Veikgeðja gegn freistingunum þessa dagana.

Ég er búin að tala allt of mikið um mat undanfarna daga og nú er að byrja að síga á ógæfuhliðina og mál að linni.

Það er stundum ekki nóg að hafa fögur fyrirheit um hlutina – efndir þurfa að fylgja í kjölfarið.

Ástæðan fyrir þessum skrifum mínum í dag,  sem ég bið ykkur auðvitað að segja engum frá, er nefnilega sú að ég þarf að ná af mér þessum tveimur kílóum sem hafa laumast á mig – nota bene- eftir jólin. Það er alveg ótrúlegt að ég bæti aldrei á mig um jól en eftir jólin skal mér alltaf takast að næla mér í eins og tvö aukakíló sem ég vil ekki hafa.  Fram til þessa hef ég  náð þessum eftirjólakílóum af mér fljótlega eftir að ég tek eftir þeim, en nú er eitthvað svo erfitt að koma sér af stað. Ég veit alveg hvað er í þessum tveimur kilóum minum því núna eftir jólin er ég búin að vera að næla mér í eina og eina Söru og svo var allt of mikið eftir í konfektkassanum og …. . Ég, sem hef getað átt sælgæti án þess svo mikið sem muna eftir því er allt í einu mjög meðvituð um þessi sætindi og hef verið að láta freistast í mola og mola með kaffisopanum – sopunum.   Ég er allt í einu orðin snillingur í að telja mér trú um að þetta sé nú allt í lagi ég byrji bara á morgun að taka mig í gegn og núna ætlaði ég að taka mig rækilega í gegn um helgina.
En ekki fer allt eins og maður ætlar sér.  Af þeim ástæðum sem ég ætla að trúa ykkur fyrir, þá gekk ekkert eftir og nú þori ég ekki einu sinni að stíga á fjárans vigtina.

Fyrsta afsökunin:
Veðrið hefur verið svo risjótt og leiðinlegt að ég hef ekki getað  farið út í göngutúr.
-Ég veit – Þetta er léleg afsökun.

Það eru mörg ráð til við þeim vanda sem fylgir því að ætla að ná af sér aukakílóum og eitt er alveg öruggt – að falla ekki fyrir freistingum. Eimitt á þessu féll ég um helgina.

Freisting nr. 1.
Haukur kom aftur austur á föstudaginn og um kvöldið  borðuðum við á Hótel Selfossi alveg dýrindismáltíð í tilefni af  bóndadeginum. Þeir buðu upp á  þriggja rétta máltíð tveir fyrir einn sem ekki var hægt að láta fram hjá sér fara. (Humm, var það kannski alvegl hægt?)  Þessi Þriggja rétta málsverður var mjög vel útilátinn og mjög kaloríuríkur. Líka Expressokaffið og konfektið sem við fengum okkur þegar við komum hérna heim.

Freisting nr. 2.
Símtal á laugardaginn svohljóðandi:

"Magnús ætlar að baka vöfflur á eftir og bað mig um að spyrja hvort þið vilduð ekki koma í kaffi"
Þarna hefði þurft að hugsa sig vel um, en hvað gerði konan? Svaraði um hæl og sagði "En gaman.  Já það stendur ekki á okkur, við komum. "

Freisting nr. 3
Sunnudagur.
Við Guðbjörg skruppum eftir hádegið út í Hveragerði til að koma við hjá honum Tuska, en þar var þá allt lokað til 1. febrúar. Við keyrðum smá rúnt inn í Hveragerði og þá datt Guðbjörgu í hug að koma við í bakaríinu. Þá mundi ég eftir afgangi af rjómatertu og eplakransinum sem ég átti í frysti og salatinu sem ég bjó til í morgun. Ég sagðist því bjóða í kaffi í dag. Ég skrapp svo inn í búð og keypti rjóma til að þeyta með eplakransinum og við brunuðum heim á Selfoss aftur. Ég fór í að taka til kaffið og meðlætið  en Guðbjörg sótti Magnús Már og börnin og síðan drukkum við sunnudagskaffið  hérna saman.

Auðvitað gerði maður því sem var á borð borið, í öllum þessum tilvikum góð skil

Nú sit ég og hef hvílíka skömm á sjálfri mér, þó það sé nú til lítils því ekki trekkir maður tímann aftur á bak. Það er bara gott á mig að þurfa að skammast mín og vera með samviskubit. 

Eina huggun mín núna er, að það gangi betur Á MORGUN!

Ég kveð að sinni, ákveðin í því að verða harðari við sjálfa mig  Á MORGUN og ef það verður enn eftir konfekt þegar Haukur (honum finnst nefnilega konfekt svo gott) fer í bæinn á þriðjudag þá ætla ég að láta hann taka það með sér, eða henda því. Það má ég nefnilega eiga, að  aldrei kaupi ég mér sælgæti úti í búð þó mig langi til þess – eitt af þessum "prinsippum" mínum. Svo best er þegar ekkert er til því þá eru freistingarnar ekki að flækjast fyrir manni.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Veikgeðja gegn freistingunum þessa dagana.

  1. afi says:

    Að falla
    Til þess eru freistingarnar að falla fyrir þeim öðru hvoru. Hvað eru eitt eða tvö kíló milli vina? Þetta er eins og með Guðsspjöllin, það væri ekki mikið varið í þau ef enginn væri í þeim bardaginn. Gangi þér vel.

  2. Svanfríður says:

    Ragna mín-þetta er allt í lagi. Þú átt eftir að ná þessum kg af þér og verða söm við þig. En samt verð ég að segja að ég fékk lagið Við freistingum gæt þín…á heilann á meðan ég las pistilinn:) Góðar stundir vinkona.

  3. Freistingar says:

    Freistingar
    Þú hefur skrifað marga góða pistla, en þessi er algjör snilld. Ég sá sjálfa mig í hverri setningu og gat ekki annað en hlegið. Já dagurinn á morgun verður örugglega betri.

  4. Þórunn says:

    Freistingar
    Ég ætlaði alls ekki að fela mig á bak við „freistingar“ það var ég sem skrifaði síðustu athugasemd.
    Þórunn

Skildu eftir svar