Andleysi og annríki.

Ég hef verið svo löt síðustu daga, en þarf virkilega að taka mig á og verða svolítið dugleg því ég ætla að hafa saumaklúbb í hádeginu á laugardag og get ekki einu sinni ákveðið hvað ég ætla að bjóða upp á. Svo er ég alveg bundin á morgun og verð í bænum á föstudaginn svo ég verð að taka mig á og fara að undirbúa eitthvað.  En, mér leggst eitthvað til og ætla ekkert að örvænta.  Ég bauðst sjálf til að hafa þennan klúbb núna því samkvæmt veðurkortum á  að vera óhætt  að  koma yfir Hellisheiðina, en auðvitað búa allar á Reykjavíkursvæðinu og bíða því vorsins eftir að koma til mín á Selfoss.

Mig grunar að höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferðin hafi gert mig svona þreytta og lata því Guðbjörgin sem meðhöndlaði mig sagði að ég gæti orðið dálítið eftir mig. Ég þori varla að hæla því, en ég hef sofið ágætlega þessar tvær nætur síðan ég fór í meðferðina á mánudaginn. Ég er viss um að þetta gerir mér gott og ætla því að taka nokkur skipti í viðbót. Það hlýtur að koma að því að ég hressist, en það ku vera góðs viti að ég er svona máttlaus og eftir mig því þá er líkaminn að vinna úr þessu. Maður verður að gefa hlutunum sjens. Sjúkraþjálfarinn minn var mjög jákvæður gagnvart því að ég prufaði þetta og sagði að hún Guðbjörg væri mjög vandvirk og góð. Hún er ekki farin að auglýsa sig því hún vill vera komin með öll réttindin fyrst. Ef ég verð ný og betri eftir þessa meðferð þá skal ég upplýsa ykkur um nafn og símann hennar þegar hún opnar stofuna sína formlega, svo fleiri geti notið góðs af.

Jæja, andleysið er svo algjört að ég ætla bara að drífa mig í rúmið og kúra þar til morguns – engin leikfimi um miðja nótt núna.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Andleysi og annríki.

  1. Linda says:

    Æji, elsku Ragna mín..
    Það vill svo til að ég á smá auka „önd“ í farteskinu, svo ég ætla að senda þér hluta yfir hafið..

    Vona að hann hafi skilað sér..

  2. Ragna says:

    Þakka þér fyrir hugulsemina Linda mín. „Öndin“ þín kemur í góðar þarfir og verður notuð upp til agna.

  3. afi says:

    Uppávið
    Nú liggur leiðin bara uppávið. Þú vaknar eldhress og sópar saman hvílíkri veislu að annað eins hefur ekki sést sunnan heiða í langan tíma. Góða skemmtun. Gangi þér vel í áframhaldinu.

  4. Svanfríður says:

    Ohh, það væri nú yndislegt ef þú gætir sofið allar nætur alveg til morguns. En ef þú verður einhverntíman andvaka, skelltu þér þá á msn og við getum „spjallað“ saman þar því þegar ég er í tölvunni þá er miðnótt hjá þér:) Það er nú margt vitlausara en þetta ekki satt?

  5. Ragna says:

    Þakka þér fyrir gott boð Svanfríður mín en nú hefur það gerst að ég hef sofið þessar nætur síðan ég fór í höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferðina og vonandi kemst ég út úr þessum vítahring mínum. Svo er annað – ég hef þá reglu að kveikja aldreii á tölvunni eða sjónvarpinu þegar ég get ekki sofið því það gæti þá orðið vani að vakna til þess á nóttunni.
    Ég sendi góðar kveðjur,

Skildu eftir svar