Nóg að gera í ömmuhúsi.

Amma er með gest í heimsókn núna í tvo daga. Gest sem er sóttur heim til sín fyrir klukkan átta á morgnanna og sóttur aftur í ömmuhús síðdegis.

Fyrri dagurinn var í dag. Gesturinn var bara furðu ánægður með heimsóknina fram yfir hádegi, sat m.a. við gluggann i stofunni og var hugfanginn af því að horfa á vindinn leika sér í plöntunum hennar ömmu á pallinum og sjá gulu rellunna snúast á ofsa hraða.

Gesturinn þáði graut um hádegið og lét sér hann vel líka og gerði góð skil og lagði sig í smá stund á eftir.   Amma og afi komust hinsvegar alveg  í þrot og voru nærri farin að rífa í hár sitt  þegar gesturinn vildi ekki þiggja aðrar þær veitingar sem honum voru boðnar. Hvað skal gera þegar gestur vill ekki drekka það sem er hans uppáhaldsdrykkur og búið er að útvega með mikilli fyrirhöfn? 

Það sem gerir svo erfitt að átta sig á því hvað gestur eins og okkar vill eða vill ekki, er það að hann á erfitt með að gera sig skiljanlegan, kannski ekki nema von því aldurinn er ekki nema 5 mánuðir.

Mamma hans var búin að sitja með mjaltavél í marga daga og mjólka sig í sérstaka plastpoka sem eftir kúnstarinnar reglum voru síðan frystir og eftir öðrum kúnstarinnar reglum eru síðan  hitaðir aftur fyrir notkun. Það var sem sé  búið að undirbúa þessa daga vel og m.a. keyptur nýr peli, því síðast þegar þessi sami gestur var hjá ömmu og afa kvöldstund fyrir nokkru þá vildi hann ekki sjá pelann sem honum var þá boðinn. Það var hinsvegar hægt að gefa honum vökvann góða með skeið í það skiptið.  

Í dag gekk þetta sem sé þannig fyrir sig að hann vildi ekki sjá þennan pela frekar en hinn- eða var það vökvinn sem ekki var góður? Ekki hafði amma löngun til að smakka á vökvanum til að dæma um það. Þegar pelinn kom ekki að gagni var prufað drykkjarmál sérútbúið fyrir fólk á þessum aldri. Það var allt í lagi að nudda góminn með stútnum á þessu blessaða máli en að drekka úr því kom ekki til greina.  Þá mundi amma eftir þessu með skeiðina og sá fram á að koma vökvanum góða ofaní gestinn með því móti. Ekki gekk það nú því nú var bara blásið á skeiðina þegar hún kom að munninum svo innihaldið fór í allar áttir.   Nú var gesturinn að verða verulega pirraður og afi sagði að við skyldum ekkert vera að þessu, hann hlyti að geta beðið eftir mömmu sinni sem væri með rétta drykkinn – ekkert sull sem búið væri að vera í frysti.

Afi reyndist hafa rétt fyrir sér því gesturinn var því fegnastur þegar þessum pyntingum lauk og hann fékk sér væran blund og var svo hinn sprækasti eftir að hann vaknaði. Pabbinn kom svo og var mun kurteisari en ungi sveinninn hafði verið þegar honum var boðinn drykkur og pabbinn þáði kaffi með þökkum og án allra vandræða. Síðan kom mamma  úr Reykjavíkurdvölinni og þá hafði nú sveinninn ungi heldur betur  lyst á að drekka og kvartaði ekkert.

Amma og afi bíða svo spennt eftir morgundeginum – vonandi fara þau nú ekki að rífa í hár sitt ef illa gengur með drykkinn því gamlingjunum veitir ekkert af þeim hárlýjum sem enn eru eftir á höfðum þeirra. – Kannski öruggast að vera með húfu á morgun.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Nóg að gera í ömmuhúsi.

  1. Þórunn says:

    Sérþarfir
    Frásögn þín af gestinum unga er alveg frábær. Þó gesturinn sé aðeins fimm mánaða gamall, veit hann hvað hann vill. Það er svona með afa og ömmur, þau leggja mikið á sig til að gera gestinum gott, sem fær sér svo bara blund eftir allt baslið. Það var gott að mamma kom í tæka tíð með rétta vökvann.

  2. afi says:

    Bara það besta.
    Þau láta ekki bjóða sér hvað sem er, litlu skinnin.

Skildu eftir svar