Átti nýjan bíl í klukkutíma.

Ég var búin að taka þennan föstudag frá í ákveðnum tilgangi og hef beðið spennt eftir því að þessi dagur kæmi.

Þannig er að fyrir allnokkrum árum keypti ég mér hlutabréf Íslandsbanka og fékk á sínum tíma skattaafslátt þessi tvö ár sem ég keypti tilskilinn skammt af hlutabréfum. Tíminn hefur liðið og ég fylgst með góðri ávöxtun þessara fjármuna minna. Svo fór allt í einu að halla niður á við og bréfin féllu – og féllu. Sumir sögðu að ég skyldi bara eiga þau áfram og aðrir að ég skyldi losa mig við þau áður en þau féllu ennþá meira. Ég sá að ég hafði engar taugar eða þekkingu til þess að vera að fylgjast með þessum bréfum svo ég seldi þau og þegar ég sá að andvirði þeirra passaði akkúrat ásamt gamla Pólónum mínum, fyrir nýjum bíl þá ákvað ég bara að vera kærulaus og láta vaða í að endurnýja bílinn.

Þessvegna var ég svo spennt í dag að fá nýja bílinn minn sem ég er búin að bíða eftir í nærri mánuð. Liturinn sem ég óskaði mér var nefnilega ekki til þegar ég ætlaði upphaflega að fá bílinn.

Ég var búin að þrífa bílinn vel að innan og losa mitt dót úr honum, setja sumardekkin í skottið því ég var enn á nöglunum (svona þetta Hellisheiðarfóbíufólk) og síðan brunaði ég í bæinn og hlakkaði mikið til að aka nýja bílnum aftur austur.

Ég gekk frá öllum pappírum á staðnum og greiddi umsamið gjald og var síðan sagt að ég þyrfti að bíða aðeins á meðan það væri verið að ganga endanlega frá bílnum. Ég byrjaði að bíða og síðan kom Sigurrós til mín því ég var með dót sem hún átti. Hún beið því talsverðan tíma hjá mér. Loks var stundin runnin upp og sölumaðurinn kom brosandi til mín og sagði -"Það er þessi blái hérna fyrir utan". –
"Þessi blái? Það er ekki bíllinn sem ég ætlaði að fá það er allt annar litur á honum. Þessi blái litur var til upphaflega þegar ég ætlaði að kaupa bílinn en nú er ég búin að bíða í mánuð eftir litnum sem ég pantaði. Því miður er það ekki þessi."

Sölumaðurinn sem afgreiddi mig er annar en sá sem ég hef verið í samskiptum við. Ég vissi að sá yrði í fríi í dag og þessi myndi afhenda mér gripinn. Aumingja maðurinn varð eitt spurningamerki og til þess að gera langa sögu stutta, þá kom í ljós að einhversstaðar höfðu orðið mistök í boðskiptum á bílasölunni og rangur bíll verið gerður klár og skráður á mig.

Ég passaði mig nú að fara ekkert að skæla og Sigurrós spurði strax hvort það yrði þá ekki komið með hinn austur til mín þegar hann væri tilbúinn. "Jú vitanlega gerum við það, það er bara alveg sjálfsagt" sagði sölumaðurinn.

Við fórum því mæðgurnar inn í Kringlu til þess að fá okkur kaffi og til að nota bókaávísunina sem ég gat ekki notað hérna á Selfossi.

Þegar ég var í föstudagsumferðinni komin á mínum nagladekkjum inn í Kringlu hringdi síminn og það var þá sölumaðurinn. Hjartað í mér hoppaði af gleði því nú hélt ég að minn rétti bíll hefði fundist tilbúinn í einhverju horninu. Nei, ekki var það nú svo gott, heldur þurfti ég að koma aftur inn í Vatnagarða til þess að undirrita skjal þess efnis að ég samþykkti afskráningu mína á þessum bláa bíl sem hafði verið skráður á mig – aldrei hef ég átt bíl í svona stuttan tíma, klukkutíma og svo búið.

Nú er ég komin aftur heim á Selfoss á gamla Pólónum mínum – kannski vill forsjónin ekkert að ég sé að segja skilið við hann. Hann hefur nú reynst mér vel blessaður.

Guðbjörg hringdi í mig þegar ég var á leiðinni austur og óskaði mér til hamingju með þann nýja og sagði að Magnús ætlaði að elda uppáhaldskjúklingaréttinn sinn og bjóða tengdó í mat í tilefni dagsins. – Þegar hún hafði heyrt söguna þá sagði hún að ég fengi allavega matinn þó svo að ég kæmi ekki á nýja bílnum.

