Vantar lýsingu á Hellisheiðina!!!

Ég hafði góða afsökun að skrifa ekkert í dagbókina í gær því ég komst ekki inn á síðuna mína. Nú er hinsvegar allt komið í lag og engin afsökun.


Ég fór í bæinn í dag og hitti hárgreiðslukonuna mína svo nú eru gráu hárin heldur færri í bili. Ég fór svo í Hafnarfjörðinn og við Haukur borðuðum saman svo skrapp ég til tengdamömmu og drakk hjá henni kaffi áður en ég lagði svo af stað aftur austur um níuleytið í kvöld. Haukur þarf ýmislegt að stússa í bænum á morgun svo ég ákvað bara að fara austur í kvöld. Það var líka eins gott því á leiðinni til tengdamömmu þá mundi ég að það er miðvikudagur á morgun og þá á ég tíma hjá sjúkraþjálfaranum mínum klukkan 10.


Af því það var orðið dimmt þegar ég fór austur og svona rigningarúði þá fór ég að spá í þetta með lýsingu á leiðinni. Mér finnst mikið óöryggi í því að vera alltaf að setja á og taka af háu ljósin. Að ég nú tali ekki um þegar maður er sífellt að setja þurrkurnar á stutt í einu því ef þær eru samfellt þá fara þær að skrapa rúðuna en ef maður hefur á stillingunni sem kemur öðru hvoru þá var það ekki nóg. Þannig að ég var alla leiðina ýmist að fikta í þurrkunum eða ljósunum.  Nú segja spekingarnir að það sé hættulegt að lýsa leiðina austur því þá verði ekið of hratt og fólk geti ekið á og slasað sig á ljósastaurunum. Það sé líka verra í þoku því þá komi of mikið endurkast.  Mér finnst hinsvegar mjög mikið stress að vera alltaf að vesenast í þessum háu og lágu ljósum og sjá oft mjög illa fram á veginn. Ég tók eftir því hvað það var mikill munur þegar maður var kominn að upplýsta kaflanum (gulu ljósunum) hérna fyrir utan Selfoss. Mikið vildi ég óska að þessi margumtalaða lýsing komi nú á Hellisheiðina og reyndar alla leiðina austur áður en langt um líður. Vonandi á ég einhverja stuðningsmenn sem eru sama sinnis hvað þetta varðar.


Jæja nú er komið fram yfir miðnætti svo ég ætla að koma mér í rúmið. Fyrst ætla ég samt að hringja til hennar Ingunnar mágkonu. Það er svo mikill tímamunur að maður verður helst að bíða til miðnættis til að hitta á hana á skikkanlegum tíma hjá henni. Meira um það á morgun.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar