Máttur auglýsinganna – Leikur barna.

Ég var að hugsa um að ekki þyrfti nú alltaf dýr og mikil leikföng til þess að börn geti skemmt sér.

Á föstudaginn fengu Karlotta og Oddur Vilberg hjá mér alls konar blöð, bæði dagblöð og einhver gömul norsk blöð. Þau spurðu hvort þau mættu klippa út úr blöðunum og það var auðsótt mál. Síðan settust þau við að klippa svo heyrði ég mikinn hlátur. Þegar ég kom til að sjá hvað væri svona skemmtilegt þá voru þau búin að að klippa út brúðarkjól, setja höfuð af ungbarni á og karlmannaskó niður undan kjólnum. Þau máttu varla mæla fyrir hlátri og allskonar útgáfur af fáránlegum samsetningum áttu síðan eftir að koma í ljós. Það var reyndar með hálfum huga sem ég fór að lána þeim klippiríið í dag því ég var að enda við að ryksuga en svo sá ég að það yrði nú ekki mikið mál að sópa þessu saman aftur enda reyndist svo vera. Ég uppskar hinsvegar að fylgjast með kátínu þeirra og annað skipti engu máli.

Meðan á þessu stóð þá fór ég að hugsa um hvað það væri nú merkilegt, að oftast væri það eitthvað sem ekkert kostar og ekki flokkast einu sinni undir leikföng, sem börnin virðast skemmta sér best yfir. Eins og að klæða sig í gömul föt og setja þau afkáralega saman, teikna myndir, lita, klippa ,búa til og leika leikrit, lesa brandara og dansa. Já mér finnst ömmubörnin yfirleitt skemmta sér best við svona nokkuð

Svo fór ég að hugsa um allar leikfangaauglýsingarnar sem dynja á börnum í fjölmiðjunum, sérstaklega sjónvarpinu þar sem allt virðist svo spennandi og lifand. Börnin verða uppveðruð og langar til að eignast þetta spennandi dót. Auðvitað vilja svo foreldrar vera góðir, betri eða bestir og reyna að verða við óskum barnanna, En hvað gerist síðan? Herbergi barnanna fyllast af leikföngum oft rándýrum sem einhvernveginn misstu ljóma sinn um leið og búið var að taka þau úr umbúðunum. Hvar er allt lífið sem var í þessum leikföngum í auglýsingunum? Það fylgir ekki með í pakkanum. Nei, það virðist nefnilega að mesti spenningurinn sé að fá og opna stóru pakkana og eftirvæntingin að taka út innihaldið. Síðan kemur í ljós að þessi leikföng eru einhvernveginn ekki eins og í auglýsingunum. Síðan fer þetta að þvælast fyrir og endar oft í geymslum eða á tombólum.

Þetta eru nú bara vangaveltur gamallar ömmu sem finnst máttur auglýsinganna orðin heldur mikill.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Máttur auglýsinganna – Leikur barna.

  1. Hulla says:

    Þetta er alveg rétt hjá þér Ragna. Þó að mín börn hafi alltaf átt fullt af dóti er alltaf það sama sem stendur upp úr. Litir, púsl, teikna, kubba, leira og svo að vísu dúkkur og bílar. En allt þetta dýra dót er nákvæmlega eins og þú segir, líflaust drasl.

  2. Karen Elva says:

    Sammála
    Já ég verð að vera sammála þessari umræðu. Það er nú ekki langt síðan ég var með fullt herbergi af leikföngum og annað herbergi til að leika með dótið! Það er bara þannig að þau leikföng sem eru mest skapandi eru þau sem börnin sækjast í. Það er ekki alltaf sami leikurinn.
    Hin leikföngin eru alltaf eins og ekkiert breytist sama hvernig leikurinn er.

  3. Þórunn says:

    Laikföng
    Ég hef oft rekið mig á þetta með leikföng sem eru ekki leikföng eins og þú segir. Litla vinkona mín Joana sem er sjö ára, er löngu hætt að biðja um „dótakassann“ sem er með nokkrum keyptum leikföngum, heldur biður hún um blað, liti, skæri og lím og gömul blöð eins og þín ömmubörn og úr þessu verða hin ólíklegustu listaverk. Þetta gefur hugmyndafluginu lausan tauminn og þroskar hæfni handanna. Og veitir mikla gleði.

  4. Svanfríður says:

    Ég er svo sammála þér Ragna. Nú er minn gutti að verða eins og hálfs árs og nú þegar er herbegið hans fullt af dóti sem lítið eða sjaldan hefur verið notað og við foreldrarnir höfum keypti minnst af því. Ég hef tekið á það ráð að skammta honum dóti og hefur það reynst ágætlega. En litlu bílarnir hans, pottarnir og sleifarnar hafa alltaf vinninginn.

  5. Linda says:

    Einhvern tíma var gerð könnun á börnum, til þess að sjá hvort það væri þess virði fyrir foreldrana að spandera í öll nýju, dýru leikföngin..
    Fyrir framan börnin voru sett glænýjar dúkkur, bílar og eitthvað fleira og svo sviðakjammar..
    Kjammarnir áttu vinninginn í öllum tilfellum..
    Það þarf ekki að kosta mikið að gleðja börnin..

  6. Stefa says:

    Sviðakjammarnir
    Já ég verð að taka undir með síðasta ræðumanni því ég upplifði þetta hér heima. Stjúpsonur minn fékk sviðakjamma sem amma mín hafði komið með með sér eitt skipti í vetur. Honum fannst þetta hið skemmtilegasta leikfang og óskaði sér þess að eiga annað slíkt. Í síðustu viku sat hann hálfan dag við það að teikna uppfinningu á blað, lita hana og lagði þvílíka natni við verkið. Unun að fylgjast með svona litlum fingrum töfra fram jafn heillandi listaverk.

Skildu eftir svar