Tek pásu

Jæja þá er komið að því að taka sér smá bloggfrí og skreppa aðeins af bæ. Við höfum verið að ganga frá því litla sem hægt er ennþá að gera í garðinum. Ræktunin mín á sumarblómafræjunum fór illa í kuldanum sem verið hefur undanfarið svo ég bind ekki miklar vonir við blómskrúð í þeim pottum.

Ég er búin að kjósa, búin að koma nýja bílnum í fóstur og búin að gera ráðstafanir til þess að húsið hérna verði ekki mannlaust á meðan við erum í burtu svo nú er okkur ekkert að vanbúnaði. Við erum sem sé á leiðinni til Jótlands þar sem við heimsækjum dóttur Hauks og fjölskyldu. Við verðum með sumarhús og bíl á leigu svo við getum bæði farið til þeirra og þau komið til okkar. Þetta er húsið sem við fáum, ekki amalegt það.

f08463_31.jpg

Veðurkortið sýndi reyndar ausandi rigningu þarna á suður Jótlandi í gær en það styttir örugglega upp þegar við mætum á svæðið. Ég hlakka mikið til að keyra þarna um sveitirnar og skoða okkur um, fara í litla bæi, líta á handverksbúðir og njóta þess að vera túristi. Svo hlökkum við auðvitað mikið til að hitta þau Bojskovbúana . Það er svo langt síðan ég hef séð strákana að ég er hræddust um að þekkja þá ekki aftur. Ég hlakka mikið til ferðarinnar og ætla að taka fullt af myndum.

Nú verð ég að slökkva á tölvunni því Haukur er búinn að bera töskurnar út í bíl og þá er bara að koma sér í túristagírinn, aka til Keflavíkur og taka flugið.

Ég segi bara við ykkur öll – Eigið góðar stundir og ég hlakka til að taka upp þráðinn þegar ég kem heim. Eitt er víst. Ég á eftir að sakna ykkar þó tíminn verði ekki langur sem ég verð í burtu.

Kær kveðja kæru vinir. 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Tek pásu

  1. Linda says:

    Góða ferð
    Góða ferð Ragna mín og Haukur.. Þín verður sárt saknað í þessa daga sem engar færslur sjást á skjánum..
    Vona að þið hafið það yndislegt í Danaveldi og hlakka til að sjá myndir og heyra sögur þegar þú kemur til baka..

    Bestu ferðakveðjur
    Linda

  2. Svanfríður says:

    Góða ferð kæra Ragna og skemmtið ykkur vel með ykkar fólki.Hlakka til að „sjá“ þig aftur.

  3. Hulla says:

    Hlökkum ótrúlega til að sjá ykkur. Allir hreinlega að fara á límingunum. 🙂
    Strákranir eru búnir að skipuleggja heljarinar labbitúr með ykkur svo þið eigið von á góðu.
    Góða ferð og sjáumst í kvöld.
    Ástarkveðjur Hulla, Atli Haukur og co

  4. Ragna á Ak says:

    Við Maggi óskum ykkur góðrar ferðar og vonum að þið eigið yndislegan tíma í Danaveldi hittumst heil síðar í sumar kveðja RM

  5. Þórunn says:

    Góða ferð
    Við Palli óskum ykkur góðrar ferðar, það er engin spurning að það kemur gott veður þegar þið mætið á svæðið, annars er bara að taka fram regngallann og njóta þess að ganga um í hressandi veðri. Njótið vel ferðarinnar og að hitta fólkið ykkar, takk fyrir bréfið. Þórunn

  6. afi says:

    Farvel.
    Hafið það gott og skemmtið ykkur vel.

Skildu eftir svar