Verkdoði. Mun betra en að segja leti. Loksins myndir af Gamla dúkkuhúsinu

Bara svona utan dagskrár, þá var ég að bæta aðeins inn á uppskriftirnar mínar.

Annars hef ég nú ekki verið að gera neitt merkilegt síðan í bíltúrnum góða á laugardaginn.

Ég er svona á því stigi núna að vera með hausinn fullan af öllu því sem ég hef hugsað mér að gera en þegar kemur að framkvæmdum er bara ekki hægt að koma sér að verki. Ég er búin að tala um það oft og mörgum sinnum í vetur að nú ætli ég að fara að mála hjá mér. Ég er samt ekki búin að taka fram málningadótið eða kaupa málninguna.

Svo er annað sem angrar mig – nefnilega það að aftur er farið að safnast ýmislegt dót í kringum mig sem ég hef ekkert við að gera, en geymi það samt. Það er þessi gamla nýtni sem maður kynntist í föðurhúsum sem enn fylgir manni. Að henda ekki því sem hugsanlega er hægt að nýta – eitthvað – einhverntíman.

Þegar ég flutti á Selfoss fóru mörg bílhlöss af allskonar dóti upp í Sorpu. Það verður nú að segjast eins og er að ég er enn ekki farin að sakna neins sem ég henti enda var ég ákveðin í því að dvelja ekki við að hugsa um það. Það sem verra er er bara það að ég er að byrja á nýju safni svo nú er bara að taka sér tak og byrja aftur að henda. Kannski það verði auðveldara að koma sér í gang núna þegar ég er búin að tala um vandamálið. Það hefur nú oft gefist vel.

Talandi um gamla hluti, þá átti ég alltaf eftir að sýna ykkur dúkkuhúsið sem hann pabbi minn bjó til handa mér þegar ég var lítil. Litlu húsgögnin og dúkkurnar eru nú farnar forgörðum enda leyfði mamma systrabörnunum mínum að leika sér með þetta og það sem var eftir heillegt léku mínar stelpur með. Ein dúkka er þó eftir og ég tók mynd af henni og setti sykurmola við hliðina á henni svo betra sé að gera sér grein fyrir stærðinni. Húsið er auðvitað líka farið að láta á sjá og motturnar sem voru á gólfinu ekki lengur til staðar og myndir sem voru á veggjunum eru líka horfnar, en svona lítur þetta út í dag.

Hér er taskan sem geymir húsið.

dukkuhus1.jpg

Síðan er stofan.

dukkuhus2jpg.jpg Herbergið er heldur ver farið.

dukkuhus3jpg.jpgSvo er ein nærmynd af gluggaveggnum í stofunni.

dukkuhus4.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Verkdoði. Mun betra en að segja leti. Loksins myndir af Gamla dúkkuhúsinu

  1. Svanfríður says:

    Þetta er yndislegt og áreiðanlega hafa margar góðar stundir farið í þetta hús. Þessu máttu ekki henda. Góðar kveðjur héðan, Svanfríður

  2. Hulla says:

    Þetta er æðislegt! Frábært að eiga þetta ennþá.
    Kveðja héðan Hulla og co

  3. afi says:

    Uppgröftur.
    Þetta er eins og að grafa upp bernskuna, barndóminn. Það verður að hafa í huga, að á þessum árum var ekki mikið um aðkeypt leikföng á venjulegum alþýðuheimilum. afi er ekki undrandi þótt þessu fylgji ljúfar endurminningar.

  4. Þórunn says:

    Aftur til fortíðar
    Það er stóra spurningin, henda eða ekki henda, réttu hlutunum. Það er stórkostlegt að sjá hversu haglega þessir hlutuir eru gerðir, en engan skal undra þegar Jón Pálsson átti í hlut. Svona hlutum má bara ekki glata, þetta hefur ómetanlegt gildi fyrir þig og þína afkomendur. Taskan er eins og ný, hvernig er þetta hægt?
    Sagt er að orð séu til alls fyrst, svo nú ertu komin af stað með það sem þú hefur hugsað þér að gera. Gangi þér vel.

  5. Simmi says:

    Madur verdur nú eiginlega ad fara ad prófa ad føndra eitthvad svo madur komist ad thvi hvort svona handlægni erfist eitthvad.

  6. Linda says:

    Það hljóta að vera ljúfar minningar sem fylgja þessu dúkkuhúsi..
    Þetta er stórglæsilegt hús.

    Það er þetta með dótið sem maður ætlar alltaf að „geyma“ ef ske skildi að maður myndi nota það aftur, einhvern tíma..
    Hvimleiður djöfull að draga..
    Svo gerir maður sér ekki einu sinni grein fyrir hversu miklu dóti maður hefur sankað að sér í gegnum árin, fyrr en maður ætlar að taka til í skúrnum, á háaloftinu eða í kjallaranum, og þá fallast manni bara hendur..

  7. Ragna says:

    Elsku Simmi minn!
    Þú þarft nú ekki annað en að líta á handverkið hennar mömmu þinnar til að sjá að þetta erfist. Þú ættir nú að vera á grænni grein með slíka mömmu og pabba sem er listmálari auk alls annars.

Skildu eftir svar