Sælukot.

Við Guðbjörg skruppum með krakkana í Sælukot í dag. Við höfðum frétt að það ætti að vera karla vinnuferð til að grafa fyrir rafstreng. Við höfðum nú engan karl til að senda svo mér datt í hug að baka pönnukökur og skonsur og færa vinnumönnunum með kaffinu svona til að leggja eitthvað af mörkum. Það kom svo auðvitað í ljós þegar á staðinn var komið að það þurfti sko ekki að vorkenna þeim að vera þarna einir, kvenmannslausir og kaffilausir því það var fullt hús vaskra kvenna sem hugsaði fyrir öllum þeirra þörfum. Dröfn sagði að það hefði nú ekkert þýtt að senda þá eina, einhver yrði að stjórna þeim.


Já, það á að fara að taka inn rafmagn í bústaðinn. Það þýðir ekki lengur að berjast á móti þeirri staðreynd að við þurfum á rafmagni að halda. Einn af kostunum við það er sá að mun lengri tíma ársins verður hægt að nýta bústaðinn.  Eitt höfum við Loftur þó rætt og erum sammála um. Að bústaðurinn eignist ekki sjónvarp og sjónvarpsloftnet verði ekki sett upp. Ef einhver vill hafa sjónvarp/video á sínu tímabili þá verður sá hinn sami að taka það með sér heim aftur. Við erum nefnilega það íhaldssöm bæði og hugsanlega allir sem í hlut eiga, að mannleg samskipti eigi að vera í fyrirrúmi á þessum stað. Þarna eigi að rabba saman, ráða krossgátur, lesa, spila, hlusta á fuglasönginn og hvaðeina annað en sitja yfir sjónvarpi. Það verður tilhlökkunarefni að fá ljós og rafmagnshitun í húsið og heitt vatn. Það stendur líka til að stækka bústaðinn og koma upp hreinlætisaðstöðu með langþráðri sturtu.


Kvöldið hefur verið rólegt og tíðindalítið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar