Kvenfélagsfundur í vorblíðunni í Þrastarlundi.

Fyrst ætla ég að óska honum Simma systursyni mínum til hamingju með afmælið í dag 10. maí. Ég var ekkert búin að gleynma þér Simmi minn en ég hafði bara ekki tíma til að skrifa færsluna fyrr en núna. Ég vona að þið hafið fengið ykkur einn öllara í Kóngsins Kaupmannahöfn í tilefni dagsins. Við biðjum kærlega að heisa og sendum góðar afmæliskveðjur.

—————

Eftir yndislegan dag hérna í hlýindunum á pallinum í gærdag þá var næst á dagskránni að fara á kvenfélagsfund. Að þessu sinni var fundurinn haldinn í Þrastarlundi.

Ég sótti Helgu, sem er nýbúi hér á Selfossi eins og ég, en við ákváðum að ganga í kvenfélagið til þess að komast aðeins inn í félagslífið hérna, en ég var nú búin að segja frá því áður og ætla ekkert að fara að tíunda það aftur.

Við hittumst allar fundarkonurnar við Selið sem er hinn almenni fundarstaður og þegar allar voru mættar klukkan rúmlega sex, þá var ekið í halarófu upp að Þrastarlundi. Þar voru dregnir fram gönguskór og jafnvel göngustafir því fyrst átti að fara í skógargöngu.

Hér er hópurinn í upphafi göngunnar.

kvenfel3.jpg

Það eru margar gönguleiðir þarna í skóginum og mörg falleg rjóður og eitt sérstaklega hefur verið notað fyrir giftingar og veislan síðan verið í veitingahúsinu sjálfu. Svo er þarna stórt tjaldstæðið sem er oft fullt á sumrin enda ekki amalegt að vera á svona fallegum og skjólgóðum stað.

Veðrið var svo yndislegt í gærkveldi, logn og hiti og ég naut þess að vera í þessum góða félagsskap á svona fallegum stað og finna ilminn af skóginum. Já, það var ekki hægt að hugsa sér neitt sem væri betra að gera við tímann þessa kvöldstund.

Hér erum við Helga á bekk í einu skógarrjóðrinu.

kvenfel2.jpg

Þetta er ein af myndunum sem ég tók í skóginum.
Birtan var þannig að það var eins og það væri ljósasería á greinunum næst mér.

kvenfel1.jpg

Eftir gönguna í skóginum var farið á veitingastaðinn og borðaður kvöldverður. Síðan var hefðbundinn fundur. Það er nú ýmislegt á döfinni seinna í vor en ég missi af því vegna Danmerkurferðarinnar. Ég hlakka samt til 19. júní en þá er fyrirhugað að fara fjölskylduferð inn í Haukadalsskóg, fara í göngutúr og fólk hafi með sér nesti sem verði snætt í skóginum. Sem betur fer verð ég komin til þess að taka þátt í því.

Þessa mynd verð ég að setja hérna líka. Við höfðum það aðdráttarafl að á meðan á fundinum stóð dreif að hvert mótorhjólið af öðru og spurning hvort hugurinn var meira við efni fundarins eða alla þessa leðurklæddu mótorhjólagarpa sem sýndu listir sínar á bílaplaninu. Ég var alltaf að vona að þeir yrðu ekki farnir þegar fundinum lyki því ég ætlaði sko að taka mynd af þeim öllum. En, þegar fundinum lauk voru þeir að tygja sig á burt – sjálfsagt gefist upp á að bíða eftir að við kæmum út 🙂 –

Flestir voru lagðir af stað þegar við komum út af fundinum
en þessir voru rétt ófarnir.

kvenfel4.jpg

Þannig lauk nú þessum skemmtilega fundi. Þegar ég kom heim var Haukur kominn austur og enginn til að taka á móti honum, konan bara að elta mótorhjól upp í sveit.

Hér eru allar myndirnar. 

———————-

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Kvenfélagsfundur í vorblíðunni í Þrastarlundi.

  1. SVanfríður says:

    Ég einmitt hlakka svo til sumarsins Eyjólfs vegna. Nú er hann orðinn það stór og vel göngufær og hér allt í kring eru skógar og göngustígar. Svoleiðis að drengurinn fær að ganga sig upp að hnjám í sumar:) Svo kannski verðum við það heppin að sjá dádýr og önnur skógardýr-ég vona bara að sléttuúlfarnir láti ekki sjá sig fyrr en að kvöldinu þegar við mæðgin erum farin heim!

  2. Linda says:

    Það er alltaf nóg um að vera í kringum þig Ragna mín..
    Ég skil ekkert í þessum leðurklæddu að hafa ekk staldrað við aðeins lengur, það hefði verið gaman að sjá þig „pósa“ á einu hjólinu..
    Skemmtileg myndin af trénu og það er alveg rétt hjá þér, það er eins og það sé skreytt jólaseríu..
    Farðu vel með þig Ragna mín..

  3. afi says:

    Hvað er svo glatt….
    Ánægjustund í góðra vina hópi. .. Og myndirnar skemmtilegar. Þessir leðurklæddu vissu ekki af hverju þeir misstu.

  4. Sigurrós says:

    Fjölskylduferð 19. júní? Ætlarðu ekki að taka litlu stelpuna þína með? 😉 Hún verður komin í sumarfrí… 🙂

  5. Ragna says:

    Já Sigurrós mín auðvitað má litla stelpan mín koma með. Taktu daginn frá.

Skildu eftir svar