Aftur afmælisveisla Odds Vilbergs.

Ég var nú svoldið stirð í morgun eftir berjatínsluna í gær en það rjátlaðist nú af þegar maður var búinn að liðka sig fram eftir degi. Mér datt svo í hug eftir hádegið að baka slatta af pönnukökum svona til að hafa með í afmælisveislu Odds en hann var að bjóða vinum sínum í fjögurra ára afmælið í dag. „Afi“ er nú vanur að sjá um pönnukökubaksturinn en af því hann er í  vinnusyrpu núna, þá ákvað ég að hlaupa í skarðið.  Við Edda mættum svo um klukkan fjögur en Jón er alltaf úti í Eden núna vegna málverkasýningarinnar. Við skrópuðum báðar í vatnsleikfiminni, skamm, skamm. Í næstu viku lofum við að mæta báða dagana – enda held ég að engin afmæli séu þá -. Já stundum er þetta bara svona og ekki orð um það meira.  Í afmælið komu vinir Odds af leikskólanum og nokkrar mömmur með. Guðbjörg þurfti ekki að sjá um leikina fyrir börnin í þetta sinn því Karlotta stjórnaði því af hvílíkri röggsemi, sagði okkur bara að vera inni í stofu og lokaði hurðinni. Þau fóru í  “ Í grænni lautu“ og „dansað í kringum stólana“ og alls konar leiki. Ég gat ekki annað en brosað með sjálfri mér þegar ég þurfti aðeins að fara fram en þá var verið að byrja á nýjum leik og ansi mikill hávaði. Þá sagði Karlotta „Svona krakkar nú verðið þið að vera róleg og hafa ekki svona hátt“, -Hvar skyldi hún hafa heyrt þetta?- En það merkilega var að allt datt niður í dúnalogn.


Ég á von á Karlottu til mín í fyrramálið því Guðbjörg sótti ekki um í skólavistinni fyrir hana á föstudögum því þá daga á hún að fara úr skólanum til mömmu sinnar og bíða þar. En þar sem skólinn byrjar ekki fyrir krakkana fyrr en eftir helgi þá brúar amma bilið í fyrramálið.  Það er ýmislegt sem við þurfum að erinda.  Já, það er alveg rosalega gaman að vera amma sem hefur tíma þegar þörf er á pössun. Það er líka svo gaman öðru hvoru að hafa bara annað þeirra með sér. Við njótum þess mjög hvort heldur er Karlotta eða Oddur.


Ég held ég láti þessu nú lokið í bili. Eins gott að koma sér í rúmið svo ég vakni nú fyrir klukkan átta til að taka á móti Karlottu þegar hún kemur.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar