Bank, bank

Ég var að hugsa um það í gær og stressa mig yfir því hvað ég ætti mikið ógert og hefði eitthvað svo lítinn tíma þessa dagana. Skúrinn er t.d. fullur af dóti sem við þurfum að fara í gegnum, ég á eftir að hreinsa blómabeðin fyrir veturinn og það er komið að því að það þurfi að mála hjá okkur, bútasaumurinn hefur ekki verið snertur í sumar og svo mætti lengi telja.

Þegar hér var komið hugsunum mínum þá bankaði ég nú bara í hausinn á mér og spurði hvað væri eiginlega í gangi þarna í toppstykkinu.  Hvort ég vissi ekki að ég ætti að gleðjast yfir því að það biðu mín verkefni því ekki væru allir svo heppnir að hafa heilsu til eða getu til að takast á við nein verkefni og hvort ég sæi eftir tímanum sem fór m.a. í skemmtilegt ættarmót, ferð norður í land og austur á firði, ferð til Reykjavíkur í gær og út að borða í gærkveldi.

Auðvitað skammaðist ég mín strax fyrir þessar hugsanir mínar og kvart og ákvað að snúa við blaðinu og njóta þess að vera það hress að ég geti gert það sem bíður úrlausnar.
Í dag koma því  dæturnar, tengdasynirnir og barnabörnin í kaffi og hver veit nema gamla konan bjóði í kvöldmat líka.  Á morgun ef veðrið verður svona gott ætla ég að klára að reita arfann sem hefur sprottið í rigningunni síðustu daga og fara kannski með Hauki í að sortera dótið sem hefur safnast í bílskúrinn. Kannski kemur eitthvað í veg fyrir að ég geri þetta og þá er ég ákveðin í að láta það ekki stressa mig heldur taka því fagnandi.

Já það á auðvitað að þakka fyrir að það eru verkefni sem bíða og vita að flest þeirra getur maður gert sjálfur þó það verði kannski ekki allt gert á morgun.

Lífið er dásamlegt
en því má ekki lifa hugsunarlaust.

(Þetta er ekki úr bókinni góðu heldur eigin hugarheimi.)

Það fylgja hérna nokkrar myndir frá síðustu viku.

Ragnar Fannberg var fljótur að finna sér vinkonu á ættarmótinu.

aettarm2.jpg

Guðbjörg og Haukur spjalla við Einar mág minn 

aettarm1.jpg

Svo er hérna mynd úr Jökulsárlóni sem skartaði
sínu fegursta á heimleiðinni að austan. 

 lon1.jpg

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Bank, bank

  1. Sigurrós says:

    Já, það voru sko lystisemdarveitingar sem við fengum hjá þér í dag og í kvöld. Hugsa að við verðum södd fram að næstu helgi!
    Takk fyrir okkur 🙂

  2. Guðlaug Hestnes says:

    Það er
    gott að hafa úr verkefnum að moða, og nú er greinilega komið að því að skipuleggja. Gangi ykkur vel

  3. Linda says:

    Það er alltaf úr nógu að moða ef maður er að leita af verkefnum..
    Um að gera að njóta þess að vera „truflaður“ við tiltektina innandyra, því sú vinna fer ekki neitt, heldur bíður þá bara betri dags..

    Farðu vel með þig elsku Ragna..

    Kveðjur frá Groton

  4. Svanfríður says:

    Það er gott að eiga eitthvað við að bjástra yfir vetrarmánuðina. Njóttu þín alltaf og har det bra. Ég hugsa til þín, kveðjur úr litlu bláu húsi, Svanfríður.

  5. nhrifm ydutnkpz
    oldifg wfulg ihdvpyame gotid ypzjrglnu vdrznb mikex

Skildu eftir svar