Jólin komin í geymsluna og jólasveinarinir til fjalla.

Gærdagurinn fór í að taka saman allt jóladótið og pakka því niður til næstu jóla og þrífa á eftir. Við byrjuðum strax í gærmorgun og vorum rétt búin að klára nógu snemma til þess að fara á þrettándabrennuna sem hafði verið frestað í sólarhring.

Eins og veðrið var fallegt í gær þá gekk á með éljum og eitt slíkt kom þegar við vorum á leiðinni á brennuna. Við biðum það nú af okkur í bílnum og rétt í þann mund að kveikt var á brennunni var alveg heiðskýrt svo að brennan og flugeldasýningin nutu sín vel.

Hér kveður einn sveinkinn áður en hann hélt til fjalla.
Stubburinn getur ekki leynt ánægju sinni yfir því að vera kvaddur svona með virktum.

rettandinn.jpg 

Í dag var gaman að fá þær Borghildi hans Hauks, Leonóru litlu og Lenu í heimsókn. Það er svo langt síðan þær hafa komið.

Síðan var okkur boðið í kvöldmat til Eddu systur minnar ásamt Stefáni og Kristínu, Ester og Sigþóri, en öll búum við núna svo til á sama punktinum hérna í Sóltúninu.  Ég þekki ágætlega þetta fólk sem eru vinir Eddu og Jóns Inga til fjölda ára. Stefán og Kristín eru okkar næstu nágrannar og ég hef þekkt þau lengi í gegnum systur mína og mág.  Við  Ester hinsvegar unnum saman í skólagörðunum í gamla daga og auðvitað rifjaðist ýmislegt upp þegar við hittumst. Það var t.d. ekki algengt í þá daga að fólk væri mjög sólbrúnt því sólarlandaferðir voru ekki komnar í tísku og engir voru ljósalamparnir. Við vöktum því alltaf nokkra athygli stúlkurnar úr garðavinnunni, þegar við mættum svona sólbrúnar og sællegar á gömlu dansana á föstudagskvöldum í Silfurtunglinu en það var fastur liður að fara þangað á föstudagskvöldum. Svo rifjuðum við auðvitað upp þegar við einstaka sinnum stukkum yfir skurðinn sem aðskildi skólagarðana og mikið flæmi með rófurækt til þess að næla okkur í nýjar rófur sem eru í minningu okkar beggja þær bestu rófur sem við höfum smakkað. 
Svei mér þá, ég er alltaf að sjá það betur og betur að ég var ekki eins mikill engill og ég hef haldið. Það fer að verða hættulegt að vera of hreinskilinn við dagbókina sína því ýmislegt sem var löngu gleymt poppar nú í sífellu upp í minnið. Sem betur fer er nú ekki um alvarlega hluti að ræða – en samt.

Hér er mynd af gestgjöfunum í gærkvöldi
Kristín situr á milli þeirra.

gestgjafarnir.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Jólin komin í geymsluna og jólasveinarinir til fjalla.

  1. Þórunn says:

    Að stela rófum..
    Ég varð alveg undrandi þegar ég las frásögnina þína í dag. Það rifjaðist einmitt upp fyrir mér í morgun þegar ég gerðist rófuþjófur og var staðin að verki. Ég er búin að skammast mín fyrir þetta alla æfi og var að hugsa um að setja þessa sögu á bloggið mitt. Hver veit nema ég láti söguna koma og létti á samviskunni.

  2. Linda says:

    Talandi um að stelast í annarra manna grænmetisgarða.
    Ég man eftir að hafa farið ófáar ferðirnar í rabbabaragarðinn sem í næsta húsi við mig..
    Það var ekkert mjög gaman að vera ég þegar ég var nöppuð af eigandanum, með sykur í poka..
    Thíhíhí

  3. afi says:

    afi kann nokkrar sögur af gulrófuþjófum, kannski verða einhverjar þeirra rifjaðar upp og settar án blað. Gott að það rættist úr veðrinu við jólarotið. Jóli er bara fjallmyndarlegur og er greinilega tilbúinn til heimfarar.

  4. Ragna says:

    Áfram með smjörið
    Maður gerir smá játningu og á svo von á fullt af krassandi sögum í kjölfarið – svona á þetta að vera.

Skildu eftir svar