Öfugsnúið.

Kannist þið við svona daga þegar allt virðist svo öfugsnúið.

Ég var auðvitað grútmygluð þegar ég vaknaði í morgun og get vitanlega kennt sjálfri mér um það því ég svaf illa í fyrrinótt og var svo að vaka frameftir í nótt að kjósa hann Magna svo hann gæti verið með á lokasprettinum í Supernova. Ég hresstist nú nokkuð eftir hádegið þegar ég var búin að fá mér sterkt og gott kaffi.

Mér fannst komið svo mikið af auka dóti á borðið í þvottahúsinu sem ég hef til að sníða á tuskurnar mínar í bútasauminn og ákvað að laga svolítið til þarna. Ég sá að það var svo til alveg autt borð í bílskúrnum og sá mér leik á borði að notfæra mér það og færa tuskukassana þangað yfir því það væri stutt að fara til að kippa þeim innfyrir þegar á þyrfti að halda.

Ég byrjaði á því að taka eina kassann sem var þarna á borðinu í skúrnum og færa hann upp í hillu. Ekki vildi þá betur til en svo að botninn opnaðist og innihaldið datt á gólfið. Ég var nú svo sem ekkert lengi að tína það upp en svo leiddi hvað af öðru. Á þvottahúsborðinu var há flaska sem er vafin með tágum og hún stóð ofan í lítilli tágakörfu sem hvorttveggja var úti í sumar en hafði verið tekið inn og sett á þetta blessaða borð þar sem allt sem er í bið er sett á. Einhvernveginn, sem ég ekki átta mig á þá hef ég rekið það sem ég var að færa til í þessa blessuðu flösku og hún hentist út á flísalagt gólfið og stúturinn brotnaði í þúsund mola inni í tágavafningnum og glerbrotin út um allt. Þetta var í sjálfu sér alveg nóg ef í leiðinni hefði ekki dottið lítil plastkarfa með haldi, sem ég hef títuprjónana mína í. Á gólfinu var sem sé allt í glerbrotum og títuprjónarnir innanum. Þetta var svona eins og einhver óhugnanleg sprengja hefði opnast þarna. Eftir nokkra leit fann ég gamla segulstálið sem ég á síðan ég var krakki og náði með því að hreinsa prjónana frá glerbrotunum svo ég gæti sópað þeim upp.

Ég er mikið að hugsa um að gera ekkert fleira í dag því ég veit ekki hvað gæti gerst. Ætli það væri ekki réttast að panta bara pízzu í kvöldmatinn, nokkuð sem ég geri ekki oftar á ári en ég get talið á fingrum annarrar handar og fá hana senda heim til að hreyfa ekki bílinn. – Svona til öryggis svo ég brenni mig ekki eða gleymi að slökkva á eldavélinni ef ég færi að elda mér mat.

Svo ætti ég kannski að hætta að leika táning sem horfir á rokk fram eftir nóttu og fara heldur að haga mér eins og sómakærri eldri dömu ber að gera og fara í rúmið á skikkanlegum tíma og vakna svo hress og kát og vera myndarleg til allra verka yfir daginn.

Ég kveð ykkur í bili langt frá því að vera myndarleg.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Öfugsnúið.

  1. Linda says:

    Sumir dagar
    Þetta er alveg mögnuð frásögn Ragna og getur maður vel sett sig í spor þín.. Suma daga á maður bara að liggja í rúminu og bíða eftir að hann líði..
    Það fæddist létt bros á munninn og gott ef ekki heyrðist smá hlátursstuna við lesninguna líka..
    Sorry, það er bara pínu fyndið að lesa um óheppni annarra en mína eigin..
    Thíhíhí..

  2. Sigurrós says:

    Þó það sé auðvitað greinilegt af frásögninni að þú þarft á þínum nætursvefni að halda – þá vona ég samt að þú hættir aldrei að haga þér eins og táningur! Það er miklu skemmtilegra heldur en að vera heldri dama 😉

  3. Svanfríður says:

    Elsku Ragna mín! Svona dagar mættu alveg missa sig en vonandi verður kvöldið þér gott og hver veit..vegna tímamismunar þá ertu kannski að gæða þér á góðri pizzu akkúrat núna.

Skildu eftir svar