Svefn og kleinur.

Ekki hélt veðrið fyrir mér vöku í nótt eins og ég hafði allt eins búist við og þegar ég vaknaði í morgun var allt með kyrrum kjörum hér. En þar sem ég var einu sinni skáti þá er maður auðvitað alltaf skáti og alltaf viðbúinn. Á náttborðinu hjá mér var ég því með vasaljós ef rafmagnið skyldi nú fara af í óveðrinu, heimilissímann og til vara Gemsann ef eitthvað kæmi fyrir aðalsímalínuna.
Þegar ég var búin að koma þessu öllu fyrir á náttborðinu mínu þá var ég svo örugg með mig, þrátt fyrir óveðursviðvörunina sem búið var að gefa út, að ég lagðist á koddann og sofnaði ótrúlega fljótt og svaf vært í alla nótt. Svo fast svaf ég að ég vissi hvorki í þennan heim né annan þegar ég vaknaði við eitthvert undarlegt píp. Pípið passaði reyndar svo vel inn í það sem mig var að dreyma að í draumalandinu leitaði ég sem óð væri að því hvaðan það kæmi. Það reyndist hinsvegar vera frá SMS skilaboðum sem ég var að fá í gemsann á náttborðinu. Það tók mig nokkurn tíma að átta mig á hlutunum. En, klukkan var sem sé orðin 9 og ég var því búin að sofa í nærri 8 tíma án þess að vakna neitt – sem sé algjört kraftaverk.

Ég var bara með eitt á dagskránni í dag ef ég þyrfti ekki að passa hann nafna minn, nefnilega að baka kleinur. Það hefur tekið mig eitthvað svo ótrúlega langan tíma núna að koma mér í rétta gírinn til þess að gera kleinur. Sigurrós mín hefur spurt mig varfærnislega síðustu skiptin sem hún hefur komið austur, hvort ég sé nokkuð búin að baka kleinurnar og mamma hefur orðið að svara neitandi. Þær sem hýsa bumbubúa fá oft löngun í eitthvað sérstakt til að borða og það er ekki verra en hvað annað að langa í kleinur.

Nú get ég sem sé tilkynnt Sigurrós og sannað með þessari mynd að það vantar ekki lengur kleinur hjá mömmu í Sóltúninu svo nú er bara að drífa sig austur og smakka. Auðvitað er svo nóg til handa öllum sem langar í kleinu.

kleinur1.jpg

Ég óska öllum góðrar helgar! 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Svefn og kleinur.

  1. Sigurrós says:

    Mmmmm, rosalega eru þær girnilegar! Nú held ég að stormviðvaranir muni ekki halda aftur af mér, ég verð að komast austur og fá kleinur! 🙂 Ég held líka að ég ætti einhvern tímann að prófa að baka kleinur sjálf, maður verður nú að kunna að baka þessar gersemar. Amma á Kambsveginum kallaði mig einmitt alltaf kleinufíkilinn sinn 🙂

  2. Guðlaug Hestnes says:

    vá…
    Nammi namm. Elska kleinur en er verulegur klaufi að steikja þær. Betri í að snúa!. Skal þó sagt hér að allar smákökur n.k. jóla eru tilbúnar í lokuðum döllum í kaldri geymslu. Bíða Ameríkufara til áts!!! Kveðja úr hornfirskri nepju.

  3. Ragna says:

    Tilhlökkun
    Þú ert aldeilis myndarleg Guðlaug, að vera búin að baka til jólanna. Ekki efa ég að tilhlökkunin vestan hafs er orðin mikil að koma og smakka jólabaksturinn í firðinum fagra.
    Þakka þér fyrir að kíkja í heimsókn á síðuna hjá mér.

  4. Þórunn says:

    Óveður og kleinur
    Mikið var það gott að þú gast sofið af þér óveðrið, mér er meinilla við svona rok. Ekki er ég hissa þó Sigurrós láti veðrið ekki aftra sér frá að komast í þessar girnilegu kleinur. Það er ekki að spyrja að ykkur húsmæðrum á Íslandi, þú með kleinurnar og Guðlaug búin að baka smákökur. Húrra fyrir ykkur.

Skildu eftir svar