Endurtekin boð um frelsun.

Ekki veit ég hvort það er merki þess að ég sé á barmi glötunar að fólk af ýmsum trúflokkum er alltaf að banka uppá hjá mér og bjóða mér hverskonar frelsun og betra líf í Paradís.

Um daginn komu tvö ungmenni að dyrunum hjá mér og vildu kynna fyrir mér Biblíuna. Stúlkan var útlendingur en pilturinn íslenskur. Bæði mjög elskuleg. Þegar ég spurði frá hvaða trúfélagi þau kæmu reyndust þau vera Aðventistar. Ég var að horfa á fréttirnar í sjónvarpinu þegar þau komu og talaði því stutt við þau og bauð þeim ekki inn. Stúlkan spurði hvort þau mættu kannski hafa samband seinna og ég sagði að það væri hugsanlegt ef vel stæði á hjá mér. Það er svo erfitt að segja nei þegar kurteist ungt fólk ber að dyrum og langar til að tala við mann.
Það er hinsvegar einn trúflokkur sem ekki kemur inn fyrir dyr hjá mér og það eru Vottar Jehova. Þeim kynntist ég úti í Englandi þegar þeir gerðu ítrekaðar tilraunir til að fá mig til þess að hleypa sér inn í húsið hjá mér og komu aftur og aftur þó ég segðist ekkert vilja við þau tala og ég varð beinlínis hrædd eitt skiptið, þegar ein konan úr þessum hópi sætti sig ekki við að ég vildi ekki tala við hana og setti fótinn milli stafs og hurðar svo ég gat ekki lokað dyrunum. Þetta er reynsla sem gleymist ekki.

Jæja, en nú erum við bara stödd á Selfossi og í gærdag gerðist tvennt.

Í gærmorgun þegar ég var komin fram í forstofu á leiðinni út, þá hringdi dyrabjallan. Ég var viss um að þetta væri Kristín í næsta húsi eða systir mín. Mér hálfbrá hinsvegar þegar ég opnaði dyrnar því fyrir framan mig stóðu tveir svartklæddir ungir menn. Þeir kynntu sig, annar var danskur en hinn frá Ameríku og enn og aftur átti að kynna mér trúmál. Ég tjáði þeim, eins og Aðventistunum um daginn, að ég ætti mína Biblíu og stæði ekki illa hvað trúmál varðaði. Ég spurði á hvers vegum þeir væru og sögðust þeir þá vera Mormónar. Þetta voru afskaplega kurteisir og snyrtilegir strákar. Ég sagði þeim að ég ætti ekki eftir að snúast yfir í Mormónatrú. Þá sögðust þeir bara eiga að segja mér frá trúarupplifun sinni og fyrirheitinu um betra líf í Paradís. Spurðu svo hvort þeir mættu ekki koma og tala við mig seinna. Aftur svaraði gungan í forstofunni að það gæti verið. Það er nefnilega svo erfitt að standa frammi fyrir svona kurteisu fólki og segja NEI.

Ég var sem sé ekki eins skelegg og móðir mín heitin var á sínum tíma þegar Mormónar komu að hennar dyrum og buðu henni vist í Paradís. Þá spurði sú gamla hvort þeir hefðu eitthvert umboð til að bjóða sér það. Sagðist svo að öllum líkindum koma sér þangað sjálf án þeirra hjálpar. Síðan kvaddi hún og lokaði dyrunum. Ekkert að láta fara með sig.

Jæja ég sagði að tvennt hefði gerst í dag. Haldið þið ekki að Aðventistastúlkan hafi hringt í eftir hádegið í gær  og spurt hvort hún mætti koma í heimsókn núna. Sem betur fer var Oddur eitthvað að segja við mig þegar ég fór í símann og í þeirri von að hún hafi nú heyrt í börnunum sagðist ég vera alveg upptekin.

Af hverju er svona erfitt að bíta þetta fólk alveg af sér. Maður fer alltaf að vorkenna því að ganga svona á milli húsa þar sem það verður yfirleitt fyrir því að skellt er í andlitið á því – svo eru þetta útlendingar sem leggja þetta á sig fyrir trúna.

