Á Patreksfirði.

Af því að ég er nú farin að tala um hana bestu vinkonu mína þá kom upp í hugann sumarið sem við fórum til að vinna í fiski á Patreksfirði. Pabbi skólasystur Eddu Garðars úr Kvennaskólanum var verkstjóri í frystihúsinu á Patreksfirði og þar vantaði fólk til sumarvinnu. Helga skólasystir Eddu ætlaði að fara og Edda hafði fengið leyfi til að fara . En, þar sem ég var tveimur árum yngri en þær, þá kostaði það miklar fortölur, sérstaklega við föður minn, að ég fengi að fara með vestur. Á endanum hafðist það þó af því það var Edda sem ég ætlaði með en hún var svo góð, reykti ekki og var aldrei í neinu veseni og foreldrar mínir treystu henni. Sjálf var ég bara á fimmtánda ári og  ekki skrítið að þau væru hrædd um að eitthvað gæti komið fyrir mig.

Við sigldum með Esjunni til Patreksfjarðar og fórum beint í Krókinn þar sem við áttum að búa á neðri hæð í tvíbýlishúsi og hún Magga, yndisleg kona í næsta húsi átti að hugsa um okkur og líta til með okkur. Fyrir í húsinu voru þegar við komum tvær stelpur en aðrar tvær sem höfðu verið í herberginu sem við fengum voru nýfarnar í burtu.

Magga lagði ríkt á við okkur að hafa allt læst þegar togararnir kæmu inn til löndunar því þær sem hefðu verið á undan okkur hefðu verið helst til gestrisnar við þá og hún vildi ekki að við hleyptum þeim inn ef þeir ætluðu að koma í heimsókn.

Hún hefði ekki þurft að hræða okkur,  því við vorum nógu hræddar fyrir og kvöldið eftir kom togarinn í land. Þeir, af gömlum vana lögðu auðvitað leið sína beint í krókinn til að skemmta sér  og fannst skrítið að koma að læstu húsi  og byrjuðu að berja allt utan hjá okkur og biðja okkur um að hleypa sér inn.  Við drógum fyrir alla glugga og ákváðum að reyna að leiða þetta hjá okkur tókum upp gítarinn og fórum að syngja fullum hálsi svona til að reyna að róa okkur niður því hræðslan var að drepa okkur.  Smám saman varð allt hljótt og þegar við þorðum að kíkja út um gluggann þá voru allir farnir.

Nokkrum dögum seinna þegar við vorum byrjaðar að vinna við fiskinn vorum við spurðar hvort við værum í Hjálpræðishernum eða eitthvað svoleiðis. Við urðum eitt spurningamerki. Þá höfðu sjómennirnir komið þeirri sögu á kreik að stelpurnar sem væru komnar í Krókinn væru alveg vonlausar, þær væru allar í Hjálpræðishernum.

Þetta með gítarinn og sönginn bjargaði  okkur þetta kvöld og allt sumarið því togarasjómennirnir reyndu ekki einu sinni að leggja leið sína í Krókinn oftar til að komast inn hjá stelpunum – fannst það ekki spennandi tilhugsun.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Á Patreksfirði.

  1. Þórunn says:

    Góð saga
    Þessi saga er skemmtileg og sýnir hvernig ósjálfráð viðbrögð manns við hættu, verða til bjargar, þó þau séu misskilin. Hjálpræðisherinn hefur komið mörgum til bjargar sem eru í neyð, þó óbeint hafi verið í þetta sinn.

  2. ´Svanfríður says:

    skemmtilega frásögn..ég sé ykkur tvær í anda,horfandi á hvor aðra með spurningamerkin í augunum:hvenær ætli þeir fari? Tónlistin hefur bjargað mörgum manninum og þar eru þið ekki undanskyldnar:)

  3. Sigurrós says:

    Fyndið, þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri af því að þú hafir verið þykjustumeðlimur í Hjálpræðishernum! Þú hefur líklega aldrei talið mig nógu gamla til að heyra þessa sögu – ég var alltaf mjög verndað barn 😉

  4. Ragna says:

    Já, Sigurrós mín, ég vona að þú sért ánægð með að mamma verndaði þig Eins og tímarnir eru í dag þá hefði ég ekki viljað standa í þeim sporum að þið systur hefðuð viljað gera slíkt hið sama þó ég treysti ykkur vel og mikið skil ég vel núna að hann pabbi minn væri hræddur við að leyfa litlu stelpunni sinni að fara í hálfgerða verbúð. Sem betur fór komum við alveg heilar heim frá þessu vinkonurnar en hætturnar voru margar og auðvelt hefði verið að verða sollinum að bráð. Ætli það hafi ekki hjálpað okkur hvað við vorum saklausar og hræddar.

  5. Edda Garðars says:

    skemmtileg minning
    Didda mín,
    Gaman að rifja upp gömlu og „góðu“ dagana fyrir vestan.
    Mikið vorum við heppnar að við skyldum fá að fara og vera treyst svona vel. (pabbi minn var víst jafnhræddur og pabbi þinn, en við áttum hugaðar mömmur).
    Þetta var svo miklu skemmtilegra en að húka í borginni allt sumarið að okkar áliti. En ég verð að viðurkenna að fyrstu dagana vorum við hræddar, þarna upplifðum við eitthvað sem við höfðum ekki kynnst í okkar verndaða umhverfi heima. En við ákváðum að þrauka í 1 mánuð, við skyldum sko ekki koma heim og láta alla vita að við hefðum verið lafhræddar og gefist upp, ó, nei.
    Nú, eftir á, var þetta hið skemmtilegasta sumar.
    þín Edda vinkona.
    ps. Eigum við ekki endilega að fara að drífa okkur á samkomu hjá „hernum“!!!!

  6. Kolla says:

    Sakleysingjar
    Didda mín
    Ósköp voruð þið saklausar stöllurnar í þann tíð – og lítið hjálpræði þurfandi sjómönnum. Þetta var gott hjá ykkur. Ég sé ykkur í anda. Var það annars ekki þarna á Vestfjörðum sem hún Edda krækti í hann Nonna sinn ; – ) ?? Úr háloftum frekar en hafi þó held ég og trúlega ekki í þetta sinn.
    Nýjárshóf hjá Ingunni mágkonu þinni var elegant. Hús þeirra sannkallað jólahús og smekklegt eftir því. Ég fór fram á að hún leigði mér það til jólasamkvæma næsta ár.
    Eftir al íslenska forrétti (flatkökur,hangikjöt, rúgbrauð og síld), bar hún fram Texas Smoked Turkey – sendur frá Texas. En það er nú önnur saga..
    Bestu kveðjur
    Kolla

Skildu eftir svar