Einn sá albesti og sannur í þokkabót.

Já nú ætla ég að segja ykkur sannan branda og hann er einn sá besti sem ég hef heyrt. Kannski finnst mér hann svona góður af því að persónurnar í brandaranum sögðu okkur hann sjálfar. Ég kunni samt ekki við annað en breyta nöfnunum á þeim og kalla þau bara Jón og Gunnu.

Þetta gerðist á þeim árum sem Gunna var á pillunni, en pilluna geymdi hún alltaf í efri skáp í eldhúsinu .  Kvöld nokkurt var hún komin upp í rúm í svefnherberginu, sem var á efri hæð hússins,  þegar hún áttaði sig á því að hún hafði gleymt að taka inn pilluna. Hún var svo heppin að Jón var ennþá niðri svo hún kallaði í hann og bað hann um að koma með pilluna og vatnsglas þegar hann kæmi upp svo hún þyrfti ekki að fara aftur niður.  Það var nú aldeilis sjálfsagt að hann Jón gerði það fyrir konuna sína og hann snaraði sér í það að ná í pilluna í skápnum og lagði síðan af stað upp stigann með pilluna í annarri hendinni og vatnsglas í hinni. 

Nú víkur sögunni aftur að svefnherbergi Gunnu. Hún heyrði að Jón var á leiðinni upp stigann en allt í einu heyrði hún mikið öskur og formælingar.  Hún var viss um að eitthvað hræðilegt hefði gerst og stökk fram úr rúminu í þann mund sem Jón geystist inn í svefnherbergið og sagði "Ég er nú meiri bölvaður asninn, hvað heldurðu að ég hafi gert?" Það vissi Gunna ekki.  "Jú, þegar ég var kominn upp í miðjan stigann þá fannst mér allt í einu svo skrýtið að vera með pillu í annarri hendinni og vatnsglas í hinni svo ég dreif mig í að gleypa pilluna og drakk vatnið með, en mundi þá af hverju ég var með pilluna og vatnið"

Hún sagði að þeim hefði sko ekki verið hlátur í hug á þessari stundu og hann var smeikur um að þetta hefði einhver dramatísk kvenleg áhrif á hann og var jafnvel að spá í að hringja á læknavaktina en lét það nú vera. Síðan sprungu þau úr hlátri og grínuðust með að hann myndi örugglega byrja á túr daginn eftir.

Ég hló að þessu í nokkra daga úti á Tenerife og fékk leyfi hjá þeim til þess að setja þetta á heimasíðuna mína.

 Ég opnaði 1000 ástæður hamingju og gleði – bókina mína og hitti fyrir tilviljun á þetta:

Gerðu þér far um að gleðja samferðamenn þína

–  þá finnurðu gleðina sjálfur.

Hvílík tilviljun að hitta á þetta eftir söguna af samferðamönnunum okkar.

Njótið helgarinnar kæru vinir.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Einn sá albesti og sannur í þokkabót.

  1. Sigurrós says:

    Mr. Bennett í „Pride and prejudice“ hafði einmitt þetta að segja um samferðamennina 🙂

    „For what do we live, but to make sport for our neighbours, and laugh at them in our turn?“

Skildu eftir svar