Laugardagur að kveldi kominn.

Í gærmorgun var farið að birta klukkan níu.  Í morgun hinsvegar rumskaði ég aðeins og fann að það var svo dimmt að ég kúrði mig bara áfram. Næst þegar ég rumskaði þá var enn mjög rökkvað en ég ákvað nú að líta á klukkuna. Mér krossbrá og spratt fram úr rúminu þegar ég sá að hún var að verða hálf ellefu. Svo róaðist ég nú aðeins þegar ég fór að ræða við sjálfa mig um hvaða ástæðu ég hefði til að vera að stressa mig yfir þessu. Hvort ég hefði átt að vera mætt einhversstaðar, eða hvort ég væri að missa af einhverju. Hvort einhver væri alvg að koma í heimsókn.  Nei, ég hafði akkúrat enga ástæðu til að vera að stressast þó klukkan væri orðin svona margt. Ég hafði meira að segja góða afsökun því ég, alein í húsinu,  horfði á svo spennandi mynd í gærkveldi að ég ætlaði aldrei að geta sofnað, svo ég átti alveg fyrir því að sofa svona lengi.

Eftir að ég var komin vel á kreik og búin fyrir nokkru að borða hafragrautinn þá tók ég mér góðan tíma í að fá mér Expressokaffi og ráða krossgátu Moggans.  Þetta er nefnilega það sem ég hlakka alltaf mest til á laugardögum, að setjast með kaffibolla og krossgátuna. Umm. 

Svo fékk ég mikla löngun til þess að baka heilsueplaköku – þið takið eftir því að ég segi heilsu- Það felst nefnilega smá afsökun í því að kakan er úr heilhveiti, púðursykri og smjöri, allt mjög heilsusamlegt.  Samt þorði ég ekki að hringja í Guðbjörgu og Magnús Má, því síðasta helgi var svona heldur sukksöm hjá okkur þar sem við skiptumst á að bjóða í eitthvað fitandi og gott með kaffinu.  Ég var því fegin þegar Guðbjörg að fyrra bragði hringdi og sagði að þau þyrftu að skreppa eitthvað út og kæmu kannski við. Þá sagði ég í sakleysi mínu að ef þau langaði í kaffi þá ætti ég nýbakaða eplaköku.

Ég var fegin að ég bakaði þessa köku því hún dró að sér fleiri því Jóa (Eva) hans Hauks og Darri litu við á leið sinni frá því að skoða listasýningu á Stokkseyri.  Verst að Haukur er í vinnusyrpu í bænum og hitti þau ekki.

Síðan var það bara imbakassinn sem hafði vinninginn í kvöld. Söngvakeppnin, Spaugstofan og síðan var svissað yfir á Skjá einn til að horfa á fyrri hluta af breskri sakamálamynd. Nú er klukkan orðin óguðlega margt og konan orðin syfjuð svo það er best að hún komi sér í rúmið.

Ég segi því Góða nótt og góðan dag á morgun.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

8 Responses to Laugardagur að kveldi kominn.

  1. jenni says:

    Hvernig fannst þér svo lögin í sögvakeppninni?

  2. Ragna says:

    Söngvakeppnin
    Ég gat nú ekki alveg gert það upp við mig í gær hvaða fjögur lög ég vildi, en þrjú af þeim sem komast áfram hafði ég skrifað niður hjá mér. Salsa lagið hefði ég ekki kosið áfram. Annars var ég svo hrifin af laginu sem Regína Ósk söng fyrsta keppnisdaginn. Mér fannst það hressandi og svolítið öðruvðisi. Hvað líst þér best á Jenni?

  3. Linda says:

    Oohhh, hvað ég sakna krossgátunnar í mogganum.. Blaðið var gripið glóandi úr höndum blaðberans um leið og hann steig fæti inn á lögreglustöð..
    Þá var sest niður með sjóðandi heitt kaffi og penna..

  4. afi says:

    Eplakaka
    Feá því að afi leit hér við í gær, getur hann ekki hætt að hugsa um eplakökuna. Söngvakeppnin er hjóm eitt samanborið við þessa hollu og góðu eplaköku.

  5. Svanfríður says:

    eplakaka namminamm
    Ef ég sakna einhvers að heiman þá er það „að koma í kaffi“ siðurinn. Það skiptir engu hvað ég baka mikið það kemur enginn í heimsókn þó maður bjóði-það er ekki af því við erum svona leiðinleg (vona ég 🙂 ) heldur ef maður hringir sama dag og maður vill fá fólkið í kaffi, þá kemur enginn og ég er ekki að tala um fólk sem býr langt í burtu…þetta er bara ekki lenska hér því miður. En eplakakan hljómar vel og ef ég ímynda mér rétt þá hafa allir notið hennar í Rögnuhúsi:)

  6. Ragna says:

    Allir velkomnir.
    Eitt er víst, það er mjög fljótlegt að baka svona eplaköku handa ykkur og þið mynduð meira að segja fá kaffi með. Alltaf allir velkomnir í Sóltúnið.

  7. Linda says:

    Þú ert brjáluð að bjóða okkur svona freistingar.. og í leiðinni ertu heppin að ég er ekki búsett á landinu, ég væri sjálfsagt mætt á þröskuldinn heima hjá þér eða með nefið klesst á rúðunni..
    Þakka þér kærlega fyrir gott boð, en ég verð bara að fá að eiga það inni þar til í sumar, þegar ég kem heim í frí..

  8. Ragna says:

    Hringja bara á dyrabjöllunni.
    Hjá mér þarf ekkert að liggja með nefið á rúðunni. Hringja bara dyrabjöllunni og þá er gestum boðið inn. Þú hefur nú samband þegar þú kemur í sumar og þá skal ég baka köku og gefa þér kaffi og með því á íslenskan máta.

Skildu eftir svar