Draugagangur.

Ég vaknaði upp úr fasta svefni um hálf þrjú í nótt við það að ég heyrði alltaf sömu tónana svona eins og úr síma eða einhverskonar spiladós. Ég lá nokkra stund í rúminu og reyndi að átta mig á því hvað þetta væri en kannaðist ekkert við tónana.  Ég fór því framúr og kveikti ljós í holinu og hlustaði, jú það var greinilegt að þetta kom úr elldhúsinu. Það brá hinsvegar svo við þegar ég kom í eldhúsdyrnar að allt þagnaði.  Þá fyrst fór mér að líða verulega illa. Það var mér alveg gjörsamlega hulið hvað þarna væri á ferðinni. Þegar þarna var komið sögu  var ég auðvitað svo glaðvöknuð að ekki var um það að ræða að fara strax aftur inn í rúm. Ég las því Fréttablað sem ég átti ólesið og um fjögurleytið kom Mogginn og ég fór í gegnum hann og einhverntíman undir klukkan sex skreið ég aftur upp í rúm og steinsofnaði nokkru seinna og ekki varð um neinar frekari truflanir að ræða.

Í morgun þegar ég var komin aftur á kreik  fór ég að kíkja á ferðavekjaraklukku sem ég keypti um daginn í Bónus og Haukur stillti fyrir mig þá og hafði sett hana á hillu fyrir ofan eldhúsborðið. Viti menn hún var stillt á þann tíma sem ósköpin höfðu byrjað í nótt. Gömlu konuna fór nú að gruna ýmislegt og í dag þegar börnin voru komin úr skólanum spurði ég ömmustubbinn hvort  hann hefði nokkuð verið að fikta í klukkunni í gær. Hann var sakleysið uppmálað og bláu augun horfðu á önmmu og sögðu ne e e ei. Ömmu fannst nú þetta nei nokkuð loðið svo hún sagði að hún ætlaði sko ekkert að vera reið þó hann hafi komið við klukkuna en hún þyrfti bara að fá að vita það. Þá  breyttist framburðurinn og hann sagðist ekkert hafa verið að fikta bara tekið hana upp og sett niður aftur. Þar með var skýringin komin, það þarf nefnilega ekki annað en koma við snetritakka sem merktur er "alarm" til þess að setja hringinguna á. Ég hef hinsvegar aldrei heyrt þessa klukku hringja enda ekkert verið að nota hana og þekkti þessvegna ekki stefið.

Þannig fór nú sagan um draugaganginn hjá mér.  Það sannast enn og aftur að í flestum tilfellum er eðlileg skýring á hlutunum  þó mér tækist ekki strax að sannfæra mig um það  í nótt.  Það er nefnilega stundum erfitt þegar maður er einn í húsinu, að fara fram og athuga hvað veldur, þegar maður vaknar við einhver ókunn hljóð.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Draugagangur.

  1. Sigurrós says:

    Þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem ömmustubburinn veldur draugagangi. Manstu þegar hann var alltaf að fikta í græjunum þínum þegar hann var milli eins og tveggja ára og var allt í einu búinn að stilla þær þannig að á hverjum degi kl. 19:00 fór útvarpið sjálfkrafa í gang og við skildum ekki neitt í neinu? 🙂

    En þú manst bara að þó þú vaknir við draugagang á nóttunni að þá eru það líklegast bara fjölskyldudraugarnir okkar að sprella 😉

  2. Ragna says:

    Þú segir nokkuð Sigurrós mín. Kannski eru fjölskyldudraugarnir bara komnir til að hjálpa mér að finna út hverju ég á að henda og hvað skal geyma. Veri þeir bara velkomnir þeir geta ekki verið annað en góðir.

  3. afi says:

    barnadraugar
    Ætli afi kannist ekki við ákkúrat svona draugagang. Einkum eftir tvíburaheimsóknir.

  4. Svanfríður says:

    Satt segirðu að oft er nú eðlileg skýring á hlutunum en þegar svona gerist þá fær maður nú samt ónotatilfinningu sem lengi tekur mann að hrista af sér.

  5. Þórunn says:

    Draugagangur
    Ég hef upplifað svona draugagang. Ég var ein í sumarbústað með börnin mín lítil. Vaknaði um miðja nótt við þungt fótatak og andardrátt á gluggann. Ég var lengi að telja í mig kjark til að líta út um gluggann, en þegar ég gerði það blasti við stórt andlit með uppglennt augu, kýr kafði komist inn á lóðina. Það er álitamál hvorri brá meira en hún hljóp í burtu með halann á lofti en ég sat þarna hlæjandi, taugaveiklunar hlátri, mér létti svo mikið. Ef ég hefði ekki litið út, væri ég enn að velta því fyrir mér hvað þetta hefði verið. Það er gott að geta hlegið að þessu eftir á.

  6. Ragna says:

    Okkar eigin ótti verstur.
    Þakka ykkur fyrir að taka þátt í umræðunni og Þórunn, sagan þín er alveg frábær og sýnir enn og aftur að það ótti okkar sjálfra sem er okkur verstur. Skýringin er oftast handan við hornið.

Skildu eftir svar