Mikið að gera síðustu daga.

Svo þið haldið ekki að leiðindapúkinn hafi haldið áfram að ásækja mig þá er ástæða þess að ég hef ekki párað neitt í dagbókina mína síðustu daga sú, að það hefur verið svo margt skemmtilegt að gerast að ég hef einfaldlega ekki mátt vera að því að setjast við skriftir.

Ég fór í borgina eftir hádegi á fimmtudaginn, ákvað að taka daginn snemma og síðan lá leiðin í í saumaklúbb um kvöldið.

Ég byrjaði á því að fara niður á Laugaveg því þangað átti ég erindi. Ekki veit ég hvað það er eiginlega langt síðan ég fór síðast niður Laugaveginn því mér fannst ég bara ekkert kannast við mig, komið fullt af háhýsum og nýjum búðum. Ég rambaði samt á búðina hjá Guðsteini og náði í buxur sem ég hafði lofað að sækja í styttingu. Svo var auðvitað tilvalið að kíkja til hennar vinkonu minnar í Tískuvali og sníkja mér kannski kaffisopa þar. Ekki bar það nú árangur því Ingunn var alls ekki í búðinni hún var nefnilega að syngja með óperukórnum í Rússlandi, hvorki meira né minna svo ég fór kaffilaus út aftur. Ekki vildi ég gefast upp við að fá mér kaffisopa og mundi eftir Lóuhreiðri þarna rétt fyrir ofan en þangað fórum við Haukur oft að fá okkur kaffisopa því þar var alltaf svo notalegt að koma.

Í Lóuhreiður fór ég og hlakkaði til að setjast með kaffibolla og kökusneið. Það brá hinsvegar svo við að það eru komnir nýir eigendur og öllu hefur verið gjörbreytt frá því Lóa var sjálf í hreiðrinu. Það má segja um þessar breytingar að þær virðast frekar hafa verið gerðar breytinganna vegna því ekki finnst mér staðurinn nærri því eins aðlaðandi og hann var áður og reykjastybban kom á móti mér um leið og ég kom þarna inn. Ég spurði hvort það væri reyklaust út við gluggann og þá sagði stúlkan mér að það ætti að vera það en stundum væri nú reykt þar líka. Ég gekk út að gluggasætunum og sama stybban var þar líka og tveir karlar spúðu þar eimyrjunni út úr sér í gríð og erg, annar með sígarettu og hinn með pípu. Ég fór auðvitað strax að hósta og sá að þarna gæti ég ekki verið. Ég fór þá yfir götuna og nokkru neðar við Laugaveginn fann ég Sandholts bakarí-konditorí þar fékk ég rosalega gott kaffi og ekki skammaði hún uppá eplakakan sem ég fékk með og þarna gat ég andað að mér hreinu lofti ásamt kaffiilmi og ilmi af nýbökuðum kökum. Þó ég sæti þarna ein þá lá við að ég tímdi ekki að fara út aftur.

Nú átti ég bara eftir að kaupa afmælisgjöf handa lítilli frænku minni og hélt að ég yrði að fara inn í Kringlu til þess, en mundi þá eftir Glæsibæ og mikið var ég fegin að geta sleppt Kringlunni og inn í Glæsibæ fór ég.

Svo lá leiðin á Austurbrúnina með viðkomu á Hrafnistu þar sem ég heimsótti hana Tótu mína, sem aldrei kvartar yfir neinu en dásamar mikið hvað allir séu nú góðir við sig og vilji allt fyrir sig gera. Ég sat hjá henni góða stund og við rifjuðum enn og aftur upp gamla tímann þegar ég og krakkarnir hennar vorum lítil. Þegar ég bjó mig til að fara þá vildi hún endilega fylgja mér til dyra og tók svo göngugrindina sem var fyrir utan dyrnar á litla risherberginu (en það er svo lítið að göngugrindin kæmist ekki þar inn), og svo fylgdi hún mér alla leið út á tröppur og benti mér á bekki þar og sagði að það væri svo notalegt að geta setið þar úti þegar gott væri veður.
Mikið er nú gott þegar gamla fólkið er svona jákvætt og ánægt þegar það er komið á elliheimili.

Þegar Haukur kom úr vinnunni þá skruppum við og fengum okkur að borða niðri í Ikea, sænskar kjötbollur skyldu það vera í þetta skiptið. Haukur ætlaði að bjóða mér á Laugaás en ég tók það ekki í mál núna þegar saumaklúbbur var framundan.

Svona var útsýnið af elleftu hæðinni á Austurbrúninni.

austurbr.1.jpg

Svo kom að aðal erindinu að fara og hitta stelpurnar í saumó en við höfum ekki hittst síðan í sumarbústaðnum hjá Ástu í sumar. Það er alltaf jafn gaman í saumó og ekki sviku góðgerðirnar hjá henni Eddu minni Garðars.

Ég ákvað svo að gista á Austurbrúninni til að þurfa ekki að keyra svona seint austur og fór svo heim aftur um hádegi daginn eftir. Um kvöldið kom svo Haukur heim í fimm daga frí.

Í dag fórum við svo í afmælisveislu hjá henni Sólrúnu Maríu frænku minni sem varð þriggja ára í dag en hér er hún með Selmu mömmu sinni og Eddu Karen frænku sinni tilbúin að fá sér af afmælistertunni.

solrun1jpg.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Mikið að gera síðustu daga.

  1. afi says:

    mikið fjör.
    Þú hefur greinilega haft í mörgu að snúast. Gott að þú skulir hafa fundið annan stað til að fá kaffisopann í borginni. Óþolandi að drekka kaffið í reykjarstybbu.

  2. Ragna says:

    Já ég get ekki verið í reykjasvælu enda segir þá astminn straxx til sín. Ég lét stúlkuna kurteislega vita að vegna reykjastybbunnar ætlaði ég að leita að öðrum stað, fannst allt í lagi að hún vissi að hún missti kúnna út á stybbuna.

  3. afi says:

    Engin stybba takk.
    Gott mál hjá þér, ekki spurning.

  4. Svanfríður says:

    Aldrei er lognmollan í kringum þíg, alltaf nóg að gera og þessi dagur virðist hafa verið góður. Þú mannst að þú ert alltaf velkomin hingað í kaffi..það er ekkert svo langt. BAra að keyra til Keflavíkur, fljúga svo „smá“, millilenda,fljúga aðeins meira, keyra smá og þá ertu komin:)

  5. Ragna says:

    Spurning hversu galin…
    Þakka þér fyrir Svanfríður mín, það er ekki að spyrja að gestrisninni hjá þér. Það er aldrei að vita hversu galin ég á eftir að verða og þá er aldrei að vita hvað manni dettur í hug 🙂

  6. Eva says:

    Greinilega nóg að gera hjá þér. Ég verð að taka undir þetta með reykingar á kaffihúsum. Skil ekkert í því að þessi ósiður skuli ennþá viðgangast.

Skildu eftir svar