Vont veður og nammi, namm.

Þá er nú kominn laugardagur. Mikið er hver vika fljót að líða. Mér finnst svo stutt síðan við Haukur fórum í ferðalagið um síðustu helgi.


Á fimmtudagsmorguninn tók ég eftir tvennu. Í fyrsta lagi því að sólin er nú mun lægra á lofti. Í öðru lagi tók ég eftir því  (mér til nokkurrar armæðu) að eftir að sólin er orðin svona lágt á lofti þá blasir það við hvað það er komið mikið ryk á trérimlagardínurnar í stofunni. Ég fékk bara áfall þegar sólin skein á allt rykið. Hvernig ætli liti út hjá manni ef sólin væri alltaf hátt á lofti og maður tæki aldrei eftir því hvað allt er rykugt? Nei, nú þýddu engar afsakanir það varð að taka daginn í að þrífa. Ég þreif sem sagt alla glugga og rimlagardínur og ryksugaði svo í restina. Ég var rétt mátulega búin að klára þetta þegar tími var kominn til þess að fara í sundleikfimina. Ég ætlaði nú varla að nenna eftir þetta allt en vissi upp á hár að ég yrði sem ný á eftir svo ég dreif mig og sá ekki eftir því. Þetta var samt þó nokkuð span því Guðbjörg var á kennaraþingi í Vestmannaeyjum og ég var búin að taka að mér að hafa Karlottu og Odd til föstudags. Leikfimin er búin fimm mínútum fyrir fimm og af því það átti að sækja Karlottu í fimleika kl. fimm og Odd í leikskólann kl. fimm þá þýddi þetta að nú yrði ég að setja í fluggírinn. En áður en ég náði að stressa mig upp þá mundi ég að nú býr maður á Selfossi og það er ein og hálf mínúta yfir í íþróttahúsið og önnur ein og hálf yfir í leikskólann, hinar tvær mínúturnar notaði ég til að klæða mig. Svo þetta gekk allt saman upp.


Mér datt það snjallræði í hug að fara með krakkana á Kentucky og fá okkur kjúklingabita. Þeim fannst þetta líka fín hugmynd. Svo við trommuðum þangað og fengum okkur kjúkling og síðan fórum við heim í Urðartjörn og þau fóru að horfa á barnatímann. Ég sagði þeim svo að ég ætlaði að horfa á fréttirnar og þau ættu að hátta á meðan. Þau voru alveg rosalega góð. Þau háttuðu strax og þegar ég var búin að horfa á fréttirnar þá sungum við saman úr Stóru vísnabókinni og síðan var þeim pakkað inn og eftir smá stund leit ég inn og þá voru bæði steinsofnuð. Morguninn eftir fór ég svo með Odd á leikskólann og Karlottu í skóladagvistina því það var starfsdagur í skólanum.  Ég sótti hana svo um hádegið og hún var hjá mér hérna í Sóltúninu þangað til Siggi kom um þrjúleytið til að sækja krakkana til að vera hjá honum um helgina.


Haukur er í vinnusyrpu núna svo Í dag hef ég verið að dunda mér við bútasaum. Það er svo ágætt þegar ég er ein. Var að búa til jóladúk sem ég ætla að senda Angelu og Alick fyrir gestrisni þeirra um daginn. Það er akkúrat svona bútasaumsveður núna.  Ég skrapp reyndar aðeins út í Nóatún og lét m.a. freistast til að kaupa döðlur og Gráðost sem ég ætla að gæða mér á í kvöld. Ég held það séu nú mörg ár síðan mér datt slík vitleysa síðast í hug og vonandi fæ ég ógeð á þessu fljótt en þetta er rosalega gott í litlu magni og af því ég er nú með það mottó að kaupa mér ekki sælgæti þá datt mér í hug að gera eitthvað annað af mér. Já svona er lífið bara stundum.


Nú er ég búin að tala svo mikið um döðlurnar og gráðostinn að ég ætla bara að slútta þessu og nammi, namm.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar