Hitt og þetta

Nú verður því ekki neitað lengur að haustið er að taka við af sumrinu. Hvílíkt rok og rigning sem verið hefur síðasta sólarhringinn og dagurinn áberandi farinn að styttast.

Hinsvegar var svo gott veðrið á sunnudaginn að við drukkum kaffi hérna úti á pallinum eftir hádegið og nágrannar okkar sem búa hinu megin við götuna komu og fengu sér kaffisopa með okkur. Ég hafði verið að kíkja á blómin mín hérna fyrir framan þegar nágrannakonan vinkaði mér og kallaði hvað það væri nú yndislegt veðrið. Jú ég var alveg sammála því og spurði hvort við ættum ekki að halda uppá það með því að fá okkur kaffisopa á pallinum hjá okkur. Þau voru alveg til i það og ég dreif mig inn til að laga kaffið. Þau sátu hérna góða stund og þökkuðu mér fyrir að hafa kallað á þau, það væri svo leiðinlegt hvað það væru lítil samskipti hjá fólkinu hérna í kring.  Ég sagðist  alveg vera til í það einhvern daginn að boða til kynningar-hittings, það ætti ekki að þurfa að vera mikið fyrirtæki.  Svo er bara að standa við stóru orðin og framkvæma.  Fyrsta árið hérna þá var haft götugrill en síðan ekki söguna meir, svo það er alveg  tímabært að gera eitthvað í málinu.  Flestir sem búa hérna í kring eru á svipuðum aldri, þ.e. okkar aldri,  þó er nú eitthvað um yngra fólk með börn en það er í mun færri húsum en þeir eldri.

Seinna á sunnudaginn komu svo Guðbjörg og Sigurrós með fjölskyldurnar sínar og við drukkum kaffi og borðuðum síðan saman kvöldmat, svo þetta varð  mjög góður og skemmtilegur dagur. Myndirnar mínar eru hér.

Ragna Björk ætlar að klappa Ragnari Fannberg
og afi fylgist vel með.

afakos.jpg

Rigningin og rokið síðasta sólarhringinn hafa því ekki truflað mig því ég átti svo gott inni frá helginni að ég hafði enga ástæðu til að kvarta yfir því úrhelli sem verið hefur. Svo var líka gott að veðrið var ekki betra því við erum búin að taka hvílíkt skurk í að fara í gegnum dótið sem Haukur kom með af Austurbrúninni og grisja og henda dóti úr bílskúrnum, þó reyndar sé enn af nógu að taka.

En það var ósköp notalegt seinni partinn í dag, að dusta af sér rykið og  fara í fyrsta tímann í vatnsleikfiminni og láta síðan líða úr sér í heita pottinum.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Hitt og þetta

  1. Linda says:

    Mikið líst mér vel á að þú haldir svona götusamkomu.. Það er alveg nauðsynlegt að kynnast nágrönnum sínum og blanda geði, og bara til að halda góðu sambandi við þá sem eru svona nálægt..
    Við á Krabbaeplagötunni höfum rætt þetta lengi en aldrei orðið neitt úr, heldur er bara heils og handaveifur þegar fólk sést.. Hálf yfirborðslegt einhvern veginn.. Kannski ég taki þig til fyrirmyndar og bara bjóði fólki hingað heim..

    Skemmtilegar myndirnar Ragna, og ekkert smá girnilegt kaffi- og matarborðið.. Uummmm..
    Afi Haukur tekur sig vel út með minnstu krílin..

    Bestu kveðjur yfir hafið..

  2. Anna Bj. says:

    Mikið var gaman að skoða þessar myndir af familien, Didda mín. Voða myndarleg þessi litlu tvo og Ragna litla algjör prinsessa , svo fín.
    Þú hefur aldeilis haft nóg að sýsla um helgina, þér líkt. Alltaf gaman að fá fjölskyld . heim í mat. B.k. Anna Bj.

  3. Svanfríður says:

    Svona hittingur er mjög sniðugur því það er alltaf gott og stundum nauðsyn að þekkja nágrannana.
    Annars er gaman að sjá hvað barnabörnin þín yngstu dafna og stækka vel.
    Hafðu það gott, Svanfríður.

  4. Ragna says:

    Byrjuð að
    leita að nöfnum og kennitölum þeirra sem búa í húsunum í kring, í símaskrá og þjóðskrá. Vonandi læt ég ekki þar við sitja.

  5. Þórunn says:

    Götuhittingur
    Þetta er sniðug hugmynd hjá þér að bjóða nágrönnum þínum að koma saman til að kynnast og fá sér gott í gogginn. Það væri fróðlegt að prófa þetta í mínu þorpi í Portugal, ég veit ekki hvernig því væri tekið þó allir séu elskulegir og heilsi vingjarnlega þá hef ég ekki orðið vör við að fólkið bjóði nágrönnum inn til sín þó það hafi búið við sömu götu í 40 ár. Þegar konurnar hittast á götunni, standa þær og spjall, jafnvel í klukkutíma en bjóða ekki inn til sín. Sinn er siður í landi hverju.

Skildu eftir svar