Gaman, gaman það er málið.

Þá er komið að vikulokum enn einu sinni. Tíminn flýgur á ógnarhraða svo maður verður að hafa sig allan við að hanga á tímalínunni.

Það er mikill spenningur í gangi hjá okkur sem unnum saman í "þrælakistunni" eins og vinnustaðurinn okkar var nú oft kallaður. Við höfum nefnilega síðustu daga verið að fá boðskort vegna sextugsafmælis einnar sem býður okkur öllum í afmælið sitt.  Í dag hef ég svo verið að fá tölvupósta með fréttum af þeim stöllum.
Ein þeirra varð amma í fyrsta skipti í sumar og ég get vel skilið hana þegar hún segir að það eigi hug sinn allan og helst vildi hún að ömmur fengju barneignaleyfi.
Þá svaraði önnur að hún hefði einhvers staðar lesið að það að verða amma sé eins og að verða ástfangin á ný.
Ég er því alveg hjartanlega sammála enda alveg einstök tilfinning að vera amma.  Þó ég sé oft fúl yfir því að hafa dottið út af vinnumarkaðnum svona snemma þá hafa það auðvitað  verið einstök forréttindi að hafa getað verið amma sem er ekki bundin í vinnunni. Núna hlakka ég t.d. til fimmtudaganna því þá kemur Karlotta til mín úr skólanum og fær sér smá í svanginn hjá ömmu áður en hún fer í tónlistartíma en nú er tónlistarskólinn fluttur svo nálægt mér.  Nú vantar bara að Ragna Björk sé líka komin austur yfir fjall en það hefur ekki tekist að telja foreldrum hennar hughvarf, enda væri það ekki sanngjarnt gagnvart ömmu og afa í Reykjavík sem hafa nú eignast sitt fyrsta barnabarn.

Auðvitað fylgir það því að vera orðin amma og fá stöðugt að bæta við árin sem maður fær að vera með barnabörnunum sínum, að hrukkur fleiri í dag en í gær blasa við í speglinum á hverjum morgni.
En helgartextinn að þessu sinni fékk mig til að staldra við og hugsa um hvað það er sem gefur lífinu gildi.

 Andlitslyfting breytir útlitinu
en fjarlægir ekki ástæðurnar fyrir rúnum lífsins.
Lífsgleðin
er besta andlitslyfting sem hægt er að fá.

——————–

Njótum helgarinnar, spörslum bara í hrukkurnar
og höfum gaman.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Gaman, gaman það er málið.

  1. Guðlaug Hestnes says:

    Njótum
    þess bara að vera ömmur með hrukkur, þær sýna árin og viskuna!!

Skildu eftir svar