Hvað skal til bragðs taka?

Ég ákvað strax í morgun að í dag skyldi ég fara í gegnum sumar-og-sólar fötin mín og finna út hvað ég á af slíku sem ég kemst ennþá í og hvað ég ætla að hafa með mér í fyrirhugaða ferð í sólina.

Ég náði í tröppuna í bílskúrinn og prikaði svo herlegheitin niður úr efstu hillunum í fataskápnum. Það elsta í þessu sumarfatasafni mínu hef ég átt og notað samviskusamlega á hverju sumri síðan áður en ég kynntist Hauki (við höfum verið saman í 17 ár í sumar). Ég var svona að vonast til að nú myndi ég ekki komast í gömlu kjólana og pilsin og gæti því með góðri samvisku látið það flakka og endurnýjað herlegheitin. Ég var hinsvegar ekki svo heppin, því allt passar og nú sit ég uppi með þessi eldgömlu föt eina ferðina enn og finnst ótækt að nota þetta ekki þegar ekkert sést á því og margt af þessu notar maður bara í sólarlöndunum hvort sem er.

Nú er ég búin að eyða deginum í að máta þessi gömlu föt og fetta mig og bretta í speglinum í þeirri von að spegillinn segði mér hvað ég ætti að gera. En það var víst bara drottningin í  Mjallhvítarævintýrinu sem átti slíkan töfraspegil svo ég verð víst að ákveða þetta sjálf. Ekki þýðir að spyrja Hauk því það er sama í hverju ég er þegar ég spyr hann, svarið er alltaf " Þú ert nú rosalega fín í þessu?. Arg, arg. Stundum vill maður bara fá svar eins og t.d. "Þú ætlar þó ekki að vera í þessum gömlu leppum eina ferðina enn". 
Hvernig stendur á því að þetta er svona erfitt?  Af hverju þarf ég alltaf að taka einhverju ástfóstri við fötin mín og ganga í þeim þangað til fólk heldur að maður sé aftan úr fornöld? Ég vona að ég sé ekki ein um svona rugl eða kannist þið við svona "syndrom". 

Nú liggja sem sé þessir leppar mínir út um allt inni í gestaherbergi og ég veit ekki mitt rjúkandi ráð hvað ég ætla að  gera í málinu. Þetta hefur aldrei verið svona erfitt eins og núna. Eitt veit ég þó, ég ætla að loka herberginu þangað til ég er búin að safna orku til að ráðast í nýja atrennu.

Hvað á ég að gera ?????????

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Hvað skal til bragðs taka?

  1. Sigurrós says:

    Auðvitað ótækt að vera í sólstrandarfötum frá síðustu öld! Kíktu endilega í verslunarferð 😉

  2. Guðlaug Hestnes says:

    gerður bara
    mín kæra það sama og ég, en kannski er það ekki til eftirbreytni. Í sólarlöndum er ég enn að nota 15 ára gamla kjóla, og eru þeir í fullu fjöri. Margir peningar í föt sem eru í tísku í smá tíma, og þá bara í sólinni. Kommon, eyddu þeim í mat og skemmtan! Gangi þér vel í þessum pælingum.

  3. Þórunn says:

    Sumarföt
    Ég er alveg sammála Guðlaugu, vertu bara ánægð að passa ennþá í fötin þín, það eru margir sem vildu vera í þínum sporum með það. Það er svo margt annað hægt að gera við peningana á ferðalögum. Bestu kveðjur frá okkur í sólinni í Portugal.
    Þórunn og Palli

  4. Hulla says:

    Rauði krossinn 🙂
    Ef ég væri þú, þá mundi ég gefa gömlu fötin í rauða krossinn og kíkja með Sigurrós í búðarráp. Þá ertu bæði að hjálpa þeim sem eiga ekki mikla peninga, gleðja sjálfa þig og Sigurrós. Held nebblega að henni langi með þér í búðir.
    Ég hinsvegar mundi kaupa mér ný föt og geyma samt þau gömlu. Það er ekki gott, enda fullt af kössum hér með 15 ára gömlum fötum í sem ég á aldrei eftir að nota. Vondur kækur að geyma allt.
    Love u

Skildu eftir svar