Við höfum það misgott.

Haukur er búinn að vera í svo miklu skreppstuði í þessu fríi og í gær ákvað hann að við færum aftur í óvissuferð. Við ókum í svona hálftíma og vorum þá komin í Þorlákshöfn. Einhverra hluta vegna virðist alltaf vera jafn dapurlegt umhverfið í Þorlákshöfn. Það er reyndar búið að færa veginn svo nú er aðkoman ekki beint inn í iðnaðarhverfi, en svo er spurning um það hvað sé skemmtilegt á þessum stað. Það virðist ekki vera neinn miðbæjarkjarni og í þau skipti sem við höfum komið þarna sjáum við ekkert lífsmark. Ég skrökva því, því við sáum tvo krumma sitja í keleríi á einhverju gömlu tæki við höfnina, en þeir urðu svo móðgaðir þegar ég mundaði myndavélina að þeir flugu í hvarf.

Ekki vildi ég alveg gefast upp við að leita að myndefni
og fann Þetta listaverk við kirkjugarðinn.

torlaksh1.jpg

Þetta, sem við fundum við höfnina fannst mér líka nokkuð athyglisvert og er líklega þeirra Stonehenge. Nei, Þetta eru reyndar gríðarlega stórir steindrangar sem eru síðan kræktir saman og festir utaná varnargarðinn til að styrkja hann.

thorlaksh2.jpg

Ekki fundum við neinn stað til þess að fá okkur kaffisopa á þarna svo við ókum Ölfusið í átt að Hveragerði og fórum í Konditoríið í Hverabakaríi og þar er enginn svikinn sem fær sér kaffi og með því. Við vorum svo komin aftur hérna heim um fjögurleytið. Ég átti reyndar að vera komin í vatnsleikfimi þá en ákvað að fara ekki fyrr en eftir að ég hitti lækninn á fimmtudag því ég fékk einhverja fjárans bólgu á hálsinn og finn svo til við vissar hreyfingar. Þessi b….. gigt getur verið svo hundleiðinleg og leikur sér að því að finna sér bara nýjan og nýjan stað til þess að stríða bæði mér og sjúkraþjálfaranum með.
Annars á ég nú ekki að vera að kvarta undan slæmu heilsufari því Sigurrós er búin að vera með einhverja kvefpest og Guðbjörg mín er með bullandi flensu með háum hita og í dag var Ragnar litli líka kominn með yfir 39°hita. Það er eins gott að Magnús Már smitist ekki líka. Ég er að vonast til að sleppa því ég fór í bólusetningu en maður er svo sem aldrei öruggur.
Ég hef nú verið að halda mér fjarri Grundartjörninni en finnst það samt svo ömurlegt að fara ekki og hjálpa til. Vonandi verður morgundagurinn betri hjá þeim.

Best að koma sér í rúmið núna. Haukur ætlar að vaka eitthvað fram á nóttina til þess að geta sofið lengur á morgun því aðra nótt byrjar hann næstu vaktasyrpu.

Svona er nú lífið á Selfossi þessa dagana.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Við höfum það misgott.

  1. afi says:

    Árans
    Æ þær eru hvimleiðar þessar árans pestir. Einkum þegar þær sækja litlu krílin heim.

Skildu eftir svar