Hvað á maður að gera? Ætli þetta fólk hafi frétt hjá æðri máttarvöldum að þarna í Sóltúninu sé gömul kona sem þarfnist frelsunar frá glötun ??? Svei mér þá ég veit ekki hvað ég á að halda.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

12 Responses to Endurtekin boð um frelsun.

  1. Hulla says:

    Skrítið að þau séu á ferðinni núna. Mín upplifunn af þessum bönkurum er alltaf rétt fyrir jól, akkúrat þegar maður er að baka. Ég mundi gera eins og mamma þín. Snilldar svar.
    Vona að þú fáir kjark til að losna við bankaranna sem fyrst.
    Ástarkveðjur héðan. Hulla

  2. Kolla says:

    Að segja NEI
    Didda mín kæra,
    Hef verið á spani s.l. viku svo ég hef ekki lesið dagbókina þína síðan 4. mars með þessum skínandi myndum (þú hefur næmt auga!). Les það um helgina. En það þarf að kenna þér að segja NEI í alvöru. Þú getur brosað út að eyrum en hafðu Nei-ið hátt og snjallt – og kannske takk fyrir í endann og loka svo hurðinni fast. Nema þú viljir snúast! Það lærði ég loks hér á landi og var býsna erfitt í fyrstu – en það þýðir ekkert annað. En mamma mín blessunin bauð þeim öllum inn – lét þó aldrei snúa sér. Hún hafði mikla skemmtun af þessum trúaráhuga þeirra.
    Fer í eldamennsku tíma með Ingunni á laugardagsmorgun. Ingunn vill læra um veislumat og ég flýt með.
    Kveðjur

  3. Þórunn says:

    Stórt NEI
    Ég er nú eitthvað svipuð þér Ragna mín, á mjög erfitt með að segja nei. En við verðum að herða okkur upp og vera ákveðnar og segja nei þegar við meinum nei. Þetta er jú okkar heimili sem reynt er að komast inn á og þar ráðum við ríkjum. Mér reynist best að segja strax nei áður en nokkrar samræður hefjast, því maður sér strax hvert erindið er. Þetta fólk veit hvað það er að gera með því að klæða sig snyrtilega og vera elskulegt, það er erfiðara að neita því.

  4. Ragna says:

    Byrja að æfa mig.
    Já það er rétt hjá ykkur ég hef alltaf átt mjög erfitt með að segja NEI. Ég þarf alltaf að reyna að setja mig í spor þessa fólks og fer að vorkenna því – þ.e.a.s. ef það er svona ljúft og kurteist. Það er líklega best að stilla sér upp fyrir framan spegilinn og æfa sig að segja NEI.

  5. Ragna/Didda says:

    Kolla mín!
    Það verður sko gaman hjá ykkur Ingunni á laugardaginn, ekki spurning. Mikið er mig farið að langa til að koma í heimsókn – þetta er bara svo rosalega mikið ferðalag. Við verðum bara að vona að Kanadaflug komist á aftur.

  6. Stefa says:

    Haha…já segðu nei
    Hæ Ragna mín,

    ég lærði fyrir nokkrum árum að segja bara stutt og snyrtilegt „Nei takk“ við Varðturninum hjá vottunum. Fyrir nokkrum vikum bönkuðu tvær indælar stúlkur upp á hjá mér og vildu kynna fyrir mér blaðið. Ég brosti og sagði kurteislega „Nei takk“ þá spurði önnur þeirra hvort ég héti ekki Stefa. Mér krossbrá og svaraði játandi …þá kom í ljós að hún er litla systir vinar míns og við höfðum hist einu sinni heima hjá honum. En ég ákvað að það væri samt ekki næg ástæða til að hlusta á „orðið“ og sagði bara skýrt „..en ég ætla samt að segja nei takk“. Og þær tóku því mjög vel og kvöddu. Mér leið svo vel þegar ég var búin að loka hurðinni og hafði gert þetta svona kurteislega en samt staðið á mínu. Lenti nefnilega í því þegar ég var barn/unglingur að ég bauð vottum inn og hélt að ég myndi aldrei losna við þá út aftur. Það var hræðileg upplifun. Þannig að nú bara brosi ég í nei-inu og vona að þú getir tamið þér það Ragna mín.