Haukur hringdi líka til mín og óskaði mér til hamingju og bauð mig velkomna í Hondusamfélagið og hvort það væri ekki fínt að aka nýja bílnum – "S o r r ý – er að pjakkast hérna framhjá Sandskeiðinu á mínum gamla". Hann ætlaði ekki að trúa mér.

En þið sem lesið söguna mína, ekki dæma Honda umboðið hart. Mistök geta alltaf átt sér stað og sölumaðurinn var alveg miður sín yfir þessu. Auðvitað var þetta mjög leiðinlegt og ég hefði svo gjarnan viljað nota daginn til annars, en svona hlutir geta bara alltaf gerst.

Nú hef ég alla vega eitthvað að hlakka til áfram og bíð því spennt fram á þriðjudag eða miðvikudag.

Ég óska ykkur öllum

góðrar helgar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

10 Responses to Átti nýjan bíl í klukkutíma.

  1. Sigurrós says:

    Já, ekki fór þetta alveg eins og áætlað var… 🙁 En eins og sagt er, góðir hlutir eru þess virði að bíða eftir og bíllinn verður bara ennþá æðislegri þegar hann loksins kemur 🙂 Reyndar fannst mér nú mótorhjólið asskoti töff líka – finnst eiginlega að þú hefðir bara átt að grípa það í staðinn og þeysa burt! 😉

  2. Ragna says:

    Sárabætur
    Já eins og myndirnar sýna þá vantaði mig bara hjálminn annars hefði ég tekið þetta mótorhjól sem sárabætur, ha,ha.

  3. Anna Sigga says:

    Ja, hérna ýmsu er hægt að lenda í !!!
    …ég hefði líklega farið að skæla ef ég hefði verið í sömu sporum, að fá ekki nákvæmlega eins bíl og ég pantaði mér og verða að bíða lengur. En hvaða bók/bækur keyptir þú þér fyrir bókaávísunina? Farðu vel með þig Ragna mín!!!

  4. EddaG says:

    Æi, en hvað þetta var leiðinlegt, en það hefði getað verið verra. Gott að þú hefur eitthvað áfram að hlakka til þó það sé það sama sem þú ert búin vera að hlakka til í heilan mánuð. Vona að það gangi betur næst.
    þín Edda GG
    ps. ég tek undir með Sigurrósu, það klæddi þig assk….. vel

  5. EddaG says:

    Það vantaði aðeins í síðasta belginn minn til þín eða – „á mótorhjóli“.
    Ég verð að segja þér sögu af henni BH minni gömlu, hún þeysti einu sinni aftan á svona tryllitæki með honum Garðari sínum (syni Guðrúnar). Ég þakkaði reyndar Guði fyrir að verða ekki vitni að því.
    bless í bili, sjáumst á eftir mín kæra
    þín EddaGG

  6. Ragna says:

    Ja, kæra Anna Sigga líklega þykja það nú ekki merkilegar bókmenntir sem ég keypti mér fyrir ávísunina en bókin heitir „Franskar konur fitna ekki“ en við mæðgur höfðum heyrt að þessi bók væri skemmtileg og ég ákvað að kaupa hana og láta svo ganga á milli. Ég vona að ég fari alveg rétt með nafnið, en ég fór með hana til Guðbjargar til að lesa fyrst. Ég vissi að ég kæmist ekki í að kíkja á hana strax.

  7. Ragna/Didda says:

    Edda mín, ég er sammála þér að ekki hefði ég viljað vera vitni að þessum akstursmáta BH og ekki ósennilegt að dóttursonurinn hafi setið stjarfur.
    Best að fara að drífa sig í matargerðina.
    Sjáumst,

  8. Svanfríður says:

    Þetta er nú svolítið svekkjandi en orðið að nokkuð góðri framhaldssögu:) Góða helgi og vonandi kemur bíllinn fyrr en síðar.

  9. Linda says:

    Ég var farin að verða svo spennt yfir nýja bílnum að ég var farin að finna „nýju-bílalyktina“ þegar ég las pistilinn..
    Ohh, það eru svo leiðinleg svona mistök sem hefði verið hægt að komast hjá.. ég segi sama og Sigurrós – góðir hlutir láta bíða eftir sér..
    Góða helgi elsku Ragna..

  10. Edda systir says:

    Til hamingju með nýja bílinn , ég er nú fyrst að heyra þessar hrakfarir þínar núna. En nú sé ég fínan ljósan bíl við dyrnar hjá þér það hlýtur að vera sá rétti. Hvernig var þetta með bókaávísunina ? Ég gekk með mína inn í Nóatún á Selfossi og keypti bók orðalaust ?!!

Skildu eftir svar