Er mín kannski saknað?

Þegar Magnús Már kom að sækja ömmubörnin áðan þá spurði hann hvort ég væri hætt að hafa tíma til að blogga.  Hann veit nefnilega að ég er búin að vera að sauma um helgina og hef því lítið litið á tölvuna.  Ég var mjög ánægð að heyra að mín væri saknað ef ekki kæmi eitthvað daglega inn á síðuna mína.

Það hefur nú viðrað þannig um helgina að það hefur alla vega ekki farið mikill tími í útiveru. Þegar ég vaknaði í gærmorgun og leit út  þá hímdu litlu fuglarnir mínir á rennunum, sem snjókúfurinn stóð uppúr, og biðu eftir korninu sínu. Ég vorkenndi þeim svo að vera kannski búnir að bíða lengi eftir korninu svo að áður en ég skellti mér í sturtuna þá snaraði ég mér í stóru ullarkápuna mína utan yfir náttfötin og stakk tánum ofan í stóru stígvélin hans Hauks og þannig ruddi ég mér braut út að rennunum til að fylla þær af korni.  Ég var svo varla komin inn þegar þakklátir gestirnir voru sestir að snæðingi.  

Þegar ég hinsvegar vaknaði í morgun var svo mikil snjókoma að ég sá ekki yfir í næstu hús. Stuttu seinna þegar élið var gengið yfir var hinsvegar orðið alveg heiðskírt eins og sjá má á þessari mynd. (fleiri myndir hér undir Daglegt líf)

morgunn.jpg

En það hefur snjóað rosalega mikið. Ég hugsa að það sé um 40 cm jafnfallinn sjór ofaná fuglahúsinu og blómapottinum. Þið sjáið hvað þetta er hátt miðað við stærðina á fuglunum.

ykkt_lag.jpg

Fuglarnir færast alltaf nær og nær og liggur við að þeir goggi í gluggann þegar það vantar meiri mat.

fuglabordhald.jpg

Börnin kunnu svo  aldeilis að meta allan snjóinn og strax var hafist handa við að grafa snjóhús. 

snjohus.jpg

Karlotta kemur inn að hlýja sér.

gledi.jpg

Vettlingar stubbsins héldu enn á skóflunni eftir að hann tók þá af sér.

vettlingur.jpg

Ég átti að fara í bæinn í saumaklúbb í kvöld en það gengur á með svo blindum éljum að ég þori ekki að leggja á heiðina og heim aftur, eins og ég var búin að hlakka til að saumaklúbburinn yrði aftur eftir jólaleyfið. En ég met það svo að sé öruggara að vera heima en að ana út í ófærðina. Þeir sem þekkja mig vita að ég er lítið fyrir að taka áhættu þó ég mætti stundum vera aðeins kærulausari.

Selma mín og Janus Bjarki  ég bið ykkur að fyrirgefa að ég kom ekki með afmæliskveðju til ykkar um helgina. Ég óska ykkur báðum hjartanlega til hamingju með afmælin.

selma.jpg

Þessi mynd er nú ekki alveg í fókus en ég lét hana samt flakka. Ég fann ekki mynd af Janusi Bjarka.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Er mín kannski saknað?

  1. afi says:

    Varkár
    Allur er varinn góður og ekki vert að ana á heiðina þegar allra veðra er von. Myndirnar þínar eru fínar eins og venjulega. Fuglarnir þínir eru svo sætir. afi á enga svona litla fugla núna. Bara þresti og starra. Heppin þú. Af er það sem áður var, þá voru bara snjótittlingar í afagarði.

  2. Þórunn says:

    Janúar
    Sæl Ragna mín, ég var líka farin að sakna skrifanna þinna. Þetta er sannkallað janúarveður þarna hjá ykkur. Myndaserían talar sínu máli en ég er hrifnust af fyrstu myndinni hún er algjör snilld.

  3. Svanfríður says:

    Ég myndi mótmæla harðlega ef þú tækir upp á þeim ósið að hætta algjörlega að blogga. En það er rétt hjá þér að taka öryggið fram yfir saumaklúbbinn þó svo að leiðinlegt sé að missa af svona hittingi. Nú er ég að fara að sækja ungann minn frá dagmömmunni. Gaman verður að sjá hvernig fyrsta skiptið fór. Hafðu það gott mín kæra. Svanfríður

  4. Linda says:

    Það er svo skrítið að þegar maður kemur í heimsókn til þín, þá eru alltaf nýjar uppfærslur í dagbókinni hjá þér.. svo ef ekki er skrifað í 1 – 2 daga fer maður að hafa áhyggjur hvort allt sé ekki í lagi..
    Held að frekjan í manni sé að drepa mann.. Maður vill fá færslur en er svo allt of latur að skrifa sjálfur..
    Það er nefnilega alltaf gaman að koma í heimsókn, þú lætur litlu hversdagslegu hlutina hljóma svo skemmtilega og áhugaverða..

    Ætla nú að fá mér sjóðheitt kaffi og hugsanlega skrifa eitthvað sjálf..

  5. Ragna says:

    Elskurnar mínar, ég þakka ykkur fyrir það sem þið skrifið í orðabelginn. Mikið er maður nú lunkinn að næla sér í smá vilyrði öðru hvoru.

Skildu eftir svar