Lítið að gerast.

Mikið var fínt að komast aftur í sundleikfimina. Það er alveg svakalegt að missa heila þrjá tíma úr. Nú bara passa ég mig að vera ekki með neina súperkonustæla sem gera mig handlama.


það er svo sem lítið fréttnæmt fyrir þig kæra dagbók, bara svona venjulegir dagar. Ég sótti Karlottu á skóladagheimilið í gær og kom henni í afmæli. Það er alltaf nóg að gera hjá henni að fara í afmælisveislur. Mér finnst alveg stórkostlegt eins og ég hef sagt áður að geta verið svona amma sem hefur tíma og möguleika til að hlaupa í skarðið og taka að mér svona smáreddingar fyrir börnin.  


Ég dreif mig í það í gær að setja mold í nokkuð stórt tréker og raða í það slatta af túlipanalaukum. Ekki veit ég nú hvort ég gerði þetta rétt. Allavega sneri ég þeim eins og hún sagði svo skemmtilega frá í Blómavali að ætti að gera:  „Það er svo gott að muna að tippið á að snúa upp“ Já, ég held ég gleymi því ekki héðan í frá hvernig þetta á að snúa. það þarf stundum að orða hlutina á vissan hátt til að þeir gleymist ekki (ekki misskilja mig það þarf ekki að vera dónalegt til að ég muni það). Hvort þetta kemur svo upp í vor verður bara að koma í ljós. En ef það kemur upp þá verður þetta ferlega flott hérna fyrir framan húsið.


Þá er nú Bráðavaktin komin aftur á dagskrá hjá RÚV og fer á áhorfslistan hjá mér ásamt The Practice, Bachelor, Survivor og Innlit útlit, sem allir eru reyndar á Skjár 1. Ég nenni orðið ekki að sitja allt kvöldið að horfa á sjónvarpið. Fínt að pikka út nokkra þætti og sjá svo til með restina eftir því í hvaða stuði maður er. Svo eru auðvitað fastir liðir að horfa á Spaugstofuna og Gísla Martein hjá RÚV.  Það er samt ótrúlegt að maður skuli eyða tíma í að horfa á þætti eins og Bachelor. Málið er bara það að ef maður slysast til að horfa á fyrsta þáttinn þá verður maður strax spenntur að sjá hvernig gengur. Annars sé ég mikið eftir því að missa CSI yfir á Skjár 2. Það eru virkilega vandaðir þættir.  Nóg um það.


Aftur að garðmálunum sem hafa verið mér ofarlega í huga frá því að ég kom í Sóltúnið. Ég hef ekkert heyrt frá bílstjóranum sem ætlaði að sækja merkta grjótið fyrir mig upp í Ingólfsfjall. Sjálfsagt hefur nú blessað málningarlímbandið verið farið út í veður og vind. Ég hef bara ekki nennt upp í fjall að athuga það. Ég bíð bara róleg.


Ætli ég láti þetta ekki bara duga í dag.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Lítið að gerast.

  1. Sigurrós says:

    Imbaglápið
    Já, ég er sammála þér hvað varðar imbaglápið. Ég er með ákveðna þætti sem ég horfi á en þess á milli kveiki ég bara ekki á sjónvarpinu.
    Nú ætla ég einmitt að fara að horfa á Bráðavaktina á videospólunni frá Sigrúnu, mikið var ég heppin að hún tók þetta upp!!!

Skildu eftir svar