Höfuðborgarferð.

Á mánudaginn var borgarferð á dagskránni hjá mér.  Ég byrjaði nú á því að skreppa í IKEA en auðvitað var hætt að fást það sem ég leitaði að. Ég ætlaði að kaupa svona hólf fyrir kryddbauka til að hafa í skúffu svo þetta skrölti ekki í skúffunni. En, nei, þetta var hætt að fást. Stúlkan sagði að það væri alltaf verið að spyrja um þetta og hún bara gæti ekki skilið af hverju þeir hefðu tekið þetta út. Ef einhver veit nú hvar svona lagað gæti fengist þá endilega leggið orð í orðabelginn.


Ég kom svo aðeins til Sigurrósar og Jóa og síðan byrjaði kvöldprógrammið. Fyrst á dagskránni var að hitta Avon ladies í nýja húsinu hennar Laufeyjar. Það er alltaf jafn gaman að hitta þessa fyrrum vinnufélaga sína og frábært að við skulum halda svona hópinn áfram. Það var verst að ég þurfti að fara svo snemma. Ég fór þó ekki fyrr en ég var búin að smakka aðeins á öllu fíneríinu sem hún Laufey var með á boðstólum.


Næst á dagskránni var að mæta í saumaklúbbinn minn sem verður fertugur næsta haust. Auðvitað á maður að þegja yfir því hvað við erum orðnar gamlar, en ég er svo stolt af því hvað við höfum haldið saman áfallalaust í öll þessi ár. Ég hugsa að það séu ekki margir saumaklúbbar þar sem engin endurnýjun hefur átt sér stað í 40 ár. Við mætum bara samviskusamlega á hálfs mánaðar fresti frá hausti og fram á vor og alltaf hlakkar maður jafn mikið til að fara í saumaklúbb.


Nú ég skellti mér svo í Hafnarfjörðinn þar sem Haukur vakti eftir mér og við settumst niður og fengum okkur eitt Sherrystaup  svona til að ná sér aðeins niður eftir herlegheit kvöldsins. Ég svaf svo svefni hinna réttlátu, hvort sem ég átti það nú skilið eða ekki, til klukkan níu næsta morgun en það gerist ekki oft í einum dúr.


Það var svo ekkert annað en drífa sig austur á þriðjudeginum í hvílíku skítaveðri, roki og rigningu. Við renndum aðeins upp að Ingólfsfjalli til að athuga með merkingarnar á steinunum sem við ætluðum að fá flutta í garðinn til okkar en það var auðvitað allt fokið út í veður og vind eins og við var að búast. Ég er að hugsa um að láta þetta með grjótið aðeins bíða í bili. Aldrei að vita nema maður hitti á eitthvað ennþá nær.


Í gærkvöldi sátum við svo hjá barnabörnunum því Guðbjörg fór í  einn af saumaklúbbunum sínum hérna á Selfossi.


Nú er Haukur kominn á fullt að taka til í bílskúrnum og ég er að hugsa um að þykjast eitthvað fara að hjálpa til. Það verður þó sjálfsagt aðallega fólgið í því að skipa fyrir og skipta mér af. Ég er ótrúlega lagin við það.


Ég ætla síðan að skreppa yfir til Eddu og vinkona hennar og okkar úr sundinu kemur líka en Edda ætlar að koma okkur af stað að gera dúka undir jólatré.


Læt þetta duga í bili. Á morgun verður sjálfsagt í nógu að snúast því Guðbjörg er að fara í æðahnútaaðgerðina í fyrramálið og ég tek börnin að mér  þangað til Siggi sækir þau á föstudaginn svo ég veit ekki hvenær ég kemst í að setja eitthvað inn næst.  

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar