Dagur tvö í ömmuhúsi- lausnin fundin.

Áður en amma fór að sækja unga sveininn í gærmorgun var hún búin að raða á eldhúsborðið því sem hugsanlega þyrfti að nota til að koma drykkjarföngunum upp í munn og ofaní maga á þeim stutta.

Svona leit nú úrvalið út.

drykkjarmal.jpgÞað er skemmst frá því að segja að þessi mjög svo ákveðni ungi maður lét sig ekki frekar en fyrri daginn. Amma var líka ákveðin og gaf sig ekki og sá við þeim stutta.
 
Nú ætla ég að segja ykkur ömmuráðið ef þið lendið einhverntíman í sömu vandræðum .
Eins og þið sjáið lengst til vinstri á myndinni er sprauta. Sá stutti fær sem sé fúkkalyf með þessari sprautu og þar sem það gengur bara vel þá datt ömmu í hug að nota sprautuna til að gefa mjólkina með. Amma fyllti því sprautuna með mjólk og byrjaði að sprauta upp í unga sveininn en eitthvað tók hann ekki eins vel á móti því og lyfinu – enda þynnra- og hann lét ömmu vita með háværri röddu að þetta væri ekki það sem hann vildi og lét vökvann leka út úr sér. Nú voru góð ráð dýr og ekki vildi amma láta í minni pokann. Lausnin varð svo sú, að sá stutti fékk snuðið sitt og amma hélt honum upp að barmi sér og sprautaði svo með sprautunni niður með snuðinu svo sá grunlausi saug það jafnóðum og taldi sér trú um að nú væri það eina rétta á boðstólum.
Þetta gekk svo ljómandi vel að það endaði með því að ungi sveinninn sofnaði við barm ömmu og svaf góðan lúr eftir drykkjuna.
 
Í dag er svo pabbi hans að spreyta sig og svo er nú þessum dögum sem mamma þarf að mæta í skólann til Reykjavíkur að ljúka og auðveldara um vik þegar ekki þarf að fara nema í tölvuna til að komast í skólann.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Dagur tvö í ömmuhúsi- lausnin fundin.

  1. Svanfríður says:

    Ömmurnar eru bestar, svo einfalt er það:)

  2. Þórunn says:

    Ömmuráð
    Ömmuráð eru góð ráð, það lætur engin amma gestina sína fara svanga frá sér. Þetta var sniðugt hjá þér.

  3. Linda says:

    Auðvitað kemst sá litli ekkert upp með að vilja ekki mjólkina..
    Amman er sniðug að sjá við svona vandamálum..

    Bestu kveðjur

Skildu eftir svar