Vangaveltur um heilbrigðiskerfið.

Ég fór í bæinn á fimmtudaginn því fyrir lá að fara til Sonju í saumaklúbb um kvöldið en hún hafði boðið í mat. Ég fór snemma því ég ætlaði að heimsækja hana tengdamömmu og Ingabjörn. Ég ætlaði líka að líta inn hjá honum Einari mági mínum og Ingu en þar var enginn heima.

Tengdamamma er nýkomin úr mjaðmaaðgerð þar sem hún fékk nýjan mjaðmalið, en í fyrra fékk hún nýjan lið í hina mjöðmina. Það er nú mikil blessun að tæknin skuli vera orðin þannig að hægt sé að skipta út ónýtum liðum en mikið er maður samt ósáttur við það hvernig þetta blessaða heilbrigðiskerfi okkar er orðið að öðru leyti. Fólki er hent allt of fljótt út af spítölunum eftir aðgerðir, hvernig svo sem ástand þess er. Áður fyrr var hver og einn sjúklingur meðhöndlaður eftir því hvers hann persónulega þurfti með og fólk var ekki sent heim fyrr en það var orðið sæmilega sjálfbjarga. Núna hefur verið tekin upp færibandameðferð.

Sjúklingur sem kemur núna inn á spítala til að fara í aðgerð er bara ákveðið númer sem sett er beint á færibandið. Það skiptir engu máli í hvaða ástandi eða á hvaða aldri hann er, eftir færibandinu skal hann fara.
Fyrsta stoppið á færibandinu er strax eftir innritun, en þá fer sjúklingurinn í fyrirfram ákveðna aðgerð. (Það tíðkast sko ekki lengur að fá að koma inn kvöldið áður. Nei nú á bara að mæta snemma morguns beint í aðgerðina).
Næsta stopp á færibandinu er svo að fá að leggjast í sjúkrarúm til að vakna þar almennilega eftir aðgerðina og fá svona aðeins að ná áttum.
Síðan er fyrir hverja aðgerð ákveðinn kvóti, en hann segir til um hversu marga daga megi vera á spítalanum. Eftir þá daga, þ.e. ef sjúklingurinn er ekki bara sendur heim samdægurs, þá fer færibandið aftur í gang og sjúklingurinn er útskrifaður. Þá skiptir engu máli í hvaða ástandi hann er, heim skal hann því kvótinn er búinn og það þarf að setja nýja sjúklinga á færibandið.

Ég fór að hugsa um þetta þegar ég kom frá því að heimsækja hana tengdamömmu mína sem var búin að vera heima í viku eftir spítalaferðina. Hún er á níræðisaldri og það var fyrst fyrir örfáum árum sem hún hefur þurft að leggjast inn á sjúkrahús, ef hægt er að tala um að leggjast inn því eftir aðgerð er hent beint út aftur. Hún hefur því ekki verið þungur baggi á heilbrigðiskerfinu um sína daga en nú er hún líka mikið veik, bæði með Parkinsonssjúkdóm og krabbamein í blöðru fyrir utan þessar liðskiptaaðgerðir. Mér finnst að hún eigi inni að fá að njóta þess öryggis sem sjúkrahúsið veitir (ætti allavega að veita) á meðan hún er engan veginn búin að ná sér og óörugg með heilsuna.

Ég hef sjálf nokkrum sinnum notið spítalakerfisins eins og það var. Ég nota orðið að njóta því ég var oftar en einu sinni í margar vikur á spítala eftir aðgerðir og var ekki send heim fyrr en ég hafði heilsu til. í dag skiptir ekki máli hvernig sjúklingnum líður, þegar kvótinn er búinn skal hann sendur heim hverjar sem aðstæður eru. Það er þetta sem ég er svo óhress með.

Ég veit að heilbrigðiskerfið er dýrt en þarf það ekki samt að vera sæmilega manneskjulegt.

Er ég ósanngjörn eða eru fleiri þeirrar skoðunar, að meðhöndla eigi sjúklinga eftir persónulegum þörfum hvers og eins, en ekki eftir fyrirfram ákveðnum aðgerðarlista (kvóta)?

Váá, ég sé að klukkan er að verða tvö – um nótt. Ég segi því GÓÐA NÓTT og vonandi verður ekki allt fokið út í buskann í fyrramálið.

P.S. Eins og oftar er eins og stjórnin sé tekin af manni í pistlaskrifunum og efnið verður allt annað og ekki nálægt því sem sest var niður til að skrifa um. Nú hef ég komið þessum vangaveltum frá mér og læt þær standa – hitt var hvort sem er ekki merkilegt.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Vangaveltur um heilbrigðiskerfið.

  1. Eva says:

    Eins og talað út úr mínu hjarta. Heilbrigðiskerfið er dýrt en það á líka að vera það. Það ætti að vera hægt að spara á einhverjum öðrum sviðum en í heilbrigðis- mennta- og félagsmálum.

  2. Þórunn says:

    Heilbrigðiskerfið
    Ja nú er ég hissa, hef ekki heyrt af þessari færibandameðferð áður og þó bara búin að vera sex ár í burtu. Þetta hljómar ekki vel og virkar mjög ómannúðlegt. Einhvertíma var það svo að allt átti að vera best á Íslandi, þetta er greinilega ekki í gildi lengur.
    Menn eru sannarlega komnir út á hálan ís þarna.

  3. Jólanta says:

    Sammála
    Ég er alveg sammál þér Ragna! Ég hef líka velt þessu fyrir mér og í febrúar fór ég í aðgerð á fimmtudegi og send heim daginn eftir án þess að hitta lækni áður, þeir hafa ekki einu sinni tíma til að kíkja á mann áður en maður er látinn fara. Jæja en mér fannst ömurlegt að vera send heim á föstudegi til 3 barna sem voru að fara í helgarfrí. Ég er heppin að eiga góða að og frábæran mann sem sá um allt. En það búa ekki allir við svoleiðis aðstöðu og það var ekkert athugað! Ég meina ég var send heim, gat varla gengið út í bíl og komst ekki hjálparlaust á klósettið…út í hött!

    Það er orðið svo lítið um að það sé eitthvað manneskju legt við kerfi í heilbrigðisgeiranum. Þetta er ekki allt í lagi, þetta þarf að laga.

  4. Linda says:

    Ég gæti ekki verið meira sammála ykkur öllum.. Þetta er sorgleg þróun sem á þarf að taka..
    Fólk komið á háan aldur á ekki að vera sent heim svo snemma eftir svona stórar aðgerðir.. eru þau ekki líka búin að greiða allt sitt líf í tryggingar – einmitt ef að veikindi koma upp seinna meir – til að fá þá þjónustu sem á þarf að halda??

    Mér verður hálf illt við að heyra svona sögur..

  5. af says:

    Sorglegt
    Þetta er sorglegra en tárum taki. En svona er þetta nú samt. Það þekkir afi af eigin raun. Því er nú verrr og miður. Gleðileg undanteknin er þó til. Ef ráðherrar leggjast inn, er þessu á annan veg farið. Enda eru þeir hæst ánægðir með ástandið eins og það er.

Skildu eftir svar