Naglinn á höfuðið og hananú.

Hún Helga Braga sló sko naglann beint á höfuðið á mér og nú lætur það mig ekki í friði að þurfa að viðurkenna að ég sé ekki daðrari góður, alla vega ekki samkvæmt HelguBrögu skilgreiningu.

Það er nefnilega eitt sem hún sagði sem ég tók beint til mín og hef hugsað mikið um síðan og verð að viðurkenna að ég hef aldrei lært í lífinu. Ég býst nú við að einhver ykkar séu með samskonar baðstofugen, eins og hún Helga Braga kallar það. Þetta er:

AÐ KUNNA EKKI AÐ TAKA VIÐ HRÓSI.

Þetta ku vera mjög slæmt einkenni og fellir mann algjörlega á prófinu sem sker úr um hversu góður daðrari maður er. Fyrir svo utan það, að láta þann sem hrósar líta út eins og fífl sem hefur enga dómgreind.

Það rifjaðist ýmislegt upp fyrir mér sem gerir það að ég er í dag með samviskubit yfir framkomu minni fyrir mörgum árum. Ég sé t.d. fyrir mér hana Sivvu mína sem ég vann með. Hún var svona tískulöggan okkar á skrifstofunni, meira að segja lærð í París. Hún kom stundum svo elskuleg til mín og gaf mér hrós fyrir hitt og þetta. Ég tala sérstaklega um hana því skrifstofuaðstaðan okkar var hlið við hlið og hún var alltaf svo góð við mig og jákvæð. Þegar ég var að drukkna í vinnu kom hún stundum og klappaðiá öxlina á mér og sagðist hafa lagað svo fínt jurtate handa mér og svo sagði hún oft eitthvað á þá þeið hvað ég væri fín í dag eða hvað ég liti nú vel út. Í staðinn fyrir að þakka fyrir og segja hvað hún væri nú sæt að segja þetta Þá fékk hún yfirleitt einhverjar hreitur í sig eins og kannski "Þessar gömlu druslur sem eru farnar að láta á sjá, ég er nú búin að eiga þetta svo lengi að þú hlýtur að vera búin að sjá þetta oft. Eða ef hún talaði um að ég liti vel út. " það getur nú ekki verið, ég réði ekkert við hárið á mér og með bauga niður á kinnar"
Svo er nú sér kapituli þegar einhver kemur í heimsókn og segir kannski " Mikið er allt fínt hjá þér", hvað segir maður þá " Það er nú allt skítugt, ég hef ekki þrifið í marga daga" Humm, hver eru skilaboðin – manneskjan sem kom hlýtur að vera sjónlaus að sjá ekki hvað allt er skítugt hjá mér.

Ég skal nú bara segja ykkur það, og ég hef það frá ekki minni manneskju en henni Helgi Brögu, að svona svör við því þegar verið er að hæla manni fyrir eitthvað, hvort sem um er að ræða útlit, fatnað, eða hvað sem er, flokkast undir helberan dónaskap. Með slíku svari er maður hreinlega að gera þann sem hrósar manni, að algjöru fífli.

Svona svör fela nefnilega í sér merkinguna "Þú ert nú algjört fífl að sjá ekki að ég er í gömlum druslum og með bauga langt niður á kinnar".

Ég veit að ég er ekkert ein um það að finnast erfitt að taka vi hrósi við erum örugglega mörg sem falla á því prófinu.

Þar sem ég vil fyrir alla muni verða daðrari góður þá ætla ég nú að reyna að muna að þakka bara fallega fyrir mig ef einhver sér ástæðu til að hrósa mér fyrir eitthvað, til þess að viðkomandi geti að minnsta kosti fengið að halda sjálfsvirðingu sinni en verði ekki gerður að fífli.

Ég hef þetta ekki lengra og óska ykkur öllum góðra stunda.

Þið eruð svo frábær.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Naglinn á höfuðið og hananú.

  1. Hulla says:

    Takk Ragna mín 🙂 Þar sem ég er nýbúin að lesa að „við séum frábær“ þá tek ég það beint til mín og þakka pent fyrir.
    Er þetta ekki meira það, að maður er óvanur því að fólk sé að hrósa manni? Ég fer a.m.k alveg í flækju ef mér er hrósað.
    En þú ERT frábær og góð 🙂
    Hafðu það gott.
    P.S ég er búin að kaupa kort og sendi það í dag 🙂
    Kossar og knús héðan

  2. Ragna says:

    Þakka þér kærlega fyrir Hulla mín. Það er gott að þér finnst ég ekki vera vonda stjúpan.
    Það eru örugglega fleiri en við sem hafa farið í flækju við að fá hrós, en nú breytum við um viðbrögð þegar við vitum hvernig á að bregðast við hrósinu.

  3. Þórunn says:

    Hrós
    Þetta var þarfur pistill fyrir marga, þar á meðal mig. Að taka hrósi, verður eitthvað svo mikið skiljanlegra þegar það er sett svona fram. Eða að taka við gjöfum sem að manni eru réttar af einlægum hug. Það er einhver lenska að segja, „þú áttir ekki að vera að þessu“ eða „þetta var alveg óþarfi“ í stað þess að gleðja, glaðan gjafara og þakka kærlega fyrir sig. Að lokum þú ert alveg frábær vinkona.

  4. Gurrý says:

    Hittir beint í mark
    Þetta er nú mjög góð lesning og þörf. Ég er akkúrat ein af þessum sem geri lítið úr hrósi, ég veit ekki hvað þetta er eða hvaðan maður lærir þennan fjanda! Ekki gerði ég mér grein fyrir því heldur að maður beinlínis gerir lítið úr hrósandanum, ja hérna, nú geri ég sko endurbætur. Já svo ég bæti nú á hrósin til þín kæra netvinkona…mér hefur alltaf þótt myndin af þér við tölvuna einstaklega glaðleg og mikil birta yfir þér og einstaklega góð og skemmtilega manneskja í alla staði og hafðu það! Hahaha gaman að þessu 🙂

  5. Svanfríður says:

    Þetta var góður pistill og lætur mann hugsa. Ég held að að kunna ekki að taka á móti hrósi sé eitthvað í blóðinu á okkur íslendingunum, kannski að við séum hrædd um að fólk telji okkur roggin ef við viðurkennum það sem okkur er hrósað fyrir. En auðvitað á maður að taka því sem sagt er við mann. Þannig að ég segi við þig: mér finnst þú góður penni, þú ert hlý og hjartagóð og maður þarf ekki að þekkja einhvern persónulega til að sjá það út.

  6. Ragna says:

    Snillingur.
    Mikill snillingur er ég að kría út svona mikið hrós. Nú get ég æft mig í að taka við hrósinu og segi því:
    Þakka ykkur öllum innilega fyrir góð orð og uppörvun. Ég óska ykkur öllum góðrar helgar.

Skildu eftir svar