Einkennileg frétt.

Mér var starsýnt á frétt á baksíðu Moggans í morgun. Stærsta fyrirsögnin hljóðaði svo: "Ný leið til að smygla fíkniefnum opin" og svo í framhaldinu með aðeins smærra letri: "Litlar flugvélar geta smyglað fíkniefnum til landsins án þess að sjást á ratsjá".

Til hliðar er svo svartletrað merkt "Í hnotskurn" þar sem er m.a. þetta: …"Ljóst er af umfangi smyglmála hér á landi undanfarið að kostnaður við að fá flugvél til að flytja fíkniefni hingað til lands er "vasapeningur" fyrir þá sem standa í slíku smygli, segir sérfræðingur"…

Það er ekki amalegt fyrir þá sem eru að leita leiða til að koma þessum eiturlyfjum hingað til lands og ekki hafa látið sér detta í hug þessi möguleiki, að fá svona góðar ábendingar.

Auðvitað er með þessari frétt verið að benda á þann veikleika í vörnum landsins sem skapast hefur eftir að varnarliðið er farið með sin tól og tæki, en mér er spurn er ekki hægt að koma þeirri frétt á framfæri á annan hátt en þennan?

Kannski er ég bara svona treg, að finnast þetta vera ábending fyrir glæpamennina en það eru örugglega fleiri sem hafa velt þessari frétt fyrir sér á sama hátt. Þetta er nefnilega ekki í fyrsta skipti sem manni finnst fréttir beinlínis upplýsandi fyrir glæpamennina.

Daglega fær maður fregnir, ýmist í fjölmiðlum eða frá manni til manns, af hörmungum þeirra sem ánetjast hafa eiturlyfjum svo blasir svona fyrirsögn við manni í Mogganum. Er nokkur furða að maður verði hugsi.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Einkennileg frétt.

  1. afi says:

    Undrun.
    Alveg sammála, afi hnaut einmitt um þetta líka. En kannski vissu skúrkarnir af þessu nú þegar.

Skildu eftir svar