Meinlætalíf – líklega ekki fyrir mig.

Ég hef mikið verið að spá í að reyna að breyta um mataræði til að bæta heilsu og þrótt.   Borða meira af grænmeti og kannski minnka hvíta hveitið og freistingarnar sem maður fellur fyrir á kaffitímunum. Ekki það, að ég hafi verið í neinu sælgætissukki eða gosþambi því það hef ég í gegnum tíðina alveg látið vera en það er aftur á móti erfiðara með bakkelsið , eftirrétti og alla góðu ostana. Nú fæ ég vatn í munninn bara af tilhugsuninni.

Ég var búin að sjá auglýstan nýjan heilsuþátt á Skjá einum sem ég var ákveðin í að horfa á  og nota mér til þess að  tileinka mér nýjan lífsmáta. Ég taldi Hauki trú um að horfa með mér á þáttinn og reyndi að sannfæra hann um að þetta gæti nú ekki verið mikið mál og ég beið spennt eftir að þátturinn byrjaði.

Ég var mjög áhugasöm í upphafi.  Hauki varð þó að orði þegar þátturinn byrjaði, að ég skyldi í Guðs bænum ekki fara út í svona fæði ef ég ætti eftir að líta út eins og stjórnandi þáttarins. Það væri eins og hún væri með tæringu. Svona lítur nú fólk misjöfnum augum hvert á annað.

En eftir því sem ég horfði lengur á þáttinn þá sökk ég dýpra niður í stólinn og ég (hvort sem þið trúið því eða ekki) sat á endanum nokkuð þögul.  Það kom nefnilega í ljós að ekki má nota neinn sykur hverju nafni sem hann nefnist, gerfi eða alvöru. Það mátti jú leggja rúsínur í bleyti, nota kanel eða setja sítrónu á epli eða perur til að sæta með. Ekki leist mér nú vel á þetta og um hugann þutu hugsanir eins og t.d. hvað yrði nú um saumaklúbbana, páskana, jólin og aðrar hátíðir. Og þá laugardaga eða sunnudaga sem mér gæti dottið í hug að baka eplaköku og pönnukökur og fá  einhvern í kaffi til að njóta með mér. Eða gefa Hauki eitthvað gott með kaffinu þegar hann kemur austur-  Ég sá fyrir mér að þessu gæti ég  bara ekki framfylgt og ég fylltist skelfingu bara af tilhugsuninni.

Til þess að gera eitthvað af viti þá breytti ég aðeins til í dag og sat í kaffiitímanum og dýfði grófum bruðum í kaffið mitt.  Á meðan sat Haukur og úðaði í sig sætum kökum sem hann fann í frystinum. Hann er nefnilega algjör sælkeri sem á kaffitímum borðar sitt kaffibrauð og ekkert múður. En hann hinsvegar fitnar aldrei af neinu og líður aldrei illa hvað sem hann lætur ofan í sig.   Hvílíkur munur.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Meinlætalíf – líklega ekki fyrir mig.

  1. Svanfríður says:

    Veistu hvað? Ég myndi ekki leggja það á mig að skipta kaffibrauði út fyrir sítrónu:) Er ekki bara allt best í hófi? Að vísu verð ég nú að segja að ég hálf skammaðist mín í dag þegar ég lá upp í sófa og át sælgæti og gerði svo ekkert í að hreyfa mig á eftir…það kann ekki góðri lukku að stýra.

  2. afi says:

    Stutt líf
    Ragna mín, lífið er nú svo stutt og ekki tiltöku mál að falla stundum fyrir freistingunum. Þó ekki nema að fá sér nýbakaða eplaköku svona stöku sinnum. Skil Hauk vel.

  3. Ólöf says:

    úff svona meinlæta líf er ekki heldur fyrir mig. Er ekki allt best í hófi?

  4. Ragna says:

    Að una glaður við sitt
    Já Afi sæll auðvitað á maður að njóta lífsins. Það er bara alltaf verið að telja manni trú um að maður geti það betur ef heilsusamlega er borðað og manni er talin trú um að þetta og hitt sé eitrað og þessvegna sé maður með gigt og þróttlaus.
    Kannski eykst þrótturinn ef maður hættir að hlusta á þetta og unir bara glaður við sitt.

  5. afi says:

    Satt segirðu
    Væri lífið þessvirði að lifa því ef við yrðum að neita okkur um allt. Allt er gott í hófi. Það er enginn að tala um að sukka útí eitt. Vitaskuld er góð heilsa gulli betri.

  6. LInda says:

    Af myndunum þínum að dæma, máttu nú alveg við að fá þér nokkrar vínarbrauðsneiðar í viðbót.. Held það skaði þig bara alls ekki neitt..

    Einhvern tíma heyrði ég að 8 brauðsneiðar með þykku smjöri, jafnaðist á við eina litla vínarbrauðsneið..
    Hvað svo sem er til í því, þá tek ég nú alltaf vínarbrauðið framfyrir brauð með smjöri.. og ég tek líka brauð með smjöri fram fyrir gulrót..

    En eins og áður hefur komið fram, þá er bara allt best í hófi.

Skildu eftir svar