Laugardagur til lukku.

Ég ætlaði að vera svo rosalega dugleg í dag, því á meðan ég var lasin gerði ég bókstaflega ekki neitt.  En maður á aldrei að ákveða fyrirfram að ætla að vera svaka duglegur þegar maður vaknar því þá er vísast að maður nenni engu þegar til kemur og það sannaðist á mig í dag.  Ég vaknaði nú um hálf níu svo ég var ekkert að eyða tímanum í að kúra of lengi.  Hinsvegar vill svo til að það er laugardagur.  Laugardagur er nefnilega sá dagur vikunnar sem skemmtilegast er að sækja blöðin í forstofuna, nánar tiltekið Lesbók Moggans því þar bíður mín  krossgátan.  Ég átti því afskaplega notalegan morgun og naut þess að lesa blöðin og ráða krossgátuna.

Um klukkan hálf tíu hringdi gemsinn minn og ég sá á hringingunni að þetta væri Guðbjörg en þau Magnús eru ásamt Ragnari Fannberg í Sælukoti þar sem Guðbjörg er að flísaleggja í eldhúsinu.  Mér fannst hinsvegar skrítið að hún sagði ekkert þegar ég svaraði í símann, sama hvað ég hrópaði halló, halló. Ég rauf því sambandið og hringdi sjálf aftur eftir nokkra stund. Þá kom í ljós að þau hefðu ekkert verið að hringja. Hinsvegar hafði Ragnar fengið aðeins að skoða símann hennar mömmu sinnar eftir að tryggilega var gengið úr skugga um að hann væri læstur. En hvað gerði minn elskulegi nafni þá – tók auðvitað læsinguna af og náði að stilla á síðasta númer sem var vitaskuld hjá ömmu. Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið að vera farinn að nota gemsa 11 mánaða gamall.

Eftir hádegið fékk ég svo  óvænta ástæðu til að skreppa í sveitina með sérstaka sög fyrir flísaskurð sem Haukur átti hérna í skúrnum og  meira flísalím til öryggis ef það vantaði meira af slíku. Ég stoppaði nú ekki lengi í Sælukoti en nóg til þess að ég drakk með þeim kaffi, fékk knús og tók nokkrar myndir.

Hér er Guðbjörg í ham að flísaleggja þessar furðulegu flísar sem hafa engan sléttan kant.

flisar.jpg

Og hérna kveðja feðgarnir ömmu þegar hún fór aftur heim á Selfoss.
Myndin er svolítið óskýr í rigningunni og mikil speglun í henni.

kvedja.jpg

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Laugardagur til lukku.

  1. Svanfríður says:

    Þetta hefur verið yndislegur morgun mín kæra-ohh, það er svo ljúft að geta morgnað sig í friði og ró; eins ljúft og jólin!

  2. afi says:

    Ráðagóður
    Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Eða öllu heldur: snemma beigist krókurinn. Krossgátustund er mikil ánægju stund. Eins og sagt er: morgunstund gefur gull í mund.

  3. Guðlaug Hestnes says:

    svipurinn…
    á þeim stutta segir: amma ekki fara. Kvitt kvitt

Skildu eftir svar