Smá brella.

Oft smitast maður af því að lesa það sem hinir eru að skrifa. Þegar ég var að lesa um bernskubrek Svanfríðar og vangavelturnar um það hvort maður ætti að halda áfram svona prakkarastrikum þegar maður er orðinn fullorðinn þá kom upp í huga mér smábrella sem ég gerði bestu vinkonu minni.

Þannig er að ég þurfti fyrir nokkrum árum  á sjúkrahús til að láta skera burtu hluta af skjaldkirtlinum, en það er nú svo sem ekkert í frásögur færandi. Ég hafði hinsvegar í mörg ár verið með einhvern hnúð innan á baugfingri og það var farið að angra mig talsvert. Ég spurði því skurðlækninn hvort ekki væri mögulegt að skera þetta af í leiðinni fyrst  hann væri hvort sem er með hnífinn í hendinni. Jú, jú, það var ekkert mál.

Þess vegna var það þegar hún besta vinkona mín kom að heimsækja mig á sjúkrahúsið daginn eftir, að hún tók strax eftir því að auk umbúðanna á hálsinum var ég með miklar umbúðir á hendinni. Hún spurði því í angist hvað  hefði komið fyrir hendina á mér.
Ég sá mér leik á borði og svaraði strax og sagði, að ég hefði orðið svo hrædd þegar læknirinn kom með hnífinn til að skera á hálsinn á mér að ég hefði brugðið hendinni fyrir og hann hefði því skorið í hendina á mér, þessvegna væru umbúðirnar.  Viðbrögðin létu ekki á sér standa og hún bað Guð  að hjálpa sér, þetta væri með ólíkindum.  Þá sprakk ég því auðvitað var ég steinsofandi og sá ekki neina hnífa á lofti.  Þessi allra besta vinkona mín fyrirgaf mér nú og við hlógum mikið að þessu og gerum enn.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

9 Responses to Smá brella.

  1. Svanfríður says:

    Hláturinn lengi lífið!

  2. afi says:

    Ótrúlegt
    Ja hérna, þessu hafði afi aldrei trúað uppá þig. Af öllum, síst hún Ragna. En lengi má manninn (konuna) reyna.

  3. Gurrý says:

    Góðan daginn
    Það er alltaf svo gott að geta hlegið og ég held að Íslendingum einum sé það sérstaklega gefið að geta hlegið að sér sjálfum. Ég get trúað að vinkonu þinni hafi brugðið við söguna af lækninum ógnvænlega 🙂 flott myndin af ykkur á gamlárskvöld! Kveðja, Gurrý

  4. Linda says:

    Það hlaut að koma að því, að við fengjum að lesa um villinginn í þér..
    Hann vill vera í öllum, bara mismikill..

    Skemmtileg saga, (pínu kvikindisleg) hahaha

  5. Þórunn says:

    Hrekkur..
    Þessu átti ég ekki von á af þér Ragna mín en þetta var saklaus hrekkur. Sannarlega gott að geta hlegið að sögunni þinni.

  6. Ragna says:

    Maður leynir á sér.
    Já svo sannarlega leynir maður á sér. Ætli það sé ekki best að fara svona smám saman að sýna á sér hina hliðina. Eins og góða barnið Sigurrós, sem alltaf sat og stóð eins og maður óskaði sér, en hún lumar samt á bernskubrekum eins og kemur fram á vefnum hennar í dag.

  7. Sigurrós says:

    Já, svona erum við, gott fólk! Erum ósköp ljúfar en lumum á smá prakkara fyrir innan. 😉

  8. Jenni says:

    Sæl Ragna, vona að þessi fyrsta póstsending mín hafi skilað sér.Alltaf gaman að lesa þessar sögur þínar ,ættir að gefa út svona smásögukver.Eða er það ekki oft kallaðar örsögur.Rignir nokkuð á Selfossi og nágrenni,? það er svona SMÁ
    rigning hér á borgarsvæðinu,.Óska ykkur turtildúfunum góðrar helgar og takk fyrir
    skemmtilega kvöldstund á gamlárskvöld,

    Jenni……………………………

  9. Ragna says:

    Þakka þér fyrir Jens minn að skrifa í orðabelginn minn. Þetta var nú ekkert svo erfitt, er það nokkuð? Ég þakka þér sömuleiðis fyrir skemmtilegu samveruna á gamlárskvöld. Það er ekki eins gott veðrið núna og þá, alveg úrhellisrigning og rok hér austan fjalls.
    Kær kveðja frá okkur turtil….

Skildu eftir svar