Öskudagurinn í dag.

Já það heilsaði fallega dagurinn í dag. Svona leit himininn út um klukkan átta í morgun.

morgunroinn.jpg

Já ég var mætt í Grundartjörnina um klukkan átta í morgun til þess að fá að taka þátt í því með krökkunum að fara í öskudagsrölt um bæinn. Ömmu fannst endilega að það þyrfti að taka myndir og var fljót að bjóða fram aðstoð sína við það.

Ein vinkona Karlottu fékk að gista hjá henni í nótt svona til þess að hægt væri að taka daginn snemma. Það var líka gert svo um munaði því Guðbjörg þurfti að sussa á þær klukkan fimm í nótt því þá voru þær vaknaðar og farnar að spjalla saman.

Þegar ég kom var enn allt í rólegheitunum og þau voru að pússla saman.

pussla.jpg

Svo var komið að því að klæða sig og maka einhverju á andlitin og setja grænar, rauðar og bláar strípur í hárið.

stripurjpg.jpg

Svo voru allir tilbúnir í slaginn og hér eru þau mætt í Vilbergs bakarí.

bia.jpg

Ef þið viljið sjá allar myndirnar þá eru þær hér

Við Haukur skruppum svo í göngutúr eftir hádegið og gengum um sumarhúsalandið Hraunborgir og síðan var ekki við annað komandi en að Haukur byði mér í kaffi í Þrastarlundi svona til þess að ná hita í kroppinn eftir langa göngutúrinn okkar í kuldanum sem var í dag þrátt fyrir fallegt veður.

gongutur.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

9 Responses to Öskudagurinn í dag.

  1. Sigurrós says:

    Rosalega hefur þetta verið skemmtilegur dagur hjá ykkur og mikið ertu heppin að hafa fengið að fylgja furðufuglunum eftir í bæjarröltið. Maður hefði haldið að sem kennari þá hefði ég tækifæri til að sjá alls kyns krakka í alls kyns búningum en því miður er það nú ekki svo gott. Meðan þau skemmtu sér í grímubúningunum vorum við með skipulagsdag. Við skemmtum okkur reyndar ágætlega líka í hópeflinu (dóttir þín tók t.d. ágætis Ruslönu-takta) en mér finnst svolítið fúlt að missa alveg af öskudagsstemningunni.

  2. Kolla says:

    Öskudagur/Öskupokar?
    Yndislegar Íslandsmyndir þínar og dýrðlegar Öskudagsmyndir þú og Haukur innifalin! En segðu mér eitt,
    eru Öskupokar löngu fyrir bí? Hef ekki verið heima á þessum árstíma í marga áratugi.
    Var að koma úr Bunco klúbbi með Ingunni. Vann ekki.
    Kveðjur

  3. afi says:

    Öskudagur
    Það hefur orðið mikil breyting á þessum degi frá því í denn. Þá laddust börnin um stræti og torg og hengd öskupoka á gesti og gangandi. Öskupokasaumaskapurinn var hluti af tilverunni á þeim tíma. En svo kom að því að títuprjónarnir urðu óbeygjanlegir, í framhaldi af því lagðist þessi saumaskapur niður. Aðrir siðir tóku við. ekki síður skemmtilegir. Sigurrós ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Á meðan nemendur hennar dubba sig upp í gerfi Silvíu leggur hún að velli sjálfa Ruslönu. afi má ekki gleyma að minnast á Rögnu og skemmtilegu myndirnar hennar. Þetta hefur verið einstakur dagur.

  4. Ragna says:

    Nota tækifærin á meðan þau gefast.
    Já það er einstakt þegar ungviðið vill leyfa manni að taka þátt líka. Það á nú sjálfsagt eftir að breytast þegar unglingsárin taka við – ekki gaman að hafa ömmu með sér þá. Þessvegna er best að nota hvert tækifæri á meðan það gefst.

  5. Svanfríður says:

    Mikið hefur þetta verið skemmtilegur dagur hjá ykkur. En sáust öskupokar?

  6. Ragna says:

    Sjást ekki.
    Nei, það er svo sorglegt að öskupokar sjást ekki lengur og börn í dag líta mann spurnaraugum þegar maður nefnir þá. Nú snýst allt um þetta búðarbetl sem er nú svona og svona. Jæja þau syngja og fá gotterí í staðinn. Móttökurnar hér voru alls staðar frábærar og allir tilbúnir með eitthvað handa krökkunum.

  7. Linda says:

    Það er synd að börnin þekkja ekki öskupokana.. Því það er jú þeirra vegna sem dagurinn ber nafnið..
    Ég er bara 32 ára og man ekki eftir að hafa farið og „betlað“ gotterí.. öskupokarnir réðu öllu í minni æsku og kom maður heim eftir daginn, með úlpuna alla útstungna eftir beygða títiprjóna..
    Ég sakna gamla tímans..

  8. Sigurrós says:

    Ég tek undir með ykkur að ég sakna öskupokanna. Þegar ég sagði nemendum mínum frá öskupokum fyrir tveimur árum þegar þau voru í 6 ára bekk þá vissu fæst þeirra hvað í ósköpunum ég var að tala um! Ég hneykslaðist á þessu á kennarastofunni, hvort foreldrar hefðu algjörlega leyft þessum sið að falla niður og fékk þá einmitt þær skýringar að það væri ekki lengur hægt að fá títuprjóna sem mögulegt er að beygja. Æ, ég veit ekki, er þá ekki bara hægt að nota eitthvað annað í staðinn…? Ég vil endilega endurvekja öskupokana!

  9. Ragna says:

    Það er gaman að heyra að ungu konurnar sakna þess líka að öskupokarnir eru að detta uppfyrir, ekki bara við þessi af gamla skólanum. Afi kom nú með skýringuna á þessu. Títuprjónarnir brotnuðu bara þegar átti að beygja þá og uppúr því hætti þetta að sjást.

Skildu eftir svar