Gleðilega páska.

Ég stóð við það að hafa það bara notalegt í dag fyrir utan það að þurfa að skreppa aðeins út að versla. Það var sama brjálæðið bæði í Bónus og Nóatúni eins og á miðvikudaginn  Raðir eftir að komast að kassa til að borga fyrir herlegheitin náðu í Bónus nærri því inn að mjólkurkæli sem er í enda búðarinnar. Maður varð bara að koma sér í slökunarástand til þess að springa ekki úr stressi. Mig vantaði nokkra smáhluti og var klukkutíma að skreppa eftir þeim. 

Þetta hafðist þó og eftir að fá okkur kaffi og tertu þá ákváðum við Haukur að láta nú verða af því að fara og skoða Húsið á Eyrarbakka. Mikið fannst mér gaman að skoða þetta fallega gamla hús og safnið sem það geymir. Mér finnst alveg sérstaklega góður andi í þessu húsi og ég held að fólki hljóti að hafa liðið vel sem þarna bjó eða dvaldi.  Mig langaði mest til að setjast niður í eldhúsinu, drekka kaffisopa úr einhverjum af gömlu bollunum sem þar eru og láta fara vel um mig lengi, lengi.  það er svo misjafnt hversu vel manni líður þar sem maður kemur, hvort sem um er að ræða nútíma heimili eða gömul. Stundum kemur maður þar inn sem mann langar mest til að fara beint út aftur. Svo kemur maður inn þar sem manni líður strax svo vel. það er ekki spurning að hús og íbúðir hafa sína sál.

Þetta minnir mig á þegar við Oddur heitinn vorum að leita okkur að íbúð til að kaupa. Við máttum koma og skoða ákveðna íbúð í Hliðunum sem ég  ætla ekkert að tilgreina nánar hvar var. Við gengum upp útitröppurnar og fórum inn í forstofuna og ég fór upp í fyrstu þrepin inni þegar ég sneri mér að Oddi og sagði að þarna gæti ég ekki hugsað mér að búa. Hann sagði að við hefðum þá sömu skoðun á því. Við skömmuðumst okkar nú að snúa til baka en við gátum ekki hugsað okkur að skoða sjálfa íbúðina. Ekki veit ég hvað kom yfir okkur bæði þarna en í sömu ferð skoðuðum við aðra íbúð í Hlíðunum sem virkaði þannig á okkur að um leið og við komum þar inn þá vorum við ákveðin í að kaupa. Samt var alveg hræðilegt blátt nylonteppi á gólfinu í holinu og það var sko ýmislegt sem þurfti að gera en andinn í því húsi var góður og síðan kom í ljós að fólkið sem bjó í húsinu var alveg yndislegt.
Ekki skrýtið að dæturnar okkar hafi báðar orðið til í því húsi.

Enn einu sinni er ég allt í einu komin á flug langt út fyrir það sem til stóð. Þetta átti bara að vera mjög lítill og nettur pistill um Húsið á Eyrarbakka, en kannski er það einmitt þetta sem er svo skemmtilegt við dagbókina – hún tekur stundum völdin og fer með mann út um víðan völl minninganna.

Nú er páskadagur á morgun og ég segi því við ykkur öll

Gleðilega páskahátíð

Ég birti aftur myndina af honum nafna mínum sem ég var með um daginn,
en hún er svo páskaleg
.

vajpg.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Gleðilega páska.

  1. Svanfríður says:

    Gleðilega páska mín kæra og njóttu morgundagsins.
    ÞEtta er alveg rétt með hús og anda þeirra, sum hús eru bara í betra skapi en önnur.

  2. Gleðilega páska!
    Eitthvað hitti ég á vitlausan takka hér fyrir ofan en langaði að óska þér gleðilegra páska, falleg myndin af litla nafna þínum 🙂

Skildu eftir svar