Gaman í ömmubæ í dag en beðið eftir óveðri í nótt.

Í dag þurfti Guðbjörg að mæta í Kennaraháskólann út af framhaldsnáminu svo amma átti von á  smáfólki ýmist til lengi eða skemmri dvalar. Rétt fyrir klukkan átta í morgun hringdi dyrabjallan hjá ömmu og Guðbjörg stóð fyrir utan dyrnar með lítinn dúðaðan böggul sem brosandi andlit gægðist út úr. Amma var nú ekki sein á sér að grípa böggulinn og segja bless við mömmuna því nú átti nefnilega að vera ömmudagur hjá nafna mínum. Í gærkvöldi var búið að koma með göngugrindina hans og fleira smálegt sem gæti reynst gagnlegt að hafa.

Þar sem minnstistubbur er nú farinn að drekka sína stoðmjólk úr bolla með stút þá voru engin vandræði núna eins og síðast þegar mamma fór í skólann og allt var í pati út af drykkjarmálunum, nú gekk allt eins og í sögu. Svo er maður orðinn svo mannalegur, borðar bara brauð með kæfu og fleira eins og venjulegt fólk.

En eitt vefst þó fyrir stubbnum, það er þegar hann er kominn í göngugrindina sína en þá heldur hann að hann sé kengúra og hoppar áfram um alla stofuna í stað þess að færa annan fótinn fram fyrir hinn og ganga í rólegheitum áfram. Þetta finnst honum mjög gaman.

Svo ljómaði hann um hádegið þegar stóru krakkarnir komu úr skólanum.  Karlotta mín stoppaði nú ekki lengi því hún var að fara í fiðlutíma og síðan á kóræfingu.  Magnús Már kom svo um fjögurleytið og um það leyti var Haukur að leggja af stað í bæinn en hann á að byrja að vinna aðra nótt og vildi ekki bíða eftir óveðrinu á morgun til að keyra á milli. Oddur fór svo á Júdóæfingu og áður en varði var amma orðin ein í bænum sínum

Á morgun átti svo að vera annar ömmudagur en ekki líst mér á að úr því verði því það hefur verið spáð óveðri miklu í nótt og á morgun og fólki ráðlagt að vera heima og láta börn ekki í skóla.  

Það er sem betur fer allt rígbundið fast hérna á pallinum síðan í óveðrinu um síðustu helgi svo ég vona að ekkert fari af stað, annars er sagt að þetta verði jafnvel verra en þá. Klukkan er að verða eitt eftir miðnætti núna (ég svaf nefnilega yfir sjónvarpinu í kvöld og er bara ekkert orðin syfjuð aftur)   Ég heyri að það er farið að hvessa talsvert. Mér finnst alltaf verra þegar ég er ein heima þegar óveður geysar en lítið við því að gera annað en vona að allt verði í lagi.

Ætli ég fari nú ekki að koma mér í rúmið – ætti kannski að nota eyrnatappa til að heyra ekki í veðrinu.  Nei, þá heyri ég ekki ef eitthvað gerist. Þetta er nú meiri taugaveiklunin. Best að fara bara að lesa.

Ég býð ykkur góða nótt og vona að enginn skaðist í þessu óveðri. 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Gaman í ömmubæ í dag en beðið eftir óveðri í nótt.

  1. Svanfríður says:

    Ég vona að ekki fari illa og veðrið hagi sér. Ég opna mbl.is á morgun og sé hvernig fór. Góða nótt gæskan.

  2. Ragna says:

    Úlfur, úlfur
    Hér á Selfossi var nú veðurviðvörunin hálfgert „úlfur, úlfur“. það var reyndar mjög hvasst í nótt en í morgun er bara svona venjulegur íslenskur haustvindur og allt með kyrrum kjörum. Annars lendum við hérna á Selfossi oft einhvern veginn á milli veðra.

Skildu eftir svar