Vangaveltur um áframhaldandi draugagang.

Var einhver að tala um draugagang fyrir örfáum dögum? Ekki veit ég hvað er í gangi hérna hjá mér.

Í morgun þegar ég snaraði mér út til þess að fara í sjúkraþjálfun þá gat ég ekki skilið af hverju bíllinn opnaðist ekki með fjarstýringunni. Ég fór því inn aftur og leitaði uppi aukalykilinn en hann virkaði ekki heldur. Jæja það er þá eitthvað í ólagi með þetta fjarstýringardæmi sagði ég við sjálfa mig og prufaði nú lykilinn. Viti menn ég komst inn á lyklinum en þegar ég stakk lyklinum í svissinn og ætlaði að setja í gang var bíllinn eins dauður og einn bill gat verið. Óskiljanlegt þar sem bíllinn var í fullkomnu lagi á föstudaginn og engin vandræði hafa verið með að starta honum undanfarið eins og oft vill nú vera þegar rafgeymar eru að verða slappir. Kannski var hann "abbó" af því ég hef verið með Hauki á nýju Hondunni og látið þann bláa bara dúsa hérna fyrir utan alla helgina.

Haukur var hjá tannlækni í morgun svo ekki þýddi að reyna að hringja til hans til að koma mér til bjargar svo ég hripaði miða til hans og sagði honum frá vandamálinu og tók svo fótanna og hálf hljóp til sjúkraþjálfarans, sem eftir gott klapp raðaði í mig nálum sjálfsagt talið öruggara að róa mig niður. Ég rölti svo í rólegheitunum heim aftur og þegar ég kom að bílaplaninu var Haukur að ljúka við að taka rafgeyminn úr og fór síðan með hann á Hekluverkstæðið hérna til þess að láta hlaða hann. Á morgun kemur svo í ljós hvort þar með verði vandamálið leyst eða hvort draugagangur heldur áfram hérna í Sóltúninu.

Annars hefur dagurinn verið mjög góður og skemmtilegur. Rúnar hennar Stefu
var að hjálpa Guðbjörgu og Magnúsi Má að setja upp eldhúsinnréttingu í dag og Stefa og Markús Marteinn komu með svo það var líflegt í Grundartjörninni í dag. Við kellurnar og börnin skruppum svo aðeins niður í sveit í Sveitabúðina Sóley, alltaf gaman að koma þangað. Síðan borðuðum við saman fiskisúpu hérna í Sóltúninu.
Mikið er nú gaman þegar það er svona mikið líf í kringum mann.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Vangaveltur um áframhaldandi draugagang.

  1. Stefa says:

    Já ég skemmti mér konunglega og hafði mjög gaman af deginum. Og súpan var ljúffeng Ragna mín – ég er nýfarin að kunna að meta sjávarfang og þykir þetta aldeilis fínn matur. Bestu þakkir 😀

  2. Sigurrós says:

    Æ, hvað það er eitthvað kósí að vita af minni kæru vinkonu að eiga svona mikil og góð samskipti við mína kæru fjölskyldu 🙂 Helst hefði ég auðvitað viljað vera með ykkur í kósíheitunum 🙂

  3. afi says:

    Þessir bílar
    Það er auðvitað alveg óþolandi, þegar þessar bifreiðar taka upp á þessum óskunda að opna sig ekki eða hvað þá heldur, neita að fara í gang. Hvað halda þeir eiginleg að þeir séu? Sjaldan launar kálfurinn ofeldið. – Eða vantaði eitthvað uppá umhyggjuna og eldið á bílnum? Trúi því ekki. niðurstaðan DRAUGAGANGUR. Eða eins og þú segir afbrigðisemi. Þegar svona stendur á, hvað er þá betra en að fá sér heita og góða súpu.

  4. Svanfríður says:

    Nú datt mér Þrjú á palli í hug og söngurinn um draugsa og ömmu:)

  5. Linda says:

    Það er svo skrítið að stundum virðast dauðir hlutir lifa sjálfstæðu lífi..
    Einkennilegur ands..

  6. Ragna says:

    Aðallega ellin sem hrjáir, ekki ill meðferð.
    Eitt er víst með blessaðan bílinn minn. Ég fékk hann nýjan 1998 og er ekki búin að aka nema 60 þús km. og það þykir víst ekki mikið. Svo hefur hann farið í allt lögbundið dekur, fyrir nú utan alla þvottana, svo hann getur ekki verið að kvarta yfir illri meðferð. Nú er búið að hlaða rafgeyminn og ég ætla við fyrsta tækifæri að kaupa nýjan því mig langar ekki til þess að verða stopp á miðri Hellisheiðinni, kannski á leið heim úr saumaklúbb seint um kvöld.

  7. afi says:

    Var það ekki.
    afi átti kollgátuna. Ofdekur var það og ekkert annað.

Skildu eftir svar