Hátíð hafsins – Sjómannadagurinn

Við ákváðum að skreppa í bæinn í gær laugardag og kíkja á mannlífið og á Hátíð hafsins. Við byrjuðum á skemmtilegri uppákomu í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu en þar var í gangi getraunasamkeppni um gömlu sjómannalögin. Liðin voru tvö sem kepptu, Óafsfirðingar og Faxaflóabúar og þurftu þátttakendur að vita ýmislegt um sjómannalögin til þess að fá stig fyrir sitt lið, eins og t.d. að þekkja höfunda lags og texta, kunna áframhaldandi ljóðlínur og fleira. Hljómsveitin Roðlaust og Beinlaust flutti lögin og allt var þetta á léttu nótunum og mikið spaugað.   Við höfðum mjög gaman af þessu og sátum þar til úrslit lágu fyrir en Ólafsfirðingar mörðu þetta með einu stigi yfir. 

Síðan röltum við aðeins um miðbæinn en þar var frekar fátt fólk á ferli og ekkert að ske.  Á bekkjunum við Austurvöll sátu nokkrir kumpánar sem annaðhvort voru þarna af gömlum vana með bokku á milli sín eða voru enn að djúsa síðan á föstudagskvöldið.  Ekki sáum við þó Boga og Örvar en þeir hafa kannski verið uppi á Arnarhólstúni að venju. Ég verð alltaf hálf smeik þegar fólk undir annarlegum áhrifum gengur til mín, en það kom að okkur ungur maður sem bað okkur um að gefa sér peninga í strætó, það þyrfti ekki að vera meira en svona 250 krónur. Því miður hittist nú þannig á að við vorum ekki með neina lausa aura og ekki var blessaður maðurinn með posa svo við gátum ekkert hjálpað honum. Þetta var  myndarlegur maður, líklega svona um þrítugt og ótrúlega snyrtilegur, meira að segja í jakkafötum, þó þau hefðu nú alveg mátt fara í hreinsun.  Hann var greinilega undir áhrifum einhverra vímugjafa og þrasaði svoldið við okkur og var svo sem ekki alveg á því að við gætum ekki reddað þessu og kom með ýmsar uppástungur, en hann var ekki með neinn dónaskap og fór að lokum leiðar sinnar.  Ég var að hugsa um það hvort þessi ungi ólánsami maður ætti kannski konu og börn sem ekki vissu hvar pabbi væri niðurkominn.  Mikið er nú sorglegt til þess að vita að ungt fólk skuli sóa svona lífi sínu og ráfa um göturnar í annarlegu ástandi og þurfa að betla hjá náunganum til þess að komast í strætó – eða í það sagðist hann ætla að nota peningana. 

Eftir þennan stutta stans á Austurvelli héldum við Áfram yfir í Aðalstræti og létum verða af því að skoða Landnámssýninguna. Síðan lá leið okkar aftur út í Hafnarhús þar sem við fengum okkur kaffi og  köku á Listasafninu. Við fengum borð út við gluggann og gátum því horft yfir hafnarsvæðið, séð hvalaskoðunarskip koma og fara, Sæbjörgina vera að leggja af stað með fólk í siglingu og  svo á landkrabbana sem röltu  spekingslega um hafnargarðinn. Einnig voru þarna tvö hálf ræfilsleg tívolítæki og nokkur börn í hvoru fyrir sig. 

Laugardagurinn varð fyrir valinu í viðleitni okkar til að halda upp á sjómannadaginn því okkur sýndist á auglýsingum að búið væri að færa flest sem sjómannadeginum viðkom yfir á laugardaginn. Okkur fannst hinsvegar alveg vanta stemmninguna sem fylgdi þessari hátíð sem alltaf var mjög lífleg og margmenni niðri í bæ og hvergi gátum við séð að auglýstir væru dansleikir í tilefni sjómannadagsins en það var þó árum saman fastur liður að hafa gott ball þessa helgi.

Mér finnst við nú ekki orðin svo gömul að við getum hugsanlega verið  þau einu sem eftir eru með  áhuga á góðu harmonikkuballi, þar sem stíga má dansinn eftir gömlu góðu sjómannalvölsunum. En kannski erum við bara að verða útdauð þessi sem elskum að dansa það virðist allavega enginn hafa áhuga á því að halda dansleiki fyrir okkur.

Eða hvað – Haukur var að sjá það í Mogganum rétt í þessu , að það ætti að dansa hjá Félagi eldri borgara í kvöld klukkan átta. Nú vantar klukkuna fimm mínútur í sjö svo það er best að henda öllu frá sér, setja á sig andlit og greiða hárið, pússa skóna og skella sér í bæjarferð og stíga þar dansinn til miðnættis.  Ekki í fyrsta skipti sem borgar sig að kvarta á netinu og fá svo lausnina upp í hendurnar strax.

Nú má engan tíma missa – bless í bili.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Hátíð hafsins – Sjómannadagurinn

  1. afi says:

    Gaman – gaman
    En eymdinni getur skotið upp á ýmsum stöðum. Þetta hefur verið skemmtilegur dagur án nokkurs vafa.

  2. Svanfríður says:

    Sko-þú ert ekkert „gammeldags“ að vilja dilla þér við sjómannavalsa og önnur góðgæti-ég elska það líka en er þó mun yngri en þú. Við kunnum bara gott að meta, skvísurnar. Var annars ekki gaman á balli?

  3. Ragna says:

    Jú það var sko alveg þess virði að bruna í bæinn til þess að fá sér snúning.

Skildu eftir svar