Að verða ástfangin af – jólasveini og það í byrjun nóvember.

Ég byrjaði nú að segja frá saumaklúbbsferðinnii minni þegar ég fór að tala um heilbrigðiskerfið svo bæjarferðin datt bara uppfyrir svo og annað þá helgi.

Það var auðvitað mikið fjör í saumaklúbbnum eins og alltaf. Ekki leist mér nógu vel á að keyra aftur austur um miðnættið í leiðindaveðrinu sem þá var, svo ég skellti mér á Austurbrúnina og gisti þar.

Daginn eftir töluðum við okkur svo saman við Sigurrós, sem þá var í vetrarfríi, og við ákváðum að eyða deginum saman. Fyrir utan nokkra smásnúninga sem þurfti að útrétta þá lölluðum við okkur í gegnum Kringluna, en það tók nú ekki langan tíma því við fórum bara aðeins í Hagkaup eftir að hafa fengið okkur smásnarl á kaffihúsi í hinum endanum. En þegar ég skilaði Sigurrós aftur í Kópavoginn þá litum við inn í Rúmfatalagerinn, sem var alveg í leiðinni. Hefði hann ekki verið í leiðinni þá hefði ég látið hann vera það þó ég hefði þurft að taka stóran hring. Mér finnst nefnilega svo rosalega gaman að koma í stóru RL búðina í Smáranum.

Ég féll fyrst fyrir geymslukössum úr plasti og keypti nokkra slíka um leið og ég gaf sjálfri mér það loforð að koma nú skikki á ákveðna smáhluti sem alltaf eru að þvælast fyrir mér en eru einhvern veginn ekki þannig að hægt sé að henda þeim. (Það tilkynnist, að ég er þegar þetta er ritað nú þegar búin að setja í nokkra kassa)

En ég keypti nú ekki það sem ég gjörsamlega kolféll fyrir þarna í RL – nefnilega stóran jólasvein. Þeir stóðu þarna í röðum bræðurnir og bókstaflega báðu mann að taka sig með heim. Ég var svona á stiginu – á ég, á ég ekki? Svo taldi ég sjálfri mér trú um að þetta væri allt of snemmt, ég ætti ekki að láta plata mig til að fara að kaupa jólasvein í byrjun nóvember svo ég fór jólasveinalaus heim. Síðan hef ég látlaust hugsað um þennan föngulega jólasvein sem stóð þarna svo keikur – ábyggilega a.m.k. 60 cm hár og svona líka myndarlegur. En er ekki sagt að góðir hlutir gerist hægt og ekki síst í ástarmálunum. Ef ég verð ennþá svona ástfangin næst þegar ég á leið í bæinn þá læt ég Rúmfatalagerinn verða í leiðinni, fer og býð honum sveinka að koma með mér heim. Svo skal ég mynda hann og leyfa ykkur að sjá.

Annars má maður svei mér passa sig þegar allt fyllist í búðunum af þessu frábæra jóladóti. Ég er nefnilega svo mikil jólastelpa að mig langar í allt sem ég sé til jólanna. Reyndin er hinsvegar sú að mikið á maður til eftir áratuga búskap og viturlegra er, að skoða vel hvað til er áður en bætt er við því allt þarf sitt pláss

– Já svona eru rökin sem ég reyni að beita sjálfa mig fyrir hver jól. Stundum tekst mér að telja mér hughvarf og stundum ekki. Spurning hvað gerist núna.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Að verða ástfangin af – jólasveini og það í byrjun nóvember.

  1. Jólanta says:

    Yndislegt! Ástfangin af Jólasveini, hljómar vel og er ákaflega jólalegt. Já þú býður honum nú kannski með þér heim ef þú sérð hann aftur – og gaman væri að sjá mynd af kallinum..

    Kær kveðja Jólanta

  2. Linda says:

    ég get sko vel sett mig í þín spor varðandi kaup á jólaskrauti..
    Hér er í Ameríku er allt orðið vaðandi í jólaskrauti í búðunum og ljómar andlit mitt eins og á lítilli stelpu þegar ég sé allt fallega skrautið..
    Mig langar í allt og allt er svo ódýrt..
    Ég er nú búin að kaupa mér eitt jólaskraut í ár svo ég verð að sjá hvort eitthvað meir verði bruðlað í svoleiðis þetta árið..

    Gaman væri að sjá mynd af jólasveininum stóra.. ég á nefnilega einn stóran og myndarlegan jólasvein..

    Bestu kveðjur frá Groton..

  3. afi says:

    Bráðlæti
    afa þykir sveinarnir nokkuð bráðlátir. Enn eru nokkrir dagar til jólamánaðarins. En þeir vita sem er að sumstaðar finnast bráðlátar heldri frúr. Því þá ekki að skunda af fjöllum meðan færðin er góð. Og ekki væri verra að hitta eina þeirra í von um að fá að fljóta með. En vita máttu að þú verður að hafa hraðann á ef fleyri frúr séu í sömu hugleiðingum.

  4. Ragna says:

    Það er nú það, afi góður. Ég er dauðhrædd um að hinar frúrnar hafi kannski mætt líka og heillað draumasveininn meira og hann farið heim með þeim. Þetta kemur í ljós næst þegar Selfossfrúin fer í borgina.

  5. Svanfríður says:

    Ég væri sko alveg til í að eiga svona jólasvein og setja hann út (eru þetta úti sveinkar?) í garð hjá mér hérna.Eru þetta annars ekki íslensku sveinarnir?

  6. Ragna says:

    Nei Svanfríður mín ekki er hann nú íslensku.r Svo eru þetta held ég ekki útisveinar en það er yfirbyggt hjá mér fyrir framan útidyrnar og ég var að gæla við að hafa hann þar. Ég veit bara ekki hvenær ég kemst næst í bæinn til að athuga hvort þeir eru enná til.

Skildu eftir svar