  7. Ragna says:

    Það er svona Stefa mín, sem ég afgreiði Vottana og finnst það ekki erfitt, en það eru hinir sem ég hef átt í erfiðleikkum með.

  8. Linda says:

    Jeminneini Ragna mín..
    Ég er alveg sammála þér um að erfitt sé að segja „nei“ við kurteist fólk, en stundum er ýtnin svo svakaleg í þessu fólki að það þýðir ekkert annað en að sýna þeim smá frekju og dónaskap, til að koma skilaboðunum til skila..
    Ég er trúleysingi og reyni að rekja hvert orð ofan í þetta fólk ef það fer ekki með góðu.. Mér er illa við fólk sem reynir að troða sinni trú inn á aðra..
    Svar móður þinnar minnir mig á ömmu mína.. sú er alltaf með svörin á reiðum höndum og hugsar sig ekki um tvisvar áður en orðin fara af vörunum.. Þetta er snilldarsvar hjá mömmu þinni..

  9. Sigurrós says:

    Já, þú hefur nú aldrei verið í vandræðum með Votta Jehóva þó þú eigir erfitt með að segja nei við hina. Ég man alltaf hvað ég var hissa þegar ég var yngri og við vorum staddar niðri í forstofu þegar dyrabjallan hringdi. Fyrir utan dyrnar stóð fólk sem kynnti sig sem votta Jehóva og ljúfa, elskulega móðir mín sagði bara harkalega „nei takk“ og lokaði beint á nefið á þeim! 😉

  10. Eva says:

    Mér hefur alltaf þótt skemmtilegt að fá trúboða í heimsókn. Það er auðvitað algerlega tilgangslaust að ætla að rökræða við þá. Mér finnst bara svo áhugavert að kynnast svona ólíkum hugsunarhætti.

    Trúboðar sem heimsækja mig koma yfirleitt ekki oftar en tvisvar. Ég held þeim svo lengi að þeir eru orðnir dauðþreyttir þegar þeir fara. Hins vegar er trúleysisafstaða mín svo greinileg að þeir sjá að það er vonlaust verk að ætla að kristna mig. Þessvegna gefast þeir fljótt upp.

    Ég held að þú lendir í þessu af því að þeir finna að þú ert góð og guðhrædd kona og halda því að þú hljótir að vilja finna „réttu“ leiðina. Prófaðu næst að glotta illgirnislega og segja þeim að þú tilheyrir Satanistakirkjunni og viljir endilega heyra boðskap þeirra. Mér þætti gaman að sjá hvað kæmi út úr því.

  11. Sóley says:

    Hæ ég datt inn á bloggið þitt á vafrinu um netheimana. Langar til að leggja orð í belg með það að segja nei. Ég hugsa alltaf að það sé svo leiðinlegt fyrir fólkið að vera að eyða tímanum sínum í að tala við mig bara af því að ég get ekki sagt nei því ef ég gerði það gæti það bara haldið áfram og farið að tala við einhvern sem hefur áhuga á að tala við það. Þetta á reyndar meira við um sölumenn í mínu tilfelli því það hefur aldrei neinn trúboði bankað upp á hjá mér, svo ég muni. En alla veganna þá virkar þetta fyrir mig því mér finnst ég vera að gera fólkinu greiða með því að segja nei og spara þeim tímann. 🙂

  12. Ragna says:

    Þetta er auðvitað hárrétt hjá þér Sóley og næst ætla ég að vera heiðarleg bæði gagnvart sjálfri mér og hinum og setja bara strax nei takk, eins og ég geri þegar verið er að selja manni í gegnum síma.

Skildu eftir svar