrir aksturinn yfir heiðina.. Það er alveg bagalegt að aka í kolsvörtu myrkrinu þó syfjan sé ekki með í för líka..
    Bestu kveðjur

  5. Ragna says:

    Komst í bæinn og heim aftur.
    Ég komst áfallalaust í bæinn og heim aftur, en ferlega var leiðinlegt að keyra í dimmviðrinu í morgun. Svo var ég heppin að vera komin yfir heiðina rétt áður en vöruflutningabíll valt þar, sennilega í hálkunni.

Skildu eftir svar