Kátt á kvenfélagsfundi.

Nú er maður að smá fikra sig inn í menningarlífið hérna á Selfossi. Fyrsta skrefið var tekið í gærkvöldi þegar ég gekk í kvenfélag Selfoss.

Við tókum tal saman í heita pottinum um daginn tvær úr vatnsleikfiminni og ræddum m.a. um bréf sem kvenfélag Selfoss hafði sent í öll hús hérna. Í þessu samtali sannaðist enn og aftur hvað heimurinn er lítill. Það kom nefnilega í ljós að sú sem ég var að tala við, er líka nýflutt á Selfoss af höfuðborgarsvæðinu og meira en það hún keypti húsið hennar Selmu systurdóttur minnar.

Við áttum það líka sameiginlegt að hafa báðar verið framarlega í kvenfélögum, reyndar var í mínu tilfelli búið að sameina kvenfélag og bræðrafélag í safnaðarfélag en það er á sama grunni. Báðar erum við tiltölulega nýfluttar á Selfoss og því svona hálfgerðir nýbúar á staðnum. Báðar hafa orðið ekkjur og kynnst síðan aftur góðum mönnum, vel að merkja í dansinum. Báðar komu á Selfoss til að geta verið meira með barnabörnunum sínum og sjálfsagt á eftir að koma fleira í ljós.

Það var svo ekki leiðinlegt að á þennan fyrsta fund sem við mættum á í gærkvöldi kom hún Helga Braga til þess að kenna okkur hér á Selfossi um daður og það, að verða sannkallaðar dömur.
Hún skýrði út fyrir okkur hvað það væri að vera með mikið af baðstofugenum. En baðstofugenin hefur fólk sem gengur hokið með hausinn niðri í bringu og krosslagða arma yfir brjóstið og lætur ekki hvarfla að sér að svo mikið sem bjóða góðan daginn þeim sem það mætir eða hittir. Vitanlega bætti hún svo við að þetta ætti náttúrulega ekkert við um okkur eða fólkið hér – það væri bara hitt fólkið sem væri svona.

Ég verð nú að játa að ég vissi ekkert á hverju ég ætti von. Þó ég hafi heyrt um það hvað þau væru skemmtileg þessi daðurnámskeið hennar Helgu Brögu, þá hélt ég að þetta snerist eingöngu um að veiða á börum og svoleiðis. Ekki datt mér í hug að þetta snerist um það að sýna öðrum vingjarnlegt viðmót og gefa af sjálfum sér í stað þess að þumbast bara áfram.

Svei mér þá ef það sléttist ekki bara úr hrukkunum í kringum munninn eftir gærkvöldið því svo skemmtilegt var þetta að varirnar voru strekktar vegna hláturs í þessa nærri tvo klukkutíma sem námskeiðið stóð yfir.

Ég geri mér nú fulla grein fyrir því að ekki verða allir kvenfélagsfundirnir svo skemmtilegir að þeir komi í staðinn fyrir hrukkukrem en þetta var á við leikhúsferð. Svo sátum við líka við borð með mjög skemmtilegum konum sem tóku okkur af miklum vingjarnleik – nota bene- líka áður en Helga Braga mætti og fór að tala um baðstofugenin. Kannski hafa þær farið á daðurnámskeið áður :). Ég hlakka til framhaldsins og hver veit nema maður geti látið eitthvað gott af sér leiða í góðum félagsskap.

Er þetta ekki einmitt það sem nýbúar þurfa að gera, að taka þátt með hinum í stað þess að sitja bara utanvið allt.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Kátt á kvenfélagsfundi.

  1. afi says:

    Gaman
    Þetta hefur verið skemmtileg kvöldstund. Maður er manns gaman. Eða er kona …..? Heimurinn er stundum lítill, þett víkkar sjóndeildarhringinn. Bráðum verður Ragna allt í öllu á staðnum.

  2. Þórunn says:

    Góð skemmtun
    Þetta hefur sannarlega verið góður dgur, frá morgni til kvölds. Ég mæli með að þú segir okkur nánar frá þessu daðurnámskeiði. „Maður getur alltaf á sig blómum bætt.“

  3. Ragna says:

    Ekki hef ég nú áhuga á því „að verða allt í öllu“ því það freistar mín ekki en það er gaman að vera með.
    Þórunn mín þú færð sko að heyra meira um um daðrið. Ætli næsti pistill fari ekki í það að leyfa ykkur að heyra meira um þessa list.

  4. Svanfríður says:

    Ég er stolt af þér Ragna að hafa drifið þig í kvenfélagið-þetta er nefnilega alveg réttur hugsunarháttur hjá þér að koma þér í félagsskap þar sem þú kynnist heimafólki. Gott hjá þér!

  5. Linda says:

    Ragna, það er alltaf svo mikið að gerast í kringum þig.. eitthvað svo spennandi..
    Mér líst afar vel á þetta félag, alltaf nóg um að vera í kvenfélagi..
    Og Helga Braga er alger snillingur, hún var eitt sinn með skemmtiatriði á árshátíð sem ég fór einu sinni á og það lá allur salurinn í krampa..

  6. Edda says:

    Jæja Didda mín, gott hjá þér, þú átt örugglega eftir að láta að þér kveða í Kvenfélaginu, þær eru heppnar að fá þig í hópinn.
    kveðja
    þín Eddagg

Skildu eftir svar