Púkalegur dagur í gær.

Suma daga er maður bara í uppreisn við sjálfan sig. Þannig dagur var hjá mér í gær. Ekki veit ég hvort hægt er að kenna veðrinu um svona daga. Ég held ekki í þetta sinn því það var bara alveg ágætis veður en ég vaknaði bara svona byltingarkennd. Það byrjaði með því að ég varð öskufúl þegar fjárans klukkan hringdi og vakti mig þegar ég var nýsofnuð aftur eftir að vaka talsvert lengi. En auðvitað hefur það lítinn tilgang að skammast við þessar blessuðu vekjaraklukkur því þær eru jú bara að fylgja skipunum sem maður hefur gefið þeim á þeim tíma sem maður í góðri trú reiknar með að vakna hress og glaður og stökkva út úr rúminu og ég átti jú að fara og hitta sjúkraþjálfarann. Í gær vaknaði ég sem sé ekki hress og glöð og ég sló klukkuna út á gólf svo lokið á bakhliðinni hrökk af og batteríin hentust eitthvert undir rúm. Ég varð því að byrja á því að skríða á fjórum fótum undir rúmið mitt þangað til ég fann batteríin og kom þeim fyrir aftur og stillti klukkuna upp á nýtt. Ég mildaðist svo aðeins við sturtuna en ekki náði ég að skola leiðindapúkann af mér .

Ég var um helgina búin að gera krækiberjahlaup sem tókst svona líka vel svo átti ég eftir að gera hlaup úr berjasaft sem ég hafði pressað á mánudagskvöldið en náði ekki þá að klára að gera sjálft hlaupið svo ég geymdi bara saftina í ísskáp yfir nóttina. Í gær – ónotadaginn- ákvað ég svo að klára þetta hlaup svo ég gæti farið að þvo berjasletturnar úr eldhúsinu hjá mér og koma hlutunum í samt lag aftur. Ekki var nú þessi hlaupgerð til þess að bæta fyrir mér daginn því hluti af þessu varð bara lapþunnt sull þó að öllu væri eins staðið og í fyrra skiptið. Haukur getur vonandi notað þunna sullið út í ávaxtaskyrdrykkinn sinn sem hann útbýr á morgnanna. Ég tímdi allavega ekki að henda því.

Ekki var þetta nú til að bæta ástandið og ég var svo illa haldin af þessu að ég fór að spá í hvort ég ætti ekki bara að breyta til aftur og selja hérna í Sóltúninu og flytja í blokk í Reykjavík. Bara þetta sýnir nú hversu galin ég var. Haukur, sem er að vinna í bænum núna, hringdi í mesta sakleysi í þann mund sem mér datt þetta í hug og ég skellti hugmyndinni beint á hann. Hann setti bara hljóðan þegar ég sagði honum hvað mér hefði dottið í hug og hann spurði bara hvað hefði komið fyrir. Auðvitað hafði ekkert komið fyrir ég vaknaði bara illa og vantaði eitthvað róttækt til að hafa hugann við. Sjálfsagt hefur þessi leiðindapúki sem settist á öxlina á mér um leið og ég vaknaði notið þess að spila svona með mig og svo sannarlega tókst honum það vel fram eftir degi.

Það var svo ekki fyrr en í vatnsleikfiminni sem þessum leiðindapúka skolaði endanlega út í hafsauga og mér leið svo vel þegar ég kom heim í Sóltúnið aftur hrein á sál og líkama.

Í dag hefur enginn púki gert vart við sig og mér líður svona líka ljómandi vel, fór á bókasafnið áðan og náði mér í handavinnublöð og eina bók sem er komin undir koddan til að byrja að lesa í kvöld.

Ég er ekki vön að eiga svona púkalega daga og vonandi verða þeir ekki fleiri í bráð.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

9 Responses to Púkalegur dagur í gær.

  1. Þórunn says:

    Púkaleg
    Ég trúi því nú varla á þig Ragna mín að þú getir verið „púkaleg“. En þetta kemur fyrir á bestu bæjum, púkalegt á meðan á því stendur en svo ljómandi gott þegar púkinn hverfur á braut. Láttu þér líða vel.

  2. Linda says:

    Suma daga á maður bara að vera undir sæng og ekki stíga framúr..

    Ég vona að dagurinn í dag verði betri!!

    Bestu kveðjur

  3. Ragna says:

    Ekki spurning
    Það er sko ekki spurning að dagurinn í dag verður betri. Kannski fær maður bara svona einn stakan dag þegar maður er farinn að taka það sem sjálfsagðan hlut að allir dagar eigi að vera góðir. Það er svona hnippt í mann svo maður gleymi ekki að vera þakklátur fyrir allt þetta góða sem maður hefur.

  4. Hjónabandssæla
    Það geta víst allir átt svona daga, öðru hvoru, gott að þeir koma ekkert of oft 🙂 En við vorum að spá hvort við mættum fá lánaða hjónabandssælu uppskriftina þína á hamsturinn? Gaman að heyra og segja frá að hún sé upprunalega frá afa.

  5. afi says:

    Ansans árinn
    Þeir geta verið alveg hundleiðinlegir þessir leiðindapúkar, þegar sá gállinn er á þeim.

  6. Ragna says:

    Alveg sjálfsagt
    Simmi minn og Sigrún það er alveg sjálfsagt að Hamsturinn ykkar fái að hýsa hjónasæluna, þessa einu sönnu sem afi ykkar kom fyrst með í Tómstundaþættinum sínum en uppskriftina fann hann að mig minnir í gömlu dönsku blaði líklega um 1950.

  7. Svanfríður says:

    Allir eiga sína slæmu daga og því vona ég að þér líði betur af púkafjáranum núna:)

  8. Guðlaug Hesntnes says:

    úpps,
    Kemur stundum fyrir, og alltaf er jafn skemmtilegt að rifja svona daga upp. Maður getur orðið svooooo asnalegur stundum, held að vondar draumfarir valdi þessu þó svo maður muni þær aldrei. Gott að vera sátt í Sóltúninu, á vonandi eftir að kíkja þar við með dóttlu minni. Kveðja úr Hornafirði.

  9. Ragna says:

    Velkomnar
    Ég vona svo sannarlega að þú látir verða af því að koma með henni Svanfríði dóttur þinni í heimsókn Guðlaug. Ég verð sko á mínum stað hérna í Sóltúninu.

Skildu eftir svar