Mýrin.

Við Haukur sáum Mýrina um daginn. Það var gaman eftir lestur bókarinnar að fá síðan að sjá persónurnar á hvíta tjaldinu. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja um myndina því það hæla henni allir í hástert og finna ekkert að henni. Ég er auðvitað bara gömul nöldurkerling sem ætla að láta það flakka hvað mér fannst.

Myndin sjálf er að mínu mati efnislega mjög góð og vel leikin og ekki spurning að sjá hana. Ingvar Sigurðsson á auðvitað stórgóðan leik að vanda og sama er að segja um aðra leikendur og Ágústa Eva er mjög sannfærandi í hlutverki dóttur Erlendar.

En þá kemur nöldrið mitt yfir því sem fór svolítið (talsvert mikið) í taugarnar á mér við áhorf myndarinnar. Nefnilega hvað það þurfti að gera allt ljótt. Þó það sé verið sé að rannsaka morð, þá finnst mér ekki þurfa að líta út fyrir að það sé ekki rafmagn á Íslandi eða að það þurfi að spara það svo mikið að fólk þurfi nærri því að þreifa sig áfram í hálfrökkri hvort sem er úti eða inni. Mér finnst of mikið gert úr ömurleika umhverfisins. eins og t.d. hvað varðar útlitið á flestum þeim húsum sem koma við sögu t.d. á Suðurnesjunum. Þetta voru hús með flagnaðri málningu og illa hirt. Myndin gerist jú í upplýstum nútímanum og við lestur sögunnar upplifði ég ekki svona drungalegt og ljótt umhverfi þó sagan væri vissulega átkanleg. En hver dæmir auðvitað fyrir sig.

Þetta er örugglega eitthvað sem ég er ein um að nöldra yfir því allir hinir eru hæstánægðir – eða hvað?

Jæja, þá er ég búin að fá útrás fyrir nöldur dagsins – rosalega líður mér nú vel að vera búin að koma þessu frá mér. Nú er best að opna nýja síðu og byrja á því að setja á hana broskall 🙂

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Mýrin.

  1. afi says:

    Er ljótleikinn kannski svona myndrænn? Eða leggur hann meiri áherslu á efni myndarinnar? Spyr afi sem ekki hefur séð Mýrina.

  2. Svanfríður says:

    Nú get ég ekki skrifað um myndina því hana hef ég, því miður ekki séð en bókina las ég og fannst hún mjög góð. Ég er að vonast til að geta séð myndina þegar ég kem heim um jólin.
    En Ragna-þú ert enginn nöldurseggur:) Þetta er þitt blogg og þú mátt segja það sem þú vilt! Og það er alltaf jafn gaman að lesa skrifin þín.

  3. Linda says:

    Ég segi sama og þau að ofan, því ég hef ekki séð myndina sjálf, en þó heyrt aðra tala um hana..
    Mér skilst að stór partur af myndinni sé tekinn upp á Stafnesi og húsunum þar í kring.. þau eru vel flest eldgömul og ekki mikið fyrir augað fyrir þá sem ekki hafa áður séð þau, en fyrir mig sem hef haft þessi hús nánast í bakgarðinum hjá mér, þykir mér óendanlega vænt um þau, sama hversu ljót þau eru..
    En myndina langar mig að sjá og einmitt út af því að hún er tekinn upp í Sandgerði, mínum heimabæ, og nágrenni..

  4. Guðlaug Hestnes says:

    hef..
    lesið allar bækur Arnaldar, en hef ekki ennþá séð Mýrina, en ætla svo sannarlega að sjá myndina. Eitt fór þó fyrir brjóstið á mér. Erlendur syngur í karlakór! Kommon, Erlendur í bókinni hefði ALDREI sungið í kór, svo mikið er víst. Kannski er ég líka nöldurskjóða án þess þó að hafa séð myndina. Gaman að þessu!

  5. Ragna says:

    Kannski á maður ekki að vera að pæla í svona hlutum en það væri gaman að heyra hvað þér finnst Guðlaug, þegar þú hefur séð myndina. Ég er forvitin að vita hvort ég er sú eina sem upplifði myndina svona.

Skildu eftir svar