Fínn dagur í dag.

Sem betur fer var ég laus við syfjuna sem hrjáði mig í gær. Ég mætti í sjúkraþjálfun klukkan 10 í morgun og fór svo og náði í rafmagnssláttuvélina í Urðartjörnina en við Guðbjörg eigum hana saman síðan á Kambsveginum. Ég sló svo lóðina og þegar ég var langt komin þá kom Edda og spurði hvort ég væri nokkuð til í að skreppa upp í Grímsnes og athuga hvort það væru nokkuð bláber þar. Það varð úr að við systur skruppum og tíndum aðeins af berjum. Við fórum nú greinilega á svæði sem búið var að tína eitthvað á en fundum þó eina og eina þúfu með berjum. Allavega kom maður heim með nokkur bláber í boxi, montinn eins og litlu börnin. Ég þori ekki að gera það sem mig langar til, þ.e. að smakka aðeins á berjunum því þá veit ég að ég enda með því að borða þau öll. Hinsvegar ætla ég að geyma þau og athuga hvort ég næ í meira og gera þá bláberjasultu. Alveg gæti ég samt trúað því að ég geysist út í búð á eftir og kaupi rjóma og skófli síðan öllu upp í munn og ofaní maga. En í augnablikinu ætla ég ekki að smakka.


Sigurrós var að segja mér að myndirnar úr afmælinu hans Odds væru komnar inn í albúmið mitt. Já hjá mér gerast hlutirnir svona. Sigurrós bara tilkynnir mér að nú sé hitt og þetta klárt. Þúsund þakkir Sigurrós mín.


Af því veðrið er ennþá svo gott þá er ég að hugsa um að skreppa út á eftir og raka saman það sem ég sló í dag.


Ég læt þetta því duga núna.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Fínn dagur í dag.

  1. Sigurrós says:

    🙂
    Verði þér að góðu, elsku mamma. Þú átt nú allt gott skilið!

Skildu eftir svar