Ótrúlegt sem getur komið fyrir mann.

Á fimmtudagskvöldið eftir svona slyddurigningu um kvöldið þá snöggfrysti. Þegar ég ætlaði að fara að sofa þá datt mér í hug að best væri að setja bílinn inn í skúr því það kemur stundum fyrir að hurðirnar frjósa fastar – þá meina ég ekki læsingin heldur bara hurðin sjálf.

Ég dreif mig út og sem betur fer gat ég opnað hurðina. Ég var svo fegin, því ég hélt kannski að ég hefði verið of sein og allt væri frosið fast . Ég skellti mér því beint inn í bílinn en tók þá eftir því að það sást illa út um framrúðuna. En, þar sem bíllinn stóð upp við dyrnar að skúrnum og ég ætlaði bara að aka honum svona 2 – 3 metra innfyrir skúrdyrnar þá ók ég varlega af stað inn í skúrinn en leist svo ekki alveg nógu vel á að ég næði að koma honum alla leið án þess að aka utan í eitthvað svo ég ákvað að best væri auðvitað að fara út og skafa framrúðuna. Nokkuð sem ég undir öllum venjulegum kringumstæðum hefði byrjað á að gera því ég þoli ekki gægjugöt á framrúðum. Jæja hvað um það. Í því augnamiði að fara út og hreinsa rúðuna þá opnaði ég dyrnar, þ.e.a.s. ég ætlaði að opna dyrnar en viti menn, hurðin var pikkföst og ekki nóg með það, það voru allar hurðirnar fastar. Ég var sem sé læst inni í bílnum mínum á miðnætti og bíllinn hálfur inni í skúr og hálfur úti. Svei mér þá ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð.
Ég þóttist vita að fyrr eða síðar myndi einhver hurðin verða opnanleg af hlýjunni úr skúrnum, en það kom líka mikill kuldi að utan. Mikið ótrúlega fannst mér þessar rúmlega 5 mínútur sem ég þurfti að bíða þarna í bílnum án þess að geta opnað hann, vera lengi að líða.

Mér er alveg óskiljanlegt að ég skyldi komast inn í bílinn úti en við hitabreytinguna þegar skúrinn var opnaður skyldi allt verða pikkfast og í nokkrar mínútur. En það var mjög notalegt í morgun, þegar ég átti að fara á stefnumótið við sjúkraþjálfarann, að fara í heitan bílinn í bílskúrnum.

Ég óska ykkur öllum

GÓÐRAR HELGAR.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

8 Responses to Ótrúlegt sem getur komið fyrir mann.

  1. afi says:

    Óheppni
    Það er ekki við öllu séð. En hefrðiru borið silikon á hurðar gúmmín hefðirðu losnað við þennan ára. En því meiri var ánægjan að setjast inní heitan bílinn um morgurinn. En mikið var það nú gott að þú slappst við að gista í hálfum bílskúrnum þessa nótt. Góða helgi og njótu hennar vel. .. Og óhappalaust.

  2. Þórunn says:

    Gott þú komst úr
    Það er alveg ótrúlegt hvað getur skeð. Ég veit að það er ekki gaman að lenda í þessu, en elsku fyrirgefðu mér þó ég hafi brosað út í annað við að lesa þetta. Góða frostlausa helgi.

  3. Ragna says:

    Silikon, humm!
    Takk fyrir gott ráð Afi, nú verður sko borið silikon í öll hurðarföls á bílnum. Silikon já, spurning hvað maður gerir við afganginn???

  4. Ragna says:

    Já spaugilegt svona eftirá.
    Þórunn mín, ástæða þess að ég lét þetta flakka hérna á síðunni minni er auðvitað sú að eftir á sá ég auðvitað ekkert nema spaugilegu hliðina. Þetta er nefnilega svo ótrúlegt að ég hefði aldrei getað ímyndað mér þessar aðstæður.

  5. Anna Sigga says:

    Góða helgi!
    Gott að þú varst ekki lengi læst inni í bílnum, hálfum inni og hálfum úti. Þú segir mjög skemmtilega frá þessu. Farðu vel með þig!

  6. Linda says:

    Velkomin í hópinn Ragna mín.. ég ætla að gera þig að formanni óhappafélagsins, þar sem ég sjálf, er nú þegar heiðursfélagi..
    Þetta er ótrúleg saga.. hahahaha

  7. Svanfríður says:

    Ansans árans..
    óheppni var þetta Ragna mín kær. En ég verð nú að viðurkenna að ég glotti (bara pínulítið) út í annað við lesturinn. Það er ekki furða að við náum svona vel saman, við sem erum í þessum bloggkjarna, því mér sýnist að við öll séum hrakfallabálkar á einn eða annað hátt:)

  8. Stefa says:

    Já þetta er stórgalli við VW-bílana. Við Rúnar seldum Passatinn okkar í fyrravor eftir að hafa glímt við hurðarnar einn vetur. Við þurftum meira að segja að láta skipta um læsingu á einni hurð þar sem þetta vandamál kom upp. Það var súrt að horfa á eftir þeim peningum. En við þekkjum fleiri svekkta VW-eigendur sem hafa lent í þessu sama hurða-á-standi og það er víst ekkert sem lagar þetta. Ég reyndi að sílíkonbera mínar hurðar en það bar ekki tilskyldan árangur. Eins og Passatinn minn var að öðru leyti draumabíll þá fékk hann að fjúka fyrir Skódanum. Reyndar eru sömu framleiðendur að báðum tegundum en Skódinn reynist betur svona bilanalega séð eftir því sem ég hef heyrt ;o)

    Kveðja,
    Stefa

Skildu eftir